laugardagur, desember 25, 2004

Jólarólegheit!

Já..það var nú ekkert mikið stress á liðinu sem kom að versla hjá mér á Þorláksmessu. Ó nei, frekar nokkrir kærulausir skrautlegir menn! Lyktin var heldur ógeðfelld á köflum; skötulykt og brennivínslykt.
Eftir langan, skrautlegan og annasaman vinnudag var öslað með pakka í hendinni á Hard Rock Cafe til að setjast aðeins niður. Við barborðið sá maður strax nokkra viðskiptavini frá því um daginn..að fylla á endalausann tankinn! Ég entist nú ekki lengi í reykingastibbunni þannig ég fór út í frostið og keyrði af stað heim, endalaust þreytt.
Morguninn eftir: pakkað inn og vælt með jólalögum..farið í jólabaðið, andlitið sett upp, smellt sér í jólafötin og drifið sig út í bíl með gjafir handa vinum. Gaf og þáði: pakka, kossa, knús, óskir um gleðileg jól. Allt partur af því að gera jólin að því sem þau eru...
...alveg eins og biðin eftir því að klukkan verði sex! En loksins kom að því og þá var sest við borð og tekið til við að hesthúsa hangikjöt að vestan...með ora grænum og egils malt og appelsín (og auðvitað fullt af öðru meðlæti).
Eftir dýrindis mat og uppvask (jep..við erum ekki með uppþvottavél) var þrammað inn í stofu þar sem úrval af gjafapappír beið eftir dómsdegi sínum. Þau yngri voru miskunnarlaus...tættu pappírinn í sig á meðan þau eldri fóru hægar í þetta: þolinmæði þrautir vinnur allar!
En í miðjum klíðum pípir gemsinn hjá mömmu..neyðarlínan! Ert ekki að grínast...það er útkall!
Mamma fleygir í mig einum pakka og segir að það sé bezt að ég opni hann áður en ég skipti um föt. Ég breytist í miskunnarlausan gjafapappírstætara og í ljós kemur björgunarsveitajakki! Vúhú loksins! Smelli mér í cintamani, marmot, 66°N og fleiri góð merki sem halda á mér hita og í nýja jakkann yfir..með bros á vör! Ég og mamma brunum upp í hús og skiljum restina af fjölskyldunni eftir í upppakkningu.
'gleðileg jól' og 'ég var ekki búinn að opna alla pakkana' voru algengar setningar meðal björgunarmannanna...þar til alvaran tók við. Leit að manni í Reykjavík...vonsku veður úti og hann á inniskóm! En sem betur fer fannst hann, góð jólagjöf!

Nú er það bara að éta og liggja á meltunni..horfa á TV og hlusta á tónlist...bara hafa það gott, hvernig sem það verður!! Enn og aftur...gleðilega hátíð dúllurnar mínar og farið vel með ykkur!

Framundan: ball á 2. í jólum..og svo áramótin með tilheyrandi glimrandi skemmtun og gleði!!

miðvikudagur, desember 22, 2004

Gjörðu svo vel...og gleðilega hátíð!

Jæja börnin góð, senn kemur hápunktur hátíðahaldanna þennan myrka mánuð, þegar tendrað er á jólaljósunum kl.sex á aðfangadag og klukkurnar hringja inn jólin! Hver er ekki glaður og sæll á þeim tíma...hátíð ljóss og friðar. Ekki endilega kristinnar trúar tengt heldur eru jólin fyrir mér fjölskylduhátíð og hamingjan og friðurinn sem fylgja þessu...lýsir upp þunglyndis skammdegið!

Loksins frídagur hjá mér í vinnunni...svaf til hálfellefu og staulaðist svo út í bíl með pabba og Fríðu systu. Við lögðum á Hverfisgötunni og örkuðum inn á Laugarveg í nístandi frostinu. Slatti af fólki á röltinu, ómur af sömu glamrandi jólalögunum, kaffi og möndluilmur náði að ryðja sér leið inn um nefið í gegnum sultardropana....á gangstéttinni stirndi á frosinn ælupoll, eftir skrautlega helgi hjá einhverjum, sem á örugglega eftir að verða valdur að úlnliðsbroti hjá einstaklingi með hendur fullar af jólagjöfum og sér ekki hvar hann stígur niður fæti.
Eina tilfinningu sem tengist óneitanlega jólastemningunni hjá mörgum samlöndum mínum hef ég þó ekki orðið vör við...alla veganna ekki í jafn miklu magni og áður. Það er blessað jólastressið. Og nú ætti ég að vera búin að smá skammt af því í vinnunni, en svo er ekki. Stressið er á undanhaldi. Í Kringlunni beið fólk rólegt í röð eftir afgreiðslu og á stjörnutorginu stóð par með matarbakka og spurði fjölskyldu, sem sat við hálft borð, kurteislega hvort það mætti tylla sem við hliðiná þeim. Svo virðist sem flestir séu að læra inn á að skipuleggja tíma sinn fyrir jólin..
..en ég ætla nú ekki að segja já og amen við þessari tilgátu minni; enn á ég eftir að vinna á morgunn, Þorláksmessu dag og kvöld!
En í dag ætla ég sko að taka daginn með ró og leti, vefja gjöfum inn í glanspappír og krota á miða til:...og frá:...! Ekkert getur raskað minni stóísku ró, nema kannski rauð jólaspá?! Nei annars, ég er hætt að kippa mér upp við þá veðurspá! Orðinn að jólasið að hafa rauð jól, enda rauður jólalitur!

Gleðilega hátíð elsku snúllurnar mínar og hafið það sem allra allra bezt yfir jólin! Étið á ykkur gat án þess að hugsa um kaloríurnar (það má yfir jólin) og njótið þess að stúta gjafapappír og umslögum til þess að opinbera glaðning og góðar kveðjur!!




mánudagur, desember 06, 2004

Óritskoðaðar hugrenningar..

Og hvað heyrir maður svo á milli jólaauglýsinganna?! Babyliss hárdótið er frábær gjöf fyrir stelpur..og STRÁKA! Hárblásarar og sléttujárn.... oh my! Þetta hefði aldrei verið auglýst á tímum hellisbúans!!
Og ef Durex auglýsingin hefði verið spiluð snemma á síðustu öld þá hefði margur maðurinn fengið hjartaáfall! Verið að bera saman kynlíf með venjulegan smokk (falskur vælari syngur e-ð um sexy) og Durex smokk (you shook me all night long með ACDC) með einhverjum lögum....frekar silly!
Og hvað er málið með þessa Birgittu dúkku?! Ég meina manneskjan er ein dúkka í framan (skoðið coverið á nýjasta disknum hennar) en þeim tókst að gera dúkkuna eins ólíka fyrirmyndinni og hægt er! Eins og var sagt í morgunblaðinu: líkist meira Rut Reginalds en Birgittu sjálfri!

Ég held að ég slái persónulegt met í ár að innpökkun.. og er ekki einu sinni byrjuð að hugsa um jólagjafir sem ég ætla að kaupa! Er búin að pakka inn svona milli 10-20 pökkum í vinnunni! Skil ekki fólk sem að lætur pakka inn gjöfinni í versluninni....sorry, ég bara næ því ekki! Ekki taka þessu neitt persónulega ef að þið gerið svoleiðis, ég er bara ég og þetta eru mínar skoðanir óháð ykkar glimrandi persónuleika!
Mér finnst það að pakka inn jólagjöfum handa fjölskyldu og vinum, við klingjandi hljóm jólalaganna og sætan ilm af jólasmákökum, vera það eitt af mörgum ‘mómentum’ sem gera jólin að því sem þau eru! Þess vegna langar mig að teygja mig yfir búðarborðið og gúddera einn koss á þau sem vilja ekki láta vefja sinni gjöf inn í jólapappír! En hei..ég vil halda minni vinnu örlítið lengur!
Hver haldiði að hafi kíkt í La Senza um daginn? Enginn annar en hann Himmi kall! Og svei mér þá, ég held að hann hafi bjargað deginum fyrir mér! Búinn að vera heldur stressandi og leiðinlegur dagur, en þá kemur inn skælbrosandi og töfrandi Himmi með fjölskyldu og galdrar fram bros og jákvæðni hjá manni! Virðist liggja eitthvað í genunum hjá þeim bræðrum þessir galdrar! Held að Himma sé þetta eðlislægt að lífga fólk við..ég viðurkenni alveg að Himmi og ég erum ekki bestustu vinir sem hittumst alla daga, en ég meina við þekkjum hvort annað alla veganna! En þessi fáu skipti sem hann talaði við mig í Kvennó, og utan hans líka, þá var ég alltaf smá niðri. En eftir Himma chat þá er maður allt annar!
Kvennó, Kvennó, Kvennó...ég veit ekki hvar ég væri ef ég hefði ekki farið í þann skóla! Kynntist fullt af frábæru fólki...annar yndislegur maður sem kom í La Senza fyrir nokkrum dögum: Guðmundur Valur! Hann leit nú bara inn til að tala við mig..sem lífgaði upp á þann dag!! Alltaf gaman að hitta Drekafluguna, sem er á sífelldu listaflugi núna, fyrir utan þeyting í kringum búferlaflutninga og fleira! Mikið að gera hjá honum..og mörgum öðrum góðum Íslendingum!!

..ekki mikið að gera hjá mér, þótt ég þykist vera bizzí með því að skrifa ekki í þetta rykfallna vefrit í marga marga daga!!

mánudagur, nóvember 22, 2004

Snjórinn er kominn að kveða burt..óbeyglaða bíla!

Grunaði ekki Gvend?! Alla veganna ekki mig..ég hefði hlegið af þeim sem sagt mér að það myndi vera snjór á grundu í heila viku..fyrir jól!
Daginn sem það snjóaði hvað mest var ég heima en var svo kölluð í vinnu klukkan fimm. Þar sem enginn bíll var heima (bróður mínum tókst að skauta aftan á bíl á ljósi og var því ennþá í bænum) tók ég strætó í bæinn. Það var byrjað að skafa heldur mikið þegar ég labbaði upp í skýlið. Skyggnið var svona 50 metrar..enda var ég um tvo tíma að komast niður í Baðhúsið í staðin fyrir hinar venjulegu 30-40 mínútur..
Skrýtin stemning úti þann daginn: mjög fáir bílar á ferð, fáar manneskjur úti...stóð í strætóskýli í Mosó. Horfði fram fyrir mig og sá: unga móður með barn í körfu, að rembast við að halda teppinu yfir körfunni svo snjófokið færi ekki á barnið. Annars var útsýnið ekkert meira en niðursnjóað landslag og svo einn og einn bíll sem skautaði fram hjá.
Anyways, það var óvissuferð/jamm í hinni vinnunni minni á laugardaginn var..en líka tvítugsafmæli hjá Hönnu Lilju..og hjá Sigurborgu. Óvissan byrjaði klukkan fimm með einum Tuborg og náttfötum sem við vorum klæddar í. Svo fengum við vísbendingu og okkur sparkað út í mannhafið í Kringlunni! Vúúíí! Svo var hver vísbendingin á fætur annarri rakin um alla Kringluna og við látnar leysa verkefni: syngja lög fyrir framan viðskiptavini, labba inn í vínbúðina með WC pappír í hönd og staupa á Kringlukránni!
Fengum samt að sleppa við að bjóða litlum börnum með okkur í leiktæki..enda hefðu krakkarnir eflaust rekið upp gól þegar hópur af skvísum í náttfötum hefði reynt að bjóða þeim í leiktæki með sér!
Eftir þetta var boðið upp á flatböku og meiri bjór...og svo lá leið okkar inn á Ölver þar sem lungu voru þanin og lögum nauðgað í nokkra tíma! Og að sjálfsögðu voru vættar kverkar þess á milli!
Að lokum var keyrt á Pravda..og ekki stoppaði söngurinn þó væri verið að keyra á næsta áfangastað! Á pravda fengum við meiri mjólk og meira gaman!
Ég kíkti smá í afmælið til Hönnu Lilju þar sem var líka söngur og gleði! Svo fór ég aftur á Pravda en þar voru einungis 3 stelpur eftir af liðinu. Endaði með því að bílstjórinn fór heim og ein var skilin eftir á Pravda. 2 gellur lögðu af stað í leiðangur...sem endaði á Hverfisbarnum! Dansað og annað..til svona fjögur, þá fórum við að huga að ferð á gististaði okkar!
Rakst á afmælisbarnið hana Hönnu Lilju að vaða snjóinn rétt hjá taxi pleisinu!

En annað..strandastrákarnir voru með tónleika síðastliðið kvöld...ég er svo lítið inni í því máli að ég veit ekki einu sinni hvar þeir voru, en fáir staðir koma til greina þannig ég giska á Laugardalshöll!
Annað að skrifa um hef ég ekki í erminni..kemur inn síðar í þessu vikulega-hálfsmánaðarlega vefriti!! Rosalega er ég orðinn 'þykjast vera upptekin'!! hmm...

En kíktu á þetta...drengilegir íþróttamenn og sonna!

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Flugslysaæfing o fleira!!

Litið yfir farinn veg..sem er heldur langur!
Er ekki ennþá að skilja Bandaríkjamenn og endurkjörís þeirra á herra Runna..

Er byrjuð að vinna í verslun sem selur undirföt...frábær búð og frábært starfsfólk!

Var á flugslysaæfingu á laugardaginn..varnarliðið á lakkskóm, brotabuxum og í skyrtum (+ gel í hárið) tók að sér mest allt sem var hægt að gera á Keflavíkurflugvellinum! En eitthvað var þó hægt að gera þarna..þótt að einhverjir 'sjúklingar' hafi ekki mætt á æfinguna!

Fór á árshátíð Hönnunar eftir flugslysaæfinguna. Hún var haldin á hótel Nordica..voða fancy. Fínn matur og góð tónlist. Allt á léttu nótunum þótt glösin hafi verið í yfirvigt að vökva! Enda sást það á myndbandi sem var sýnt að Hönnun fylgist vel með að enginn sé með þurrann háls á hvers konar viðburðum...líka á íþróttamótum!

Búið að fjölga í fjölskyldunni minni á ný...mamma og afgangurinn af systkinum mínum komin heim frá Danmörku..með fullt af dóti og nammi!
Einnig er ég búin að eignast gæludýr...glansandi fín og nett Dell fartölva sem liggur núna fyrir framan mig og murrar lágt á meðan ég er að pikka inn!

Annars er ég nett pirruð í þessum skrifuðu orðum...var að reyna að ná sambandi við Iceland Express í gegnum síma (nú hlær eflaust einhver af bjartsýninni í mér)!
Fékk að vita að allir þjónustufulltrúar væru uppteknir og að ég væri númer níu í röðinni!
Eftir fjögur lög (þýðir ekki að þetta hafi verið fjögur mismunandi lög!) fékk ég að vita að ég væri númer fimm! Noh, hugsaði ég...þetta gengur bara hratt! En eftir þrjú og hálft lag í viðbót var ég ennþá númer fjögur og systir mín var búin að koma tvisvar inn og spurja um símann þá ákvað ég að leggja á! Enda búin að bíða í tuttugu mínútur...

Ætla að hætta núna þessu krappi, hjálpa frekar mömmu að fylla ísskápinn af mat...eitthvað sem var ekki á meðan ég, pabbi og Friðrik vorum heima!! hehe..

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Karrí versus Runni

Jæja kids, nú er komið að 'heimsviðburði'! Ameríkanarnir lipru (auk nokkurra hárglaðra gyðinga) eru að fara að velja sér nýjan leiðtoga!! Verður það hinn jarðsprengjubundni Runni aftur eða fáum við spennandi sambland af Heinz tómatsósu og Karrí?! Hvor hefur fagurgalað betur? Allir sem hringiða í sæti sínu og geta ekki haldið aftur af sér ættu að kveikja á myndlampanum í kringum miðnætti og fylgjast með glamúrnum og dramanu.
Hinir sem líkjast mér ögn frekar gera eitthvað annað og heyra svo tíðindin á morgunn í útvarpinu!
Annar 'heimsviðburður' sem er sjóðheitur um þessar mundir er hið blessaða gos í Grímsvötnum. Æstir fréttamenn í beinni sem reyna að spyrja sérfræðingana 'pro' spurninga og myndir af tilkomumiklum stróknum voru ekki að gera sig fyrir mig til að byrja með. Puh, strókur...þetta var bara skýjahnoðri við sjóndeildarhringinn!! Fordómar hjá töff og kúl Íslendingi sem finnst þetta ekkert merkilegt.. En þurfti bara að bíða í nokkrar mínútur þá kom smá litur í þetta (aðallega svart samt..þið megið rífast um hvort það er litur) þegar myndir frá Ómari kallinum fóru að birtast á skjánum! Við erum að tala um eldingar með þrumum og öllum pakkanum! Ómar Ragnarsson klikkar ekki frekar en fyrri daginn!
Nú er bara að vona að ekkert tjón hljótist af þessu reglubundna frussi..

Nóvember er genginn í garð...bjóðum hann velkominn!
En passiði að vera ekki of hjartahlý gagnvart honum..hann gæti launað ykkur með smá kvefi eða einhverju meira krassandi!!

mánudagur, nóvember 01, 2004

Trallalla!!

Alltaf er hún Hildur hressa dugleg að minna mig á að skrifa eitthvað!
Maður er að reyna að sýnast upptekin..en það er nú bara pjúra lygi!
Þá er það bara að vinda sér í það að segja hvað ég hef verið að gera!!

Eins og ég var búin að minnast á þá VAR ég með verkfallskrakka..nú er kennaraverkfallið búið í bili. En ætli það hrynji ekki inn 9.nóvember á ný. En þá er maður vonandi komin í aðra vinnu..

Svo er ég bara búin að vera á haus í björgunarsveitarmálum: fara á labbinámskeið dauðans (námskeið í rötun og leitartækni), kaupa mér búnað og fara í sigferð..
Svo er verið að múra eldhúsgólfið..pabbi hugsaði fram í tímann og tók pönnuna inn í stofu til að geta steikt hamborgara! Ég kem heim þreytt og köld úr sigferð helgarinnar og get ekki beðið eftir hamborgara en stoppa í miðju spori... ''Pabbi..hvar eru diskar og áhöld?''
''Uh, inni í eldhúsi!''
Hamborgarar kvöldsins voru steiktir í góðu yfirlæti og þeim svo snúið við með smjörhnífnum frá því í hádeginu og gosið drukkið úr kaffibollunum sem pabbi og múrarinn höfðu drukkið úr (nottla búið að þrífa þá!). Hamborgarar borðaðir með guðsgöfflum fyrir framan sjónvarpið (óruglað hjá stöð 2 og sýn) með servíettu utan um..getur þetta orðið betra?!

Vil hrósa þeim sem standa að blaðinu Orðlaus...mín sko búin að bíða lengi eftir því að fá almennilegann karlmann framan á forsíðuna! Öll þessi blöð sem gefin eru út og forsíðurnar prýða skvísur í skjóllitlum pjötlum í 99% tilvika!
Nýjasta blaðið frá Orðlaus er með virkilega fallega forsíðu...nakinn mann í ísklifri! Mæli með þessu blaði!

Jæja..meira efni sem eitthvað pínu er varið í hef ég ekki á mér! Þannig ég held það sé kominn tími á að kötta krappið hér og nú!!

  • Þið sem eruð í skóla: keep up the good work!
  • og þið sem eruð í vinnu: keep the good work!

Hafið það gott krúsirnar mínar..

föstudagur, október 15, 2004

Ammli (afmæli)

Jamm og já...nú er maður komin á þrítugsaldurinn!!
Ef við förum yfir það sem gerst hefur á líðandui stund...
Ég fór að síga í fyrsta skipti í síðustu viku, ég lenti í árekstri og ég átti afmæli! Bara þetta venjulega...! :)
Nú er ég orðin sig fíkill og ætla ég mér að fjárfesta í einu belti og dóti...fyrir utan allann annan búnað sem björgunarsveitarmaður þarf að eiga!!
Á sunnudaginn sem leið var ég á leiðinni í Keiluhöllina í Öskjuhlíð og stoppaði bílinn á nýjum ljósum hjá Valsheimilinu þegar einhver fyllibytta ákvað að keyra aftan á mig! Þessi maður var á silfraðri Celicu..vel kenndur..og klukkan bara sjö á sunnudagskvöldi!! Og svo vildi hann kenna mér um þetta!! Ég átti ekki til orð...veiddi upp símann minn sem var kominn lengst undir sætið og hringdi í lögguna, sem kom og gerði skýrslu og handtók gæjann..því hann vildi ekki blása í blöðru!!

Ég fékk enga blöðru á ammælinu mínu en samt eitthvað af dóti..og auðvitað ammælissöng!!

Svo er ég byrjuð að vinna..babysitting hjá fyrirtæki. Svona er þegar það er búið að vera verkfall í einn mánuð!!

fimmtudagur, október 07, 2004

Always

Fékk sent dömubindi í pósti frá Always Ultra..en ekki svona prufubindi, nei! Þetta var svona bara sýnishorn - prufa! Mér finnst það frekar mikil sóun á dömubindum ef farið er út í það að senda öllum konum á íslandi eitt svona stykki! En þar sem þetta var prufa þá ákvað ég að prófa þetta..og sullaði vatni yfir bindið! ''mjög rakadrægt''!! :o)

Námskeið í fyrstu hjálp is over...var heila helgi í Bláfjöllum ásamt ca. 30 nýliðum hjá Björgunarsveitinni Ársæli. Fólk á öllum aldri sem ætlar að vera sjálfboðaliði í að aðstoða almenning!! En alla veganna..hresst fólk, líka þau sem að voru að leiðbeina! Þar var meðal annars ein fyrrverandi Kvennómær, hún Kata úr NÞ bekknum!
Mikið lært og lítið sofið...t.d. eftir 4 tíma svefn baulaði brunakerfið klukkan sex, á sunnudagsmorgni, og við stauluðumst út á slysaæfingu. En hún gekk bara vel, þótt einn sjúklingurinn hefði verið nær dauða en lífi ef þetta hefði verið alvara!!

Er búin að vera svo dugleg að gera ekki neitt..að það rann up fyrir mér í gær að það er bara vika í afmælið mitt! Og ég sem ætlaði að vera búin að hugsa hvað ég ætlaði að gera á afmælinu, hvort það ætti að vera einhver veisla og svona! Hmm..

fimmtudagur, september 30, 2004

Litlu titrandi laufin..

Var að draslast í gegnum gömul bréf frá vinum..svona frímerktir ferhyrningar sem koma í pósti og innihalda eitthvað annað en reikninga og auglýsingar, you know! Heh, en alla veganna þá var þar einn brandarasmellur sem ég bara get ekki annað en sett hér á skjáinn:

Mor siger: Øl er din værste fjende!
Gud siger: Du skal elske din fjende...
...Skål!!
Tja, einhver afrek í dag...labbaði frá Ártúnshöfða og á Súfistann á Laugarveginum, tekur ekki nema klukkutíma..rúmlega.
Svo er að sjá hvort það gerist eitthvað á vinnukvöldi í kvöld hjá björgunarsveitinni dúllulegu! Einhverjir úr sveitinni fóru í gær í göngutúr um Hellisheiðina..ég beilaði! Sat heima og horfði á ER og America's next top model á meðan rokið barði á gluggann! En svo var víst bara fínt veður á heiðinni og þau voru á ganginu frá tíu um kvöldið alveg fram yfir miðnætti í tungsljósi!
Helgin framundan..allir búnir að plana eitthvað afslappandi eða fjörugt að gera!! Vei!!

miðvikudagur, september 29, 2004

Haustrok og bleikur þvottur blaktir:

Hmm, ég er ekki jafn dugleg að skrifa eins og ég hef verið. Gengur alltaf betur að skrifa þegar vorið er að sprengja brjóstkassann eða þegar sumarfiðrildi eru í maganum. Haustið gerir mig bara angurværa og þá fer maður að gera fullt af öðru en að skrifa eitthvað sniðugt!
Engin vinna enn, þannig ég er bara heima, gera eitthvað með björgunarsveitinni eða í bænum að æfa/hitta gamlar vinkonur! Eitthvað er herbergið að pirra mig, þannig ég er svona að reyna að skipuleggja það og hreinsa frá toppi til táar..eitthvað sem maður á að gera á vorin, er það ekki?

Ekkert framundan nema að horfa á gemsan og bíða eftir að atvinnan hringi í mig, hugsa um hvað mig langar í á afmælinu og hvað ég ætla að gera á afmælinu! Svo ætla ég að setja meiri orku í að heimsækja í ræktina...vúíí!
Er eiginlega búin að vera dúlegri að halda uppi annarri síðu: bjorgunarsveit.com en það er nýja síðan hjá litlu dúllu björgunarsveitinni sem ég er í. Við erum búin að vera hörkudugleg þessar síðustu vikur, og í kvöld er ganga um Hellisheiðina og næsta kvöld er það sveitarfundur. Og ég man ekki hvort ég var búin að skrifa eitthvað um það en við stóðum okkur líka vel á flugslysaæfingunni á Reykjavíkurflugvelli síðustu helgi...!
Interesting don't you think? En svona fyrir stelpurnar: fullt af myndarlegum mönnum í slökkviliðinu og sjúkraflutningum..svo ekki sé talað um í björgunarsveitunum líka! Löggugæjarnir eru svo 'yesterday' með sitt attitude og dónaskap! Ekkert flott við þá!
Vá, nú fannst mér ég vera svona gella úr 'Clueless' eða 'Legally Blonde'!

Eftir að hafa lesið hjá Gumma að Taxi 3 væri eitthvað fyrir augað, þá gat ég ekki beðið eftir að fá hana í hendurnar...þannig þegar það gerðist þá var ég ekki lengi að skella henni í spilarann!
Og viti menn...flott byrjunaratriði og fyndin tenging í Bond! En gjörsamlega ekki í samhengi við restina af myndinni, sem mér fannst ekki vera jafn spennandi og hinar fyrri..en samt ekki slæm mynd! Sami aulahúmorinn og tækjahugmyndirnar í kringum hvíta leigubílinn!

Og nú eru aðeins 3 mánuðir þar til ég flý landið!

föstudagur, september 24, 2004

Vika síðan síðast...slæmt!

Næstum vika síðan maður skrifaði eitthvað hérna..það veitir ekki á gott!
Maður er búin að vera á fullu í tengslum við flugslysaæfingu Reykjavíkurflugvallar, sem er núna á morgun: laugardaginn 25.september...og það verður sko alvöru stórslysaæfing!
Svo er ég líka búin að vera að koma síðu björgunarsveitarinnar í gang á bjorgunarsveit.com.

Nýjasta nýtt fyrir þau sem fylgjast með survival þáttnum María atvinnulausi letingi: Topshop vinnan hringdi aldrei, María fer aldrei að vinna á Skalla og María heldur ennþá í vonina með Reyðarfjarðarvinnuna...annars á hún eftir að fjölfalda CV og labba í Kringluna...!

Eitthvað annað nýtt: ...neibb! Bara flugslysaæfing! Reyndi að tala eitthvað við liðið sem er að vinna í Skógarhlíðinni fyrir Landsbjörgu..en það var svo heilaþvegið af æfingunni að það gat ekki stillt sig inná að tala um neitt annað! Þannig eina sem ég fékk úr þeirri ferð var límmiða..til að merkja hjálma fyrir æfinguna!! Hinu náðu þeir ekki hvað ég var að tala um..

Björk, mín gamla bekkjarsystir, átti litla telpu þann 14.september! Ég hef ekki gerst svo fræg að sjá skvísuna en ég er búin að fá lýsingu á henni frá toppi til táar..
Og það eru fleiri sem áttu barn í september: það vita þeir sem sáu framan á DV í gær, eða horfðu á Fólk með Sirrý á miðvikudaginn held ég..ung kona sem fattaði að hún var ófrísk, 15 mín. áður en hún fæddi!!

Allt er til...

laugardagur, september 18, 2004

HaH! Ég vil svona á Íslandi:

Var að skoða sunnudagsmoggann rétt áðan og rak augun í skemmtilega forsíðufrétt: „vinsæl höfnunarþjónusta". Þá er semsagt eitthver símaþjónusta í Rússlandi sem kemur að góðum notum fyrir t.d. konur sem vilja losna við ágenga karlmenn! Þá láta þær karlana fá ákveðið símanúmer til að ná í þær..en þeir fá svona svar: Halló. Þetta er höfnunarþjónusta Moskvu. Manneskjan sem lét þig hafa þetta símanúmer vill ekki tala við þig. Bless!
Svona eru Rússar sniðugir!

Var að vesenast í dag í Front Page og á ftp server...man, það er ein flækja! Þarf að fara að ná mér í einn idiot proofed manual...

Var að enda við að horfa á Shrek 2 með familíunni..það sem mér finnst best við að horfa á mynd aftur, og með familíunni er að heyra þau hlæja að skemmtilegu atriði. Gerir myndina einhvern veginn betri að heyra þau hlæja dátt að myndinni...


fimmtudagur, september 16, 2004

Lognið að flýta sér á Kjalarnesinu..

Fyrir utan það að hafa farið seint að sofa í gærkvöldi þá var lítið sofið yfir nóttina vegna veðurs! Maður óvanur svona haustlátum eftir blítt sumar og því kom manni ekki dúr á auga mest alla nóttina. Horfði á halogen ljósalengjuna í loftinu sveiflast um og hlustaði á ömmuklukkuna í gluggakistunni klingja endalaust..þar til ég drattaðist niður stigann og hrifsaði hana úr glugganum, úrill og pirruð, klukkan hálfsex um morguninn. Þá hélt ég að ég gæti loks sofnað..en þá fékk ég sms! Ég hálfgrenjaði og hló þegar ég sá að það var óveðursútkall hjá björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu. Ég staulaðist enn og aftur fram og fór inn í hús..og þá voru allir komnir á fætur! Sama sagan hjá þeim, enginn gat sofið. Mamma var komin í ullarnærfötin og eina hlífðarbuxnaskálm. Æ já, það var gult útkall. Best að drífa sig!
Enginn morgunmatur, stokkið út og drifið sig upp í hús. Við vorum sex til að byrja með en svo fjölgaði eftir því sem tímanum leið. Vorum of sein að bjarga húsvegg í nýbyggingu..hann var fokinn niður. En það var nóg eftir; skorða af skjólvegg, tína saman ruslatunnur í skjól, bátaskrifli fært til, hreinsað gler úr brotinni rúðu í skólanum og setja plast í rammann, safna saman kofabrotum og fylgjast með kerrum og bátum ekki var hægt að hreyfa án þess að það fyki lengra. Svo komu smiðshendur nokkurra liðsmanna sveitarinnar að góðum notum við að festa bárujárnsplötur sem voru að skrælast af gömlu fjósþaki.
Semsagt..klukkan tæplega tólf var vindinn farinn að lægja og allt fokið sem gat fokið og ekkert hægt að gera meira. Eignatjón í hverfinu er þó nokkuð...brotnar rúður og dældaði bílar. Vindhraði að jafnaði fór þó ekki yfir 30 m/s, en í hviðum náði hann samt tæplega 60 m/s.
Eftir þetta hef ég ekkert gert mikið í dag. Vesenast í málum fyrir björgunarsveitina vegna fundar sem er í kvöld.
Svo er nóg um að vera um helgina! En það kemur síðar færsla um það!

En þar til...allir að passa sig á logn express!!

miðvikudagur, september 15, 2004

Ove Sprogøe látinn

Hvaða Íslendingur hefur ekki séð mynd um Olsen bandið?
Einn af nokkrum klassikerum frá Norðurlöndunum..
Nú er einn af heldri leikurum Dana fallinn frá...R.I.P.

þriðjudagur, september 14, 2004

Hópviðtal...?!

Ja hérna..ég hélt ég yrði ekki eldri þegar ég var boðuð í hópviðtal hjá fataverslun. Hópviðtal? Sá fyrir mér:
'' - Hæ, ég heiti María.
- Halló María!
- Og ég er atvinnulaus..
- awww! ''
En þetta var nú ekki alveg svona..við áttum að tússa á blað nafnið okkar og stilla því upp eins og þríhyrningurinn sem þjónustfulltrúar í bönkum eru með t.d. Úr því komu alls kyns útgáfur af þríhyrningum, sem lífleiknikennurum og atferlissálfræðingum hefði klæjað í fingurna að fá að greina og spekúlera í! Svo var gengið á línuna að segja frá nafni, hvað gera, hvar unnið. Svo áttum við að segja frá draumajobbi og horrorjobbi..og svo áttum við að krota á blað hvað okkur fannst vera góð þjónusta og vond þjónusta...og það kom eiginlega allt það sama!
Og svo fengum við að vita að þessi keðja væri að selja lífstíl og ímynd...nú? ég hélt að þetta væru föt?! Það er aldeilis táknið á bak við þessar pjötlur!
En nú þarf ég bara að bíða og gá hvort ég fái hringingu frá þeim..annars er það Skalli! Jay!

mánudagur, september 13, 2004

Hrím..frost..funi..

Brr..þegar ég leit út um gluggann í morgun þá var greinilega komið haust! Allt stillt og heiðskýrt..og maður fann fyrir kuldanum. Svo þurfti að skafa rúðurnar á bílnum..
Fór með mömmu niðrí bæ að kaupa Landsbjargar galla. En þar sem dömuúlpurnar eru ekki komnar, þá ákváðum við að kaupa bara buxurnar....og peysu með nafninu á!
Skrýtið hvað búðir opna alltaf seint á Íslandi..klukkan 10 eða 11!

Og þetta blessaða Lækjatorg...hversu ljótt getur almenningstorg verið?! Er að hugsa um að senda áhyggjubréf til Miðbæjarmanna eða Borgarskipulags..eða hvert sendir maður?
Ég sé fyrir mér...hvað heitir það aftur...LITI! Og gosbrunn og bekki..fá smá kósý stemningu í þetta! Þetta er svo sorglega dull staður að ég fæ tár í augun við að labba þarna yfir! Komin smá úti-kaffihúsa fílingur þarna hjá strætóstöðinni, en það vantar liti og dúfur..sem eru víst í útrýmingahættu á Íslandi! Hah!

Kannski ég byrji bara smátt..best að fara út í herbergi og taka aðeins til þar! Henda einhverju og endurraða dóti! Jay!!

sunnudagur, september 12, 2004

Well kids..

..ég er ítalíusjúk! Bara svona ef þið hafið ekki tekið eftir því..minna ykkur á það!
Hélt að ég myndi hoppa hæð mína upp úr lúna tölvustólnum þegar ég fór inn á msn og sá að ítalíuvinurinn minn var búinn að bæta mér inn á contact listann hjá sér! Þannig nú verður ekkert annað gert en verið á msn og beðið eftir að hann sé þar líka! ..eða kannski maður skrifi bara email?!

Anyway, ég hef lítið gert merkilegt af mér..ekkert frekar en fyrri daginn.
Ah, reyndar er ég búin að vera dúleg að hrista á mér spikið í Baðhúsinu! Klapp fyrir mér!!
Síðan tróð ég mér með í hálfgerðan saumaklúbbs meeting á Súfistanum um daginn. Þar hittust gamlar Kjalarnes skvísur; líffræðingalingur, hússtjórnunarlingur, mamma að læra hárgreiðslu, ein verðandi mamma sem er hárgreiðsludama, Kvenskælingur og svo ég..villuráfandi ítalíu aðdáandi! En það var mjög gaman að sjá gellurnar eftir svona langan tíma, og heyra hvað var að gerast hjá þeim.
Í dag var ég svo á æfingu með björgunarsveitinni..áttum að leita að kajakræðara. Og vegna þess hversu fá við vorum, urðum við að labba soldinn spöl í grýttri fjörunni. Ég var orðinn kófsveitt eftir klukkutíma. Og auðvitað náði ég mér í góða rispu á sköflunginn í þessu bramli! Þó ekki sköflungsbrot eins og kajakræðarinn okkar ''raunverulegi''!

Nýjasta í DVD tækinu hjá mér: Fahrenheit 9/11, Mean girls og Van Helsing. Allar stóðust þær væntingar..Fahrenheit var sjokkerandi, Mean girsl mjög svo bandarísk og fyrirsjáanleg en þó með góða punkta og Van Helsing var ekki svo slæm. Hver Van Helsing átti svo að vera kom mér samt á óvart og setti myndina á hærri stall en ella. Varð eiginlega bara mjög góð mynd fyrir vikið .. með tæknibrellukrúsídúllum.

Hvað get ég meira sagt ykkur?
Hah...alltaf fjör heima hjá mér! Núna eru tvö af systkinum mínum staðsett inni á baðherbergi ásamt foreldrum mínum..og það er verið að tala um vindgang hjá þeim yngsta..sem er vægast sagt 'silent but deadly' þessa dagana. Gelgjan hún systir mín veinar bara 'oj' á meðan rauðhærði skaðvaldurinn stendur varla í lappirnar því hann hlær svo mikið. Og það heyrist ekkert í mömmu og pabba en ég sé alveg fyrir mér svipina á þeim!
Hmm..interesting, I know!

Ég á ammæli eftir mánuð núna..samt eiginlega á morgunn.
Kannski maður geti tjaslað saman einhverjum óskalista fyrst maður er atvinnulúser!

fimmtudagur, september 09, 2004

Jay! I have done something useful this year!!

Look at me with my friends..eða það! Þarna er ég semsagt með mælingafólkinu sem tók þátt í Ísnet verkefninu..allir dætir (sætir) með húfu!




Jamm..ég hef eitthvað gert good this year..núna er það bara slæpingur!
Er að leita mér að vinnu og er komin með eitthvað sem kemur til greina..og nú er bara að bíða og sjá hvað gerist. Er samt komin með eina inn strax.
Svo er það bara að vera heima yfir tvítugsafmælið og jólin og strumpast svo út til kuldaMílanó!

Var að keyra í bænum um daginn á Lagununni og það var þessi skemmtilega hellidemba úti. Ákvað að smella tónlistinni úr Monsoon wedding myndinni í græjurnar...passaði einkar vel við þar sem fólk var í skrautlegum pollagöllum, askvaðandi um blautar göturnar!

þriðjudagur, september 07, 2004

I surrender..

Jamm, ég er aumingi..ég er búin að gefast upp á skólanum nú þegar! Er búin að skrá mig úr námskeiðunum sem ég er í og er að athuga með fjarnám frá Háskólanum á Akureyri..ætla að drífa mig út til Ítalíu eftir jól líklegast! En núna er það bara vinnumarkaðurinn..
Vona að allir hafi fundið sig í nýja skólanum, eignast nýja vini og hafi það gaman!

Annars er ekkert áhugavert nýtt..kíkti inn í Kvennó um daginn, and boy, it felt like coming home! Langaði að stinga mér inn í tíma hjá einhverjum og læra af áhuga eins og ég gat í denn tid! En ég er að vona að þetta eirðarleysi sem er í mér fari eftir smá frí frá skóla..

Hóst hóst..er með smá hálsbólgu eftir Papaball í flugskýli Íslandsflugs á laugardaginn var. Meðalaldurinn var svona þrjátíu ár..sem segir kannski mikið um fylleríisástandið! Merkilegt hvað 'eldra' fólk verður leiðinlegt þegar það er í glasi!

Tja, meira var það ekki..væri gaman að heyra frá ykkur, hvernig þið eruð að fíla ykkur á nýja staðnum, eða eitthvað! :)

þriðjudagur, ágúst 31, 2004

Skóladagur númer tvö..bööö!

Oh my...ég hélt ekki að skóli gæti verið svona daufur og súr á fyrstu dögunum! Spurði pabba í morgun hvort maður gæti fengið menningarsjokk að koma heim.. . Pabbi hló að mér (ég er svo fyndin alltaf á morgnana..) en sagði svo að það gæti vel verið. Og ég er ekkert að grínast með þetta, við erum að tala um að koma úr sól og þægilegu lífi og svo er manni dúndrað í rok, kulda og rigningu + skóla á fullu! Aðeins of mikið myndi ég segja..en ég ætla að sjá hvort ég geti ekki þraukað skólann í tvær vikur..annars verð ég að taka break..án djóks.
Ég veit að það er ótrúlega ábyrgðarlaust og silly..en ég bara get ekki einbeitt mér að náminu því hugurinn er annars staðar og þegar ég kem heim þá er ég sinnulaus og horfi á mínútulangan video bút, sem ég tók upp úti á Ítalíu núna, aftur og aftur!
Geðveik? kannski.. Eitthvað annað? hugsanlega..
Tók semsagt 200 myndir á nýju fínu myndavélina mína og er búin að skoða þær í ræmur líka..held að ég geti ekki sett þær á netið þar sem þær taka gígantískt pláss en ætla að setja eina hérna af hópnum...

Held að ég fari upp í rúm að grenja smá..svo þarf maður víst að fara að rembast við námsdoðrantana..engar bækur í Háskóla Íslands sussu nei!
Einn ljós punktur..EINN..þekki nokkra sem eru með mér í stærðfræði! VEI!

Æ greyin mín, endilega komið með einhver komment á þessa svörtu..klessu..sem ég var að setja í vefritið mitt núna..! :þ

sunnudagur, ágúst 29, 2004

Ho arrivato in Islanda..

Jæja..þá er maður kominn heim á klakann! Eins og venjulega þegar maður hefur kynnst fólki úti, þá var erfitt að fara..en samt gott að koma heim! Með hjarta fullt af minningum og myndavél líka, hausinn ennþá á sofi-línunni, brúnkan að fjara út og augun ná varla að fókusera..svona lít ég út í dag á þessum sunnudags''morgni''! Búin að vera á ferðinni í 26 klst. og hef í 10 daga vistinni aðeins sofið hámark 6 tíma..dadara!
Gaman að kynnast Suður-Ítalíu og lífi fólksins þar..yndislega fallegt þarna og fullt af Fabio-um! Frábærir krakkar sem ég var líka að ferðast með..þar af tveir strákar úr Kvennó og tvær sem eru að vinna með tveimur vinkonum mínum! Litla Ísland..
Pfft...veit ekki hvað ég get bullað meira, er gjörsamlega út úr kortinu! Finnst eins og ég sé bara að fara að hanga fyrir utan húsið í hitanum, fara niðrá strönd, glápa á þröngar sundskýlur, svolgra vatn og aðra drykki og svo skemmta mér um kvöldið!
Hmm..hljómar nú ekki mjög menningarlega hjá mér..en þetta er það sem við gerðum á næstum því hverjum degi, svo bættist inn í fullt af ferðum og öðrum verkum inn á milli.

Tja..ég er að hugsa um að fara að stilla mig inn á vakna-línuna og fara að taka upp úr töskum!
Hafið það gott núna..í september! Arrg..


laugardagur, ágúst 14, 2004

Hver á sér fegra föðurland...

var að lesa 101 reykjavík sem er, eins og margar íslenskar nútímabókmenntir, frekar súr og kynóð bók. Samt skemmtilegur orðaleikur hjá Hallgrími og svona spekúleringar útflúraðar með orðum og lýsingum. Hér kemur listi yfir 'tegundir af kvenmanni': "..það eru til sætar stelpur, laglegar, leglegar, legar, legtækar, bærilegar, breyskar (frábærar), skynsamlegar, drengilegar..bókanir (eftirsóttar stelpur), sporslur, pónýs (stúlka undir lögaldri) og gón (stórglæsileg stúlka)...svo þessar eldri. Brot-af-því-besta-týpurnar, Greatest Hits-dömurnar, undirhökubeljurnar, bronkítisgribburnar, ríkisgeirakvensurnar, jeppakempurnar, lottójussurnar sem spila með í hverri viku en aldrei fá það og endurmenntunarlessurnar."
Og svo vantar enskar þýðingar á skiltin fyrir túristana: Esja. Easy. Vallá. Hardly river. Dalsmynni. Mouthwash. Kiðafell. The kid that fell. Saurbær. Shit farm. Geldingaá. Castration river. Baula. Cowspeak. Ok. Okay. Munaðarnes. Lazyness.
Og nokkrar orðskýringar aftast úr bókinni:
Beibverji unnandi fagurra kvenna
Efnaður undir áhrifum vímuefna
Flotholtið holt á floti: Ísland
Sá gamli guð
Sú gamla sólin
Hæannir að standa í hæönnum: að vera staddur í fjölmennu teiti og þurfa að heilsa mörgum
Kengúra vanfær kona
Kjúkl ung stúla e: chick
Spóla kvenmaður
Spóla í tækinu vit í kollinum
Vefarinn mikli frá kasmír sá gestur samkvæmis sem vefur hassvindlinga
að verpa að ganga örna sinna
Þráðlaust samband platónskt ástarsamband

Ja..þá er bara hvort maður leggi í kvikmyndina!

Er semsagt komin heim núna..og verð þar í heila þrjá daga! Síðan er ég flogin til Ítalíu og verð þar í 10 daga..með þessu liði. Fara 15 manns frá Íslandi, á aldrinum 18-25 ára...nú er bara að sjá hvernig þessi ferð verður! Það verður alla veganna tekið nóg af myndum: ætla að kaupa mér Canon Ixus 500 í fríhöfninni..

En yfir í allt annað..þjóðsöng!
Byrja á því að vitna í þennan náunga, Árna Georgsson:
Menn eru að tala um þjóðsönginn. Það er rétt að hann er ekki á allra færi að syngja. Ég syng hann og hef gaman af, hann spannar víst vítt tónsvið. Lagið finnst mér einstaklega fallegt og finn fyrir þjóðerniskennd niður í tær við hlustun. Í samanborið við Hver á sér fegra föðurland þá finnst mér lagið sjálft ekki standast þjóðsöngnum snúninginn þrátt fyrir að vera fallegt. Hver á sér fegra föðurland er blítt lag með mjúkum texta en mér finnast andstæður Íslands ekki birtast nægjanlega vel í laginu sjálfu líkt og þjóðsöngurinn fangar svo vel. Fyrir mér er texti þjóðsöngsins eitt líkingarmál, hann er t.a.m. hátíð miðað við þann franska, talandi um biltingarsöngva suðrænni landa. Ef einhver hefur fundið lausn á þessum vanda þá er það nafni minn Johnsen sem útsetti sönginn í popparaútgáfu. Það tókst vel í Eyjum og allir sungu með og urðu stolltir. Arnar er sammála mér um ágæti söngsins en bendir einnig á lagið Ísland er land þitt eftir Magnús Sigmundsson. Það er ágætislag en ekki af sama kaliberi að mínu mati og þjóðsöngurinn. Sem þjóð þá berum við stolt í brjósti yfir okkar eiginn ágæti sem er líkast til eitthvað, meðan þjóðríki er og verður, sama hvað framtíðin kann að bera í skauti sér þá finnst mér smá rembingur í þjóðsöngnum aðeins vera af hinu góða enda er hann aðeins notaður á tillidögum og í sjónvarpinu á sunnudögum. Ég get ekki hugsað mér landsleik án smá rembings. Í raun skiptir ekki máli hvenær lagið og textinn voru samin. Þjóðsöngurinn er hluti af menningarsögu okkar. Að mínu viti úreldast þjóðsöngvar ekki. Þjóðsöngurinn er hundgamall en það eru óperur og aðrar hljóðbókmenntir einnig. Þessi umræða hefur aldrei náð neinu flugi. Það er eins með þjóðsönginn og kvótakerfið, það næst aldrei full sátt um hann.

HVER Á SÉR FEGRA FÖÐURLAND
Hver á sér fegra föðurland,

með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?
Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð.
Geym, drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð.

Hver á sér meðal þjóða þjóð,
er þekkir hvorki sverð né blóð
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?
Við heita brunna, hreinan blæ
og hátign jökla, bláan sæ,
hún unir grandvör, farsæl, fróð
og frjáls - við ysta haf.

Ó, Ísland, fagra ættarbyggð,
um eilífið sé þín gæfa tryggð,
öll grimmd frá þinni ströndu styggð
og stöðugt allt þitt ráð.
Hver dagur líti dáð á ný,
hver draumur rætist verkum í
svo verði Íslands ástkær byggð
ei öðrum þjóðum háð.
Svo aldrei framar Íslands byggð
sé öðrum þjóðum háð.

Hér hafiði það! Mér finnst þetta vera fallegt lag..og myndi vilja fá það sem þjóðsöng, en ég er sammála Árna að þetta er ekki nógu kraftmikið...þannig er ekki hægt að peppa lagið aðeins upp?!
En ein ástæða sem ég hef heyrt..af hverju þetta er ekki þjóðsöngur vor..er að það var kona sem samdi textann við lag Emils Thorodsens!? Hva..ég held ég haldi mig við kraftleysið, trúi ekki að svona mórall líðist!
Ég er alla veganna ekki sátt með þjóðsöngva textann.. og einhæfur, þungur og fjallar mest um guð en ekki ísland og þjóð..

Hvað segið þið?

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Múahahah!!

Ef einhver hefur verið að fylgjast með fréttum síðasta sólarhringinn (eða bara verið úti!) þá hefur hann kannski tekið eftir því hversu gott veðrið er...en ekki neins staðar jafn gott og í Árnesi, Þjórsárdal!! ÞAR SEM ÉG ER! Við erum að tala um 28°C í gær og núna er hitinn kominn upp í 20°C.
Okei..byrjum á byrjun: þriðjudaginn 3.ágúst lagði ég af stað í GPS mælingaferð ásamt ca. tuttugu manns frá mörgum stofnunum og sveitafélögum. Ísnet 2004 heitir þetta og er verið að mæla grunnpunktakerfi landsins fyrir kort og svoleiðis...síðast gert 1993. Núna í ár sjá Íslendingar í fyrsta sinn alfarið um skipulag og framkvæmd og hefur hingað til bara gengið ágætlega..smá vesen en ekkert alvarlegt! Þannig vinna mín þessa dagana fram að laugardeginum 14.ágúst er svona: annan hvern dag vakna um 9-10 leytið og keyra að punkti og taka niður tæki (sem var stillt upp í gær) og setja það svo upp aftur! Næsta dag er vaknað um 6-7 og keyrt í punkt og tekið tæki niður og keyrt svo í næsta landshluta þar sem okkar bíða nýir punktar! Mikil skriffinska fylgir þessu, þarf að skrifa niður serial númer loftnets, hvenær byrjað er að mæla, hnitin á punktinum og svo framvegis! Svo þarf að taka myndir og mæla lengd á þessu og hinu..upp á millimeter! Ég er semsagt aðstoðarmaður mælingamanns..og í dag erum við að fara að taka niður tæki og stilla upp aftur. Á morgunn þegar við höfum tekið tæki niður er svo brunað á Reykhóla og sett upp tæki á tveimur punktum. Síðan þurfum við að hringja í stjórnstöð Landmælinga Íslands eftir að mæling er hafin (og líka þegar mælingu er lokið) og tilkynna okkur..!
Já..eftir hverja mælingu er gögnum hlaðið á tölvu og á USB lykil..og eftir hvern landshluta (semsagt þegar búið er að mæla tvisvar í hverjum punkti) er farið með USB lykil á móttökustað þar sem einhver tekur á móti gögnum.

Jei..var þetta ekki skemmtileg lesning?! Upp með hönd þeir sem náðu þessu!!
En framundan hjá mér núna: sóla mig á Íslandi í hitabylgjunni (vaknaði klukkan hálfsjö í morgun og fór út í sólbað með svefnpokann minn!), út að borða með afmælisbarninu henni Emmu systur, athuga með stundaskrá og bækur hjá Nemendaskrá HÍ, ganga frá dóti eftir GPS mælingaferð, pakka niður fyrir Ítalíu...
Já, ég er að fara til Ítalíu! Suður-Ítalíu í þetta skiptið..með World Wide Friends samtökunum. Kostar 27.000 fyrir flug, allar ferðir, gistingu, fæði og tryggingar í 10 daga. Fer 17.ágúst ásamt 15 öðrum Íslendingum á aldrinum 18-25 og við eigum að kynnast menningu fólksins þarna..þetta eru ekki vinnubúðir! En ég veit nottla ekki hvernig þetta verður, bara búið að segja mér að þetta sé ekki eins og vinnuferðirnar hjá þeim, þetta er styrkt af Evrópusambandinu (ESB), þetta er 1000 manna fjallaþorp í Calabríu og að við förum m.a. í ferð til Sikileyja....mafía!!
Tja..er þetta ekki komið nóg í bili?!
Svo eftir það er það bara beint í jarðfræðina!! Er búin að vera að rembast við að rifja upp jarðfræðina með því að fara yfir glósur úr Kvennó..gengur ekkert rosalega vel!
Eitt skondið: stofan sem ég er í núna heitir Kvennó!! Setustofan hjá Landsvirkjun, Hrauneyjafossstöð - mötuneyti heitir það sama og góði framhaldsskólinn minn..og eflaust nokkurra lesenda!!

Hafið það sólargott það sem eftir er að sumarfríinu..og gerið það gott í vetur!!
Heyrumst kannski fyrir Italy..annars bara eftir það!

Þarf að finna Godfather lagið...

mánudagur, ágúst 02, 2004

Helgin tileinkuð verzlunarfólki:

Þar sem bróðir minn og móðir voru enn á Spáni og restin af fjölskyldunni fór á unglingalandsmótið Sauðárkróki, var ég ein eftir heima. Þvottavélin var í notkun non stop alla þessa helgi..og sjónvarpið og tölvan fengu lítinn frið!
Þó var ég að heiman mest allann föstudaginn og laugardaginn. Vinkona mín var komin úr hringferð með ítölskum vini sínum þannig ég fór til hennar í heimsókn. Ítalinn eldaði dýrindis mat fyrir okkur og fjölskyldu hennar, spjallað var um allt milli himins og jarðar, skoðaðar voru myndir úr ferðinni og hlustað á tónlist. Bíllinn hennar og bíllinn minn voru hreinsaðir í bak og fyrir og ekki létum við smá rigningu á okkur fá!
Þetta var á föstudaginn.. Á laugardaginn var skellt sér í Bláa lónið um þrjú-fjögur leytið og sleikt sólina og makað sig með kísil. Nóg var af fólki hvaðanæva að .. Þýskalandi, Ameríku, Japan og Ítalíu meðal annars. Aftur eldaði Francesco góðan pastarétt eins og ítölum er lagið! Eftir að hafa skóflað matnum upp í mig brunaði ég af stað í Álfabakka. Ég og Gummi Drekafluga vorum búin að ákveða að kíkja á King Arthur..sem reyndist hin bezta skemtun! Alveg hægt að finna að myndinni..en engu að síður kröftug mynd og gefur manni nýja hlið á goðsögninni..upprunann. Mæli hiklaust með henni, þó ekki fyrir þau sem vilja hafa hasar allan tímann!
Eitt vakti athygli mína strax; sá sem leikur Tristan. Fyrir utan það hvað hann var óendanlega flottur þá minnti óhugnalega mikið á Aragorn..enda þegar ég fletti upp leikaranum kom í ljós að hann er danskur! Eitthvað sem þeir leikarar eiga sameiginlegt! Hef séð hann í einni mynd...Blinkende lygter. Hér er mynd af Tristan:


Meira merkilegt gerði ég ekki um helgina..nema eyða pening!
Fór í Nonnabúð á fimmtudaginn og fjárfesti í Dead peysu..

Ég veit maður á ekki að segja þetta en: haustið er nálgast!! Skólinn fer að byrja..!

þriðjudagur, júlí 27, 2004

Home at last!
 
Komin heim eftir annasamt vinnuúthald...sól og gúddí veður nema einn dag; rigning dauðans þann daginn!  Viðurkenni fúslega að sólskinsskapið var jafn sjaldséð og þurr blettur þann dag!
Annars ekkert áhugavert í þessu úthaldi..komst bara að því hvað ég er orðin sorgleg eftir nokkura daga fjarri vinum og fleiru!
Þegar í bæinn var komið var strax byrjað að hita upp debetkortið fyrir helgina. Styrkti Skífuna rausnarlega og labbaði út með troðinn poka!
Verslunarmannahelgin fram undan og margir að flýja heimili eða land í leit að skemmtun og fríi.  Þóra kvennómær er lögð af stað, og líklega komin til Afríku..áhugasamir fylgist með á síðu Afríkufaranna.
Hvert ég fer eða hvað ég mun gera er ennþá óljóst.  Þjóðhátíð í Eyjum er samt ekki á maybe listanum..!  En ég vona að fólk eigi eftir að skemmta sér þar eins og annað fólk annars staðar! 

Þvottadagar eru framundan hjá mér..annað er óljóst (fyrir utan heimsóknir).  Langar að fara til útlanda einn tveir og núna, en það er víst ekki hægt sem stendur! Þarf víst að mæta í GPS mælingar um allt Ísland eftir helgina..en eftir það; who knows?! hehe..
Ég þarf greinilega að fá mér frískt loft..ætla að hætta áður en það vellur upp úr mér meiri vitleysa!
Until later..

föstudagur, júlí 16, 2004

Shopping day!
 
Í dag er útborgunardagur hjá Landsvirkjun og af því tilefni var stefnan tekin á Smáralindina.  Ég og Sigurborg brunuðum af stað á Bensinum hans Gulla.  Veðrið á höfuðborgarsvæðinu gat ekki verið betra; sól, 19°hiti og bara gott veður!
Byrjuðum á að kíkja á útsölur í Intersport..þar var fjárfest! Síðan lá leiðin í Zöru þar sem mikið var mátað, spekúlerað og fjárfest! Fleiri búðir voru skoðaðar og áfram var haldið að hita debetkortið!  Að lokum var farið í Símann-búðina og beðið eftir að röðin kæmi að mér.  Loks var mín tala komin upp og ég fékk aðstoð frá myndarlegasta starfsmanninum!  Í þeirri búð var sími keyptur: Sony Ericsson T630! Silfraðan/hvítan..very handsome!
Að lokum var dröslast út úr Smáralind, eftir smá nasl..og sest inn í sjóðheitan bílinn!  Fjúff, bílakösin á leið útúr bænum!  En við komumst á leiðarenda (Kjalarnes) og ég kom tímanlega í ljúffengt grill sem kærasti systur mömmu gerði. Inga og Lars komu frá Danmörku á miðvikudaginn og hafa verið að gera það glimrandi gott í eldhúsinu eins og þeim er lagið!  Þau skella sér svo út á land að kíkja á náttúruna og svona á næstunni!
Hmm...hef ekki meira að segja núna.
 
Heilræði: sparaðu þér 800 kr. og 2-3 klst. af leiðindum þegar Hellboy kemur í bíó!  Ég mæli alla veganna ekki með henni!

þriðjudagur, júlí 13, 2004

Framhald um vegalagnir á Íslandi:

Rakst á grein á mbl.is um svæðið þar sem ég er að vinna. Eflaust eru ekki allir með það á hreinu að hluti þessa svæðis er FRIÐLAND, sem þýðir; þótt vegirnir séu ekki góðir þá er þér ekki gefinn réttur til að búa til nýjan! Gildir um mörg önnur svæði á landinu okkar þar sem gróður er oft viðkvæmur fyrir svona dekkjaspásseríi!!
Í morgunn leit Fjallabakið út eins og eyðimerkursenan í The Mummy...hvasst er á þessu svæði og sandurinn fýkur um eins og skafrenningur. Og þess vegna sit ég í hægindum mínum inná skrifstofu vatnamælingafólksins hér í Búrfelli, og er að skrifa það nýjasta! Vorum að borða hádegismat áðan og eftir smástund ætlum við að þrífa kaggann og við stelpurnar ætlum að læra að færa gögn inn í tölvu..til að friða samvisku yfirmannsins yfir því að vera ekki að mæla í dag!
Frá því í gær: vorum rosadúleg að mæla, komum seint heim um kvöldið. Horfði á Shrek 2 með Kára og Búrfellskrökkum, hún er geðveik! Síðan fóru þau út í fótbolta, en ég, Kári og Erla sátum inni í Celicunni hans Kára og horfðum á fótboltatilburði þeirra í gegnum framrúðuna.
Í dag á að kíkja í Árnes á þeim bíl og kaupa sér eitthvað í gogginn!
Þannig að í stuttu máli sagt um daginn í dag: leti!
Á morgunn: mæla, fara heim og verða borgarbarn!

laugardagur, júlí 10, 2004

Fréttir af Fjallabaki:
Hurray! En þið heppin..ég komst í tölvu og get skrifað eitthvað á vefritið mitt!
Hér að Fjallabaki-Nyrðra er allt að frétta..hitinn er meiri en ég hélt að hann myndi verða: um daginn fór hann upp í 19°stig og þá var sko erfitt að mæla!
..ef fólk tengir ekki nafnið Fjallabak við eitthvað sem það þekkir, þá liggur Fjallabak um Landmannalaugar meðal annars!
Vegirnir þarna eru gott dæmi um íslenska veglagningu..ég held að ég sé varanlega sködduð á vinstra kinnbeininu og augnbeininu eftir að hafa skallað hliðar bílsins þó nokkur skipti á ferð okkar um svæðið! Hef verið að velta fyrir mér hugsanagangi veglagningafólks í den..tek enga ábyrgð á orðum mínum! Here it goes...(vegaarkitektinn að hugsa) hmm..hvernig er hægt að gera veginn sem áhrifaríkastann?..ég veit! Best að byrja á sikksakk slaufum á svona 2 km kafla, síðan plöntum við einni U-beygju hér..langt síðan við höfðum blindhæðir; best að smella nokkrum þarna! Og svo til að bæta smá kryddi í tilveru bílstjórans þá getum við sett nokkra fáránlega bratta vegspotta á þessu svæði! Svo bara spilum við bara úr þessu eins og við getum; reyna að hafa vegina eins fáránlega og hægt er, ekki endilega vera að fara eftir því hvernig landið liggur...getum alltaf bætt við einum og einum hól ef þess þarf!

Já, þarna hafiði það!
Er semsagt búin að vera að kúldrast í svona 20 fermetra hytte með tveimur úr vinnunni síðustu daga. Þarna inni rúmast einungis kojur, valt borð og lítil gashella..no refrigerator! Núna um helgina er í fyrsta skipti sem ég hef séð TV/örbylgjuofn/ísskáp/tölvur/internet og getað nýtt mér þá tækni! Það sem hefur haldið mér frá meiri geðveilu en mér er ætlað er eftirfarandi: heimsókn til Gumma Drekaflugu (þær eiga vonandi eftir að verða fleiri) og til Kára Búrfellsvinar míns, náttúran, eyrnatappar og góð bók..og svo tilhugsunin um að fara heim bráðum! Get sofið í mínu eigin rúmi, verið með familíu og hitt vini, verslað frá mér allt vit, hitt vinkonu mína frá Ítalíu og verið í bænum...kannski jammað eitthvað!
Að lokum: furðudýrin að Fjallabaki!
Á mjög svo rykugum veginum hafa sést eftirfarandi: Hjólreiðamenn hvaðanæva að (oft myndarlegir ungir menn með stælta kálfa..einn þeirra reyndist vera kona við nánari athugun okkar!), hestafólk og hestabuna með sem traðkar allt niður á friðlandinu, óteljandi rútur sem stynja upp og niður brekkurnar með veifandi ferðafólk innanborðs, Suzuki Jimmy (for cryin' out loud) bílar til leigu, oftast erlendir ferðamenn..sem oft eru með video kameru í hendi og taka alla ferðina upp (ófáar myndir af mér þar inná). Hvernig bílaleigunum dettur í hug að leigja svona..jeppa wannabe, fólki sem er að fara að ferðast um landið þar sem óbrúaðar ár eru og fleira!

Held að pistlinum í dag sé lokið, veriði sæl að sinni!
(Ætla að huga að eldrauðu/útiteknu andliti mínu og fara að horfa á TV/Video/DVD..það er laugardagur núna og ég á nammi!) :þ

Og bendi á að Sigurlaug, fyrrverandi 4NF-ingur við Kvennaskólann, er byrjuð að vefritast (hér til hliðar: Sigurlaug snillingur)..''til að lífga upp á skammdegið'' er einkarlega skemmtilegt og ætla ég mér að prófa eitthvert af þessu í vetur (kannski eru allir búnir að sjá þetta nema ég)!

sunnudagur, júlí 04, 2004

Bara smá í viðbót áður en ég sef mína síðustu nótt hér heima..
..lenti inn á óruglaðri stöð 2 og þá vildi svo til að þáttur með Opruh var að byrja! Og þá vildi svo yndislega til að Brad Pitt var að koma til hennar! Aaaahhh!!
Hann hefur eitthvað vit á milli eyrnanna..annað en glansmyndir eins og t.d. Figo! En ég veit ekki hversu góð ég er í að lesa úr svip og tali en maður var nú farin að hálf skammast sín fyrir kynsystur sínar þarna..grey maðurinn mátti ekki brosa eða hreyfa sig þá veinuðu þær og ef hann sagði eitthvað sætt þá voru þær allar 'ooohhh'!
En hann á heima í sviðsljósinu, og nýgræðingar eins og Eric Bana fékk svo mikið sem eina spurningu til að svara í þættinum, svo ekki meir! Og það er ekki hægt að neyta því að Pitt er flottur..en viðbrögðin og látalætin í kringum hann í þessum eina þætti var eiginlega of mikið fyrir mig!

EN yfir í annað!
Er eiginlega ánægð með að Grikkland sé Evrópumeistarar..góðir spilarar og mynda saman gott lið þótt leiðinda þýska taktíkin sé ráðandi!
Hlustaði á Tvíhöfða lýsa leiknum og það var mjög áhugavert að hlusta á þótt þeir hafi verið leiðinlegir á kafla!
Metallica tónleikar í gangi..darn!
Portúgal vs. Grikkland!
Allir sem hafa tíma kveiki á skjánum til að horfa á leikinn..og kveikið einnig á fm 90.9 til að hlusta á framandi lýsingu á leiknum! Jón Gnarr og Sigurjón stóðu sig með prýði sem lýsendur á HM held ég alveg örugglega..skrautlegar og öðruvísi lýsingar!

Ein hugvelta eða mind-trundle: þegar maður mætir/sér manneskju þá mótaru þér grunnímynd af henni útfrá útlitinu. Síðar, ef þú gerist svo heppinn að fá að kynnast henni þá byrjaru að breyta ímyndinni annað hvort til hins betra eða verra eftir því hvernig persónuleiki hennar er. Þetta held ég samt að sé mismunandi eftir því hvernig aðstæður eru..eða hvors kyns 'mótarinn' er!
Ekki spurja af hverju ég er að spæla í þessu..held að ég sé búin að hanga alltof lengi inn að gera ekki neitt nema hlusta á Eurovision aftur og aftur (mín elskulegu systkin eru hooked á þessu væli!).

Síðasta vefritsuppfærsla mín í bili..langar að hafa eitthvað merkilegt en mér dettur ekkert í hug! Næstu skrif verða ekki fyrr en í 1.lagi miðvikudaginn 14.júli (djö er stutt eftir af sumrinu!). Hafið það gott á meðan!
Hey..las í fréttablaðinu að ísbirnir hafa svarta húð og að feldurinn (hárin) séu gagnsæ! Þarf nú eitthvað að athuga þetta nánar..interesting though!

Legg af stað austur á morgunn..Fjallabak-Nyrðra jahú!

laugardagur, júlí 03, 2004

Laugardagur..
Bwah..Tékkland komst ekki áfram! Og nú er Grikkland og Portúgal að fara að spila um evrópumeistaratitilinn 2004! Fótbolti er hin ágætis skemmtun fyrir konur þótt þær skilji ekkert í leiknum kannski..og nú er ég ekki með fordóma gagnvart kynsystrum mínum..ég veit að þær eru ófáar sem ekki nenna að fylgjast með þessu! Ég er smá bulla í mér þar sem ég, forðum daga, spilaði sjálf fótbolta og var mikið inn í leikjunum sem voru í gangi. En núna er maður svona hálf ruglaður..margir nýjir komnir inn og sonna! Maður er orðinn doldið ryðgaður! En þessir nýju eru ágætis kroppar..eins og Ronaldo hjá Portúgölum og fleiri! :)
En andlitsfríðasti maðurinn í keppninni (með meiru) er (eiginlega var) að mínu mati Pavel Nedved, fyrirliði Tékkneska liðsins. Synd að þeir skyldu detta út, bæði útaf því að þeir voru með fantagott lið og skemmtilegt, og svo útaf honum! Hann er svona Aragorn fótboltans..ljósari týpan af Aragorn!


Og yfir í allt annað..var að skoða tímarit moggans og er ennþá að lækka reiði mína um nokkur desibil eftir lesningu blaðsins. Var að lesa um Víetnam og hversu mikið er búið að ganga yfir land og þjóð þar! Við erum að tala um að allur trjágróður var eyðilagður með hættulegasta eitri heims og þessu eitri var barað frussað yfir allt landið, sama hvort eitthvað fólk væri úti..hvað er að?!? Og nú framfleyta konurnar fjölskyldunni þar sem eiginmennirnir og börnin eru annað hvort fötluð eða heilsutæp! Og þarna er örugglega ríkt í þjóðarsálinni að maðurinn eigi að sjá fyrir fjölskyldunni, hugsið ykkur hvaða áhrif þetta hefur á samfélagið..fyrir utan allar aðrar afleiðingar stríðanna sem þarna hafa geisað.
En ég er að hugsa um að fara að horfa á mynd um baráttu sem átti sér stað á öðrum tíma, á öðrum stað: Braveheart! Verð að viðurkenna strax að ég hef aldrei séð hana...keypti hana um daginn og ætla að gerast svo fræg að berja hana augum nú í kvöld!
Vona að helgin hafi verið ánægjuleg hjá ykkur! Góða vinnuviku..

fimmtudagur, júlí 01, 2004

Hvassviðrishugrenningar...
Nú þegar hvasst var á suðurlandinu og maður heyrði margan manninn tala um eitthvað sem hann sá, sem mér fannst ekkert merkilegt. Þá gerði ég mér grein fyrir einu...sem Kjalnesingur þá eru margir hlutir sem mér finnast hversdagslegir sem aðrir sjá sjaldan, eins og: þegar hvasst er á nesinu hef ég horft á rúðurnar í húsinu dúa ískyggilega mikið inn og út, ég hef séð bæjarlækinn okkar fjúka upp fjallið í stað þess að falla niður sem lítill foss..með öðrum orðum 'going back to where it came from!' Einnig hef ég séð grasið bylgjast eins og stór silkidúkur í vindi og fugla fjúka afturábak í hvassviðrinu..
En hvað um það..það sem er nýtt fyrir mér er eftirfarandi sem ég hef reynt síðustu dögum í landmælingunum:
- fengið mér víetnamskar núðlur
- synt í 1 m djúpri laug
- sparkað upp ryki á Sprengisandi
- þrammað áfram í snjóroki, í enda júní
- sopið af Skjálfandafljóti
- gengið í gæsaskít
- barið Mývatns svæðið augum
- fengið mér Selsborgara í Selinu, Mývatni
- horft á EM útum allar trissur með heimafólki
- fengið mér norðlenskt flatbrauð..sem er ekki jafn gott og flatkökur
- séð offramboðið af heyi, afgangsrúllur sem búið er að dömpa útum allt landið
- látið sveitaloftið og slagviðrið á suðurlandi leika um hálft andlitið (hinn helmingurinn undir trefli)
- borðað salat, hamborgara og franskar á korteri
og margt annað sem ég er ekki vön að gera hversdagslega!
Svo er maður komin heim í hitastækjuna..18° hiti, á meðan hitinn rétt skreið upp í 5° þegar við vorum að keyra Fjallabak-Nyrðra..brr, það verður fjör að mæla þar núna í júlí! Sá þar einmitt sandstrók, svona extra small tornado!
Núna er ég að velta fyrir mér hvort maður eigi að yfirgefa þægindi heimahaganna og leggja í útilegu með vinum, yfir helgina..og svo fara í vinnuna í 10 daga! Nýbúin að taka upp úr töskunni og þá á að setja niður aftur! En þetta myndi óneitanlega verða skemmtilegt..hmm. Æi, ég er svo löt!
Pabbi náði í árbókina fyrir mig í gær..fíneríis bók, fyrir utan skammarlega margar stafsetingar/innsláttarvillur!! Þetta er bara fáranlegt hvernig gengið hefur verið frá þessu..garanterað enginn sem hefur prófarkalesið Egluna okkar!
Jæja, nú þarf ég að fara að kveikja undir kartöflunum og velta fyrir mér hvernig ég ætla að hafa helgina!

fimmtudagur, júní 17, 2004

Hæ hó jibbí..ég er að fara að sofa!
5 mínútur liðnar af þjóðhátíðardegi vorum og ég er að rembast við að halda mér vakandi! Ætla að sofa til a.m.k. 10! Einhver svefngalsi í mér...horfði á Chasing Liberty áðan...pfa, amerísk mynd! Forsetadóttir þemað og svo framvegis..reyndar eitt sem er að verða vinsælt hjá Ameríkumúvípródúsers: Evrópa. Myndirnar eru að mestu fallegar myndir af landi og byggingum..eins og komandi EuroTrip líklegast.
En þetta gengur í bylgjum eins og allar þessar blessuðu fótboltaauglýsingar..best er þó nike auglýsingin! Heh..

Var að bæta inn í nýjum tengli á vefrit: vinkona mín er víst komin í Nordjobb í Kaupmannsins höfn. Stúdínan frá MR heldur semsagt uppi vefritinu Dívurnar í Danmörku ásamt vinkonum sínum..gaman að fylgjast með! Vonandi fær maður einnig fréttir frá Afríku gegnum svona vefrit..hver veit!
Góða nótt og sjáumst kannski seinna í dag niðri í bæ með hvíta húfu..á ekki að nýta tækifærið og skella stúdentsskuplunni á sig?!

miðvikudagur, júní 16, 2004

Óbyggðirnar kalla, og ég held ég hlýði þeim..
ég veit ekki hvort eða hvernig eða hvenær ég kem heim!
Þetta lag er alveg að passa við fílingin hjá mér! Nýkomin heim eftir 5 daga fyrir norðan. Rykug, þreytt og með byrjunarsigg á höndunum.
Tók semsagt hálft 'úthald' strax á föstudaginn eftir Króatíuferð, til að ná mér í smá pening núna á föstudaginn þann 18. Er að hallamæla malarveg inn í Bárðardal og niður að Sprengisandi. Á íslensku: labba rösklega frá ca. 8 til ca. 18 með 3 m langa stöng á bakinu svona 120 m, þá sparka ég niður 2 kg járnplatta í vegkantinum, stilli stönginni ofan á prik til að styðja við og halda öllu beinu! Ekki má vera mikill vindur þá skoppar allt saman! Skekkjan má ekki vera nema 3,2 mm á 3 km ef ég man rétt!
Erum 6 saman, en skiptumst í tvo vinnuhópa. Ég og ein önnur stelpa erum nýgræðingar í hópnum og vorum settar með yfirmanninum; Víetnami á fimmtugsaldri. Náum ekki að fara nema tæpa 4 km á dag fram og tilbaka á meðan hin þrjú fara hátt í 5-6 km.
Landmælingahópur Landsvirkjunar er nýbúinn að fá í hendurnar spánnýjan Nissan Patrol. Þannig við erum á tveimur Patrolum, og hópurinn sem ég er í er á nýja fáknum. Við hræðum upp marga gæsina er við þeysum um Bárðadalinn á glansandi silfruðum Patrolfák með uppþyrlað rykfax .
Heilsan hefði mátt vera betri, Króatíuhóstinn enn að pirra mig. Leiðindahósti sem myndi ræna hvaða manni sem er glórunni. Lofaður sé sá sem kom því fyrir að við vorum í sérherbergi, annars hefði ég verið kæfð í svefni með svefnpokanum mínum sem ég fékk í fermingagjöf...
Skruppum einu sinni inn á Akureyri: bærinn tekinn með trompi! Farið í sund að skola af sér og slappa af, borðað á Bautanum, kíkt í Borgarbíó á Eternal Sunshine, rölt á Sportbarinn til strákanna að horfa á EM, komið við í Brynju og fengið sér ís og svo á Esso að fylla bílinn.
Lítið gert eftir að búið er að vinna: eldað sér eitthvað í svanginn, skipt um föt og þvegið rykið af sér, hlammað sér fyrir framan skjáinn og horft á EM með heimamönnum. Farið að sofa um tíuleytið með auma öxl og þreyttar lappir, eftir að hafa lesið smá í bók sem heitir Afhjúpun og er merkileg bók!
En semsagt, er komin heim í 'menninguna'...loksins get ég sent sms og farið á netið..og sofið í mínu rúmi! My family and home!
17.júní á morgunn, allir að skemmta sér!, og margt sem þarf að lesa (vefrit í tonnatali sem þarf að lesa í gegnum, svo ekki sé minnst á Morgunblaðið síðustu daga)!

miðvikudagur, júní 09, 2004

Komin heim frá þjóðverjanýlendunni Porec

Jæja! Velkomin heim samferðafólk! Tja, hvað getur maður sagt: takk kærlega fyrir frábæra ferð!
Ég efast um að ég verði með tveggja vikna dagbókaryfirlit hérna..tæki allt of langan tíma! Maður fer bara yfir það helsta! :)
Veðrið þarna er bara ekkert ósvipað og á Íslandi..you never know whether it's goin to get cloudy or sunny! En við fengum okkar skerf af sól..flestir grilluðu sig síðasta daginn fyrir brottför! Þá var það sko ekki sólarvörn 25 eða 15, þá var það olían! Rigningu fengum við líka..fyrsta alvörudaginn í Króatíu, þegar við vorum að koma aftur til Porec eftir túristaferð um Porec og Rovinj þá gusaðist úrkellið yfir okkur. En stór hópur af mannskapnum lét áfengið reka sig áfram út í hundblautt veðrið til að komast í búðir að kaupa bús, enda var ekki þurr blettur í búðinni það kvöldið..og hillurnar nánast tómar!
Um íbúðasvæðið sem við vorum á þá er bara allt gott af því að segja. Aðal vandamálið var róin sem átti að vera komin á kl:22 og hversu mikið af pirruðum fjölskyldum voru í næsta húsi/íbúð við aðal partýhaldarana. Eftir fyrsta kvöldið (friday night) voru þó nokkrar kvartanir komnar og eftir annað kvöldið voru tvær íbúðir sem átti bara að evacuate immediately! En krakkarnir í þeim íbúðum (aðallega FÁ gæjarnir) fengu sjéns á að vera lengur í Króatíu og þeim tókst að halda sér innan sæmilegra marka!
Nú 'samgöngur' milli íbúða á Plava Laguna svæðinu, sérstaklega á Bellevue hótelinu sem við vorum á, er ekki hjólastóla-væn! Maðurinn sem hannaði stígana á þessu svæði fær viðurnefnið 'stigamaður dauðans'! Eftir tvo daga voru læri, kálfar og rass orðið sperrustíft af trimmi upp og niður brattar tröppurnar! Áætlaður labbaður tröppufjöldi á dag er ca. 500!
Strendurnar eru ekki þessar klassísku SANDstrendur á þessu svæði, heldur klettar og steyptar klappir..með tröppum! :)
Tónlist og matur: hefur heyrt/smakkað betra. Króatar virðast vera mjög hrifnir af teknótónlist og '80/'90 tónlist. Ekki nema þeir séu að þóknast öllum þýsku ferðamönnunum sem eru þarna..held að þessi staðreynd segi allt sem segja þarf um fjölda Þjóðverja á þessu svæði: ég og Heiður fórum í tourist information og Heiður spurði hvort konan talaði ensku..'no, only Deutch'!
Maturinn er alveg ágætis matur. Sambland af þýskum/austurrískum og ítölskum mat. Pizzurnar eru allar um 30-50 kúnur, sem gera ca. 350-550 kr. The Icelanders main course over the journey: Pizza Capricosa (skinka og sveppir) og Large Sprite/Beer...
Skordýr: sterageitungar og huge bjöllur ásamt því venjulega; mý, maurar o.fl.

Ja, hérna..voðalega lítur þetta illa út hjá mér! Eftir að hafa lesið þetta yfir þá hljóma ég eins og mjög bitur ferðamaður!
Komum með góðu hliðina á þessu!
Þrátt fyrir að hafa ferðast lítið í þessari ferð og hafa verið á stað þar sem heimamenn eru í miklum minnihluta yfir sumarið, þá er þetta virkilega fallegur staður. Náttúran er einstaklega falleg..algjör andstæða við íslenska landslagið getur maður sagt (þá í meiningunni hvað varðar útlit! Bæði löndin eiga sína fegurð). Byggingar eiga að hluta til rætur sínar að rekja til austurríska veldisins en einnig aftur til Rómaveldis t.d. Þó er þetta ekki eins og maður sé komin til Ítalíu, því þetta er öðruvísi land og menning. 'Fátækari fegurð' myndi ég segja, ekki að hún sé slæm.
Fjúff, nú er ég búin að gera það sem ég ætlaði ekki að gera..skrifa gagnrýnisritgerð of langa!
Í heildina litið þá var þessi ferð frábær! Frábært fólk, skemmtun, sólböð, skoðunarferðir, verslunarferðir og margt margt fleira! Varð ekki fyrir vonbrigðum með ferðina!
Margir náðu sér í einhverja veiki þarna úti, ég er t.d. með hálsbólgu og kvef..og að sjálfsögðu er maður með smá brúnku og brunnið bak!
Sátt og þreytt eftir langt ferðalag í gær ætla ég að slútta þessari gagnrýni með því að gefa ferðinni heildareinkunn og koma með nokkur góð orð úr ferðinni eða slagorð sem lýsa henni...
Heildareinkunn: 3.5 af 5
..Special price for you my friend!...I can play with you later!....Our stuff wishes...kálfatrimm....finnur króníska áfengislykt....Hey! Á að tippa (þjórfé..mjög tvírætt) þjóninn/bílstjórann?!...Amaretto og red bull, eins og nýr!....are you Fabio?...Chief!....framhjáhaldsferð dauðans....pivo (bjór)!...HR gæjar og FÁ gæjar...Guðrún, má ég fá spray?...á einhver olíu?....hvað á að gera í kvöld...hvað áttu...Oh my..í hverju á að fara...á að fara á Plava eða International (diskótek)?...er það Barilla....nenniru að taka mynd fyrir mig líka?..que!..ég keypti Puma skó...á að fá sér tattoo...hvað keyptiru...OG margt fleira!!
And at the final..góðir bolir sem nokkrir keyptu sér, quota í þá (man ekki alveg, endilega komiði með þetta ef þið kunnið): Some say I was in Croatia..but I can't remember!

miðvikudagur, maí 26, 2004

Hrvatska..here we come!

Jæja! Nú er komið að því! Á morgunn leggja nýslegnir stúdentar Kvennaskólans af stað til Króatíu!
Útskriftin var í gær í Hallgrímskirkju og vorum við öll sæt og fín! Held að ég geti fullyrt að engin hafi ekki verið með smá fiðring..
Eftir fallegan söng hjá kórnum og 'nokkur orð' frá skólameistaranum var komið að verðlaunum og þau voru ekki fá! Margir nýstúdentar voru kallaðir upp og fengu verðlaun fyrir góðan námsárangur o.fl. Jóna Guðný og Katrín Diljá ásamt fleirum voru þó mest áberandi..og ég vil bara segja enn og aftur til hamingju öll sömul! We made it!!

Og nú er komið að ákveða sig hvað á að gera í framhaldinu af stúdentsskírteininu. Ég vona innilega að enginn verði svo leiður á lífinu að hann ákveði að binda endi á það líkt og styttan sem hékk við innganginn á Hallgrímskirkju..frekar ósmekklegt það! Vona að ég sé ekki að ganga fram af einhverjum með þessu..

En eftir að hafa opnað 'rafræna umsókn' hjá Háskóla Íslands er ég ekki alveg jafn viss um hvað ég er að fara að gera. Er ég að fara í jarðfræði eða landfræði? Eða á ég að taka bæði? Hvað er ég að pæla?

Eftir útskriftarathöfnina fór ég með verðlaunaðri vinkonu minni niður í Kvennaskólann okkar að fá smá hressingu. Milli þess sem við sötruðum á einkennilegum drykk tókum við við hamingjuóskum frá kennurum..hræðilegt að hugsa til þess: fyrrverandi kennurum!
Og allir vita hver maður er! Gat ekki annað en hugsað til háskólans þar sem maður á eftir að vera dropi í hafinu...
Þegar aðeins 10 manneskjur voru eftir í salnum fór ég út að bíða eftir fólkinu mínu, með skopmyndina mína og barnamynd. Veðrið var yndislegt og ég baðaði mig í sólskininu og athyglinni sem ég fékk frá fólki sem fór hjá. Ég veifaði Kvennaskóla starfsfólki á leið út sem og samstúdentum, og fylgdist með í hryllingi þegar einn af þeim skrældi felgurnar á bílnum sínum við að leggja fyrir fram skólann.
Ég og fjölskyldan fórum út að borða á Austur-Indíafjelaginu um sexleytið og þar kenndi margra krydda! Allir voru þó saddir eða ánægðir þegar farið var út.
Um leið og ég var komin heim fór ég yfir til verðlauna-Kollu í stúdentsveislu. Fékk far þangað undir mig og pakkana handa henni. Á þeim bæ var ennþá slatti af ættingjum og vinum og fleiri að koma..af yngri deildinni. Gjafir flæddu um allt ásamt veitingum. Ég fékk meirað segja blóm, kort og gjafir frá frábærum vinum, þótt þetta væri ekki mín veisla! Fullt af nýstúdentahúfum/iðnnemahúfum og 'gömlum' stúdentum! Það var hlegið, talað og borðað til miðnættis. Gaman gaman!

Í dag á að naga af sér neglurnar og hugsa um hvað ég á að gera í háskólanum eins og fleiri fyrrv. Kvenskælingar...eða nei! Við erum ekki fyrrverandi Kvenskælingar, alla vega lít ég ekki á mig sem slíkan! Ég skildi eftir smá hluta af mér þar og ég tók með mér smá hluta af skólanum...hjartnæmt..!
Og svo verður maður víst að fara að pakka einhverju niður fyrir ferðina...sólarhringur í ferðina!!

mánudagur, maí 24, 2004

Pitt í pilsi

Jæja! Kemur kvikmyndagagnrýnin!
Eins og margar aðrar stórmyndir þá er Troy í lengra lagi; 2 klukkutímar og 40 mín.
Eins og flestir ættu að kannast við þá er þessi mynd gerð eftir Ilíonskviðu, goðsögu Hómers, sem fjallar um Trójustríðið. Eftir að hafa verið að læra um grískar goðsögur í skólanum núna, þá var ég með goðsöguna á hreinu og hlakkaði mikið til að sjá myndina. En ég brenndi mig á því að hugsa um söguna á meðan.
Sem Ilíonskviðulesandi: ekki nógu góð mynd
Sem unnandi goðsagna (sem hugsar ekki um goðsöguna á meðan, eða hefur ekki lesið hana): bara nokkuð góð!
Sem kvenmaður: Mjög góð!
Þetta er semsagt mjög mikil stelpumynd (fyrir utan allar blóðsletturnar og dauðaveinin) þar sem goðið Brad Pitt er nr.1 í myndinni ásamt pilsinu stutta í aukahlutverki. Og svo nýja brumið: Orlando Bloom. Tími til kominn að sjá hálfnakta eða bara bera karlmenn, ekki alltaf stelpur! Vona að fleiri myndir fylgi í kjölfarið af þessari!
Mestu vonbrigðin voru semsagt hversu ameríkaniseruð sagan varð og svo auðvitað hversu illa myndin fylgdi sögunni (enda bara 'inspired'). Svo, að mínu mati, hefði verið hægt að vinna betur úr þessu efni sem handritshöfundur hafði: hvernig myndin er tekin upp og tónlist og svona smáatriði! Ég var í gagnrýnisham þegar ég horfði á myndina: Trójumenn í hippamunstruðum fötum, Grikkir með korktappa í hárinu, Brad Pitt með dredda, í magabol og með bauga undir augum! Fyrir utan óeðlilega brúnku..en hei, hann er Pitt og verður alltaf fríður maður!!
Það er hægt að skrifa fullt um þessa mynd, og eflaust skiptar skoðanir um hana (endilega tjáið ykkur ef þið hafið séð hana eða hvað ykkur finnst um hana).
Núna bíð ég bara eftir Harry Potter 3 og Shrek 2..að ógleymdum næstu hetjum: Arthúr og Alexander!!

Only 3 days left now..!!
Verð stúdína á morgunn!!

sunnudagur, maí 23, 2004

Sweet sunnudagur

Bjútífúl veður í dag!
Vaknaði heldur seint eftir að hafa verið á spjallinu langt fram á nótt að Esjugrund 32, my 2nd home! Um hádegið var pakkað inn stúdentsgjöf fyrir vinkonu...síðan var sleikt sólina! Ekki stóð sú sleiking ekki lengi þar sem við vorum að fara í bæinn. Amma gamla átti afmæli í dag, 89 ára orðin konan! Eflaust ekki margir lagt leið sína til hennar því á sama tíma var verið að skíra í fjölskyldunni. Barnabarnabarnið hennar ömmu var skírð á afmælisdaginn hennar af ástæðu: litla stúlkan fær nafnið hennar ömmu, Aðalheiður Una Sigurbjörnsdóttir. Yndisleg hugmynd að nafnagift, aðeins að amma myndi vera með á nótunum.
En ég gat ekki verið lengi hjá ömmu, finnst það óbærilegt. Fór með Friðrik á sportbílasýninguna á meðan pabbi var hjá ömmu. Þessi sportbílasýning er nú bara sölumennska og show-off..að sjálfsögðu. En Fm957 og OgVodafone voru mest áberandi. Heldur dauflegir sportbílar sem slíkir. Eiginlega meira glæsibílasýning. En engu að síður fallegt um að líta þarna: Lamborghini Gallardo, Benz í tugatali og margir fleiri flottir, að ógleymdum Ferrari Enzo! En ég var ekki einungis að skoða bílana, því eins og margir aðrir var ég að mæla út fólkið á svæðinu. Einn maður vakti athyglina mína; maður á miðjum aldri í gallaefni frá toppi til táar og heldur sjúskaður. Hann hélt á skókassa sem var teipaður fram og tilbaka. Það fyrsta sem mér datt í hug var sprengja eins og maðurinn lét, laumast í kringum einn bílinn og horfandi í kringum sig. Ég og Sigurborg og Gulli fylgdumst ögn með honum enda var hann athyglisverður. Eftir einhverja stund var hann búinn að opna kassan og innihaldið átti alla athygli hans. Þar sem hann stóð við hliðin á eldgömlum Benz með blæju kom til hans yngri maður. Það var ekki laust við bros hjá manni þegar jeans maðurinn dró varlega upp úr kassanum lítið bílamódel! Hann hefur eflaust fundið fyrirmyndina að dýrmætasta módelinu sínu! Yndislegt svona fólk sem virkilega gefur sig allt fyrir það sem það hefur áhuga á!
Eins og ég gef mig alla í áhugamál mitt á olíubornum guðavöxnum karlmönnum í stuttu leðurpilsi! Haha! Ég er vonandi að fara á Troy eftir tvo tíma..er að hugsa um að klæða mig létt; getur verið að maður fari að svitna fyrir ásýndina!! Slefislef!
A woman can dream..

Svo bendi ég bara á Orðlaus, nýtt blað komið út! Það var einhver grein þarna sem var góð. Kannski maður quoti hana á morgun! En það verður nóg annað að gera annars..
útskrift: 2 dagar
til Hrvatska: 4 dagar!
Keep on counting down!! Uvei!

laugardagur, maí 22, 2004

Víkverji skrifar..

Mikið rosalega var ég sammála víkverja í morgganum í dag (ef að ég væri bara búin að sjá Troy)! En þetta með allar hálfnöktu skvísurnar útum allt! Til dæmis var verið að sýna frá sportbílasýningunni í fréttunum á föstudaginn. Þar voru tvær ljóshærðar píur, æpandi brúnar í æpandi hvítu bikini að klöngrast í áttina að sportbíl á killer pinnahælum! Mig langar að fá glansandi karlmenn á sundskýlu þarna líka! Mig langar ekkert að horfa á einhverjar skvísur vera að strjúka bílana...takk fyrir!
Og eins og víkverji skrifaði, þá vona ég að þröng og stutt leðurpils komist í tísku..nú ef ekki þá eru skotapilsin líka að gera sig! Eða nei..samt ekki!!

Svo var 'góð' grein í fréttablaðinu í dag (laug.d.) um ljóskur. Þið sem lásuð þessa grein; ef Ásdís Rán er með natural ljósa háralitinn sinn núna, þá er ég Cindy Crawford! Það bara getur varla verið..en samt möguleiki (mikið meiri möguleiki en að ég verði Cindy!). En þetta er mjög áhugavert aflestrar, þessi opna í Fréttablaðinu.

Fjúff, núna eru það fimm fræknir dagar þar til við leggjum af stað til Hrvatska!! Ja ja!!

föstudagur, maí 21, 2004

Gaudeamus..tralalla!

Jamm, núna er æfingin mikla fyrir útskrift finito og ég er búin að fá einkunnirnar mínar. Og þær eru alveg ágætar! Nema íþróttaeinkunnin hefur hrapað mikið! hmm..

En fyrir nilla eins og mig (eða aðra sem hafa gaman af söng)..sem þurfa að hlusta á gaudeamus igitur lagið hér!
En nú fer sko undirbúningur á fullt hjá öllum verðandi stúdínum og stúdentum! Og ég held að það séu flestir sammála mér að það sé meiri undirbúningur hjá gellum Kvennaskólans en gæjum..?!

En njótið helgarinnar öllsömul! Ég bíð spennt eftir að komast í bíó, á Troy!!

Samstúdentar mínir: sjáumst hress og spennt á þriðjudaginn!!

fimmtudagur, maí 20, 2004

Vitna í..

..hann Gumma country-dragonfly: núna er vika í reifsólarpartýmadness!

Annað hef ég ekki að segja..þarf virkilega að fara að huga að útskrift og hugsa um hvað ég ætla að taka með til Hrvatski!

þriðjudagur, maí 18, 2004

Finally!

Hurray! Loksins búin í prófum!! Var í landafræðiprófi núna í morgunn og er ennþá með nafnorða súpu í stað heila: monsúnvindar, heiðhvolf, nýsköpunartogarar, kvótakerfi..blaa!
En hvað um það..svo náði ég í stúdentsritgerðina mína sem kostaði blóð, svita og tár. En þessi element voru ekki nema 7 einkunnar virði! Sem er svosem ágætt, á eftir að læra af þessu!
Síðan var skroppið í heimsókn til Hönnu Bjartar dimmalimm til heimilis að Grettisgötu 125..samt eiginlega 22c! Spjallað, keypt í matinn og spallað. Síðan var keyrt upp á Kjaló (vitið þið alltaf hvort það er niður á eða upp á einhverja áfangastaði?!).
Þegar heim var komið tók við smá skrýtin tilfinning: ekkert stress yfir prófum, skólinn gjörsamlega búinn núna! Hvað gera bændur þá af sér? Var sem betur fer búin að gera backup plan: fór á bókasafnið síðustu helgi! Gramsaði í búnkanum og dró upp Dagbók Bridget Jones 2! Svo er bara að byrja á lestrarmaraþoninu! Næst á dagskrá er Agatha Christie og Andrés Önd! Skemmtileg blanda...
Jamm, bróðir minn átti afmæli í gær. 17 ára himnalengja. Var vakin eldsnemma svo öll familíann gæti startað afmælissöng og vakið drenginn. Þegar það var yfirstaðið drattaðist ég upp í rúm aftur og sofnaði. Með þvílíkar hassperur í höndunum eftir langa kajakferð á sunnudaginn. Hélt ég myndi ekki geta reist mig við í rúminu! Og hvað þá að geta skrifað margar blaðsíður á Diddaprófi núna í morgunn...en ég lifi!
Er að hugsa um að finna mér eitthvað að gera, grafa upp moggann frá síðustu dögum til að fylgjast með málum heimsins! Eða þýða einhverja þraut í dönsku Andrés blaði fyrir 7 ára bróðir minn! Hmm, eða kannski maður hreyfi sig aðeins? Göngutúr..

...Zz .. Zz...

sunnudagur, maí 16, 2004

Ruslana...friend of our country!

Jæja, Eurovision búið og Danaprins búinn að gifta sig við mikinn fögnuð..en skandal hérna heima! Þvílíkt fjaðrafok í kringum forseta og ríkisstjórn!
Eflaust hafa ófáir verið í einhverju partýi að fylgjast með..ég fór semsagt ekki. 10 ára systir mín og 17 ára bróðir minn fóru í partý en ég ákvað að vera heima þótt ég mér hefði verið boðið í tvö stykki..
En ég andaði léttar þegar úrslitin voru ráðin; enginn grískur egó guð sem vann..sem betur fer var hann í 3.sæti! Ég var nokkuð sátt með Ukraínu sem sigurvegara og Serbíu og Svartfjallaland í öðru sæti. Bæði hörkugóð lög á sinn hátt. En ég gat ekki annað en hugsað þegar stigagjöfin frá allmörgum löndum var kunngerð að það mætti alveg eins sleppa kosningunum! Svo ótrúlega fyrirsjáanlegt: nágrannalandið/löndin fengu nánast undantekningalaust 12 stigin!!
Og fyrst ég er að tala um söng, þá ætla ég að skipta frá þessari lágmenningu og fara í hámenningu...á föstudaginn var fór ég á tónleika með pabba; vortónleika Landsvirkjunar í Fríkirkjunni. Kórinn sem var að syngja var dómkirkjukór St.Basil kirkjunnar í Moskvu..fræga, litríka kirkjan með lauk-spírurnar, kannist þið við hana?

Semsagt, þeir eru ekki nema 13 menn sem syngja, mjög spes karakterar..en þvílíkur hljómur! Dýpstu bassar sem ég hef heyrt í og svo tærir kontratenórar! Stunning..
einn þeirra vakti sérstaklega athygli mína (þótt þeir hafi allir gert það; í svörtum skósíðum kuflum með band um sig miðja). Maðurinn var eins og klipptur út úr bíómynd þar sem Rússar eru vondu gæjarnir: stór, sterklegur með hermannaklippt ljóst hár...en söng eins og engill! Það setti hljóðann í kirkjunni þegar hann söng einsöng, sem og þegar 13 ára snáðinn sem með þeim var, var að syngja.
Þessi kór var semsagt með tvenna tónleika í gær í tengslum við Listahátíð Reykjavíkur..ætlaði að mæla með tónleikunum, en ef sein!

Og ein pæling: er Jói Fel ekkert að vinna? Maðurinn er í WC að æfa á ólíklegustu tímum og æfir mjög lengi! Þarf hann ekki sinna fjölskyldu heldur eða börnum? Ætli hann taki það í svona pörtum eins og upptökur fyrir matreiðsluþættina sína?? Bara smá hörð pæling..

fimmtudagur, maí 13, 2004

Enn er rembst við blogger..

Ég held að ég þurfi að smá aðlögunartíma fyrir þetta nýja útlit á blogger...hoppa alltaf upp í sætinu þegar ég sé síðuna! Ekki það sem ég býst við að sjá!
En alla veganna, nóg komið um ljóskustæla í mér!
Var að enda við að skoða mjög áhugaverða síðu sem hefur breytt algjörlega sjónarhorni mínu á Króatíuferðina: skoðist hér!
Það verða alls konar furðufuglar á Króatíu, það er ekki hægt að segja annað! Og eitt er á hreinu að það eru margir sem eru að fara að skemmta sér!!

Var í erfðafræðiprófi í dag sem var að gera mig að sjúklingi síðustu 3 daga...tíu kafla próf um eitthvað svona torskilið efni er ekkert grín!
Eftir söguprófið á mánudaginn lærði ég fyrir Landafræðipróf og Líffræði (erfðafræði). Landafræðin var á þriðjudaginn og hún fékk mig til að hugsa um margt..mjög mikið um okkur iðnríkin og þróunarríkin! Kemur kannski pistill um það seinna!
Svo í gær lærði ég frá morgni fram á nótt fyrir líffræði...en ekkert síaðist inn í gráa gumsið í hausnum!
Var orðin frekar áhugalaus um sjöleytið..Eurovision átti minn hug! :)
Horfði á eitthvað af keppninni og svo lokadæmið þegar var tilkynnt hvaða lönd komast áfram. Sýndi sig alveg hvað sætir, stæltir og sveittir karlmenn geta komist langt með því að dilla sér! Það getur enginn sannfært mig um það að gríski gæinn sé góður söngvari né mjaðmahnykkurinn og diskóslut-ið frá Bosníu-Hersegóviníu (hvernig sem það er skrifað)! Kannski finnst einhverjum þetta vera frábær lög..en ég vil bara segja að það voru önnur skárri lög sem hefðu átt að komast áfram. Og ég hélt ég yrði ekki eldri þegar Króatía og Albanía komust áfram með sín lög!

En það er bara mín skoðun..tell me yours!
Allir að horfa Júróvisjon á laugardaginn!!

mánudagur, maí 10, 2004

Hurray for new blogger!

Hmm...ætlaði að vera snögg að hripa niður einhver orð áður en ég fer í próf, en Blogger liðið tók sig til og uppfærði allt heila klabbið..þannig nú þarf ég að læra á þetta eins og nýgræðingur!!
Anyway, búin að vera afslöppuð vika; glápa á sjónvarp, slappa af í sólbaði, dunda sér í tölvunni eða...læra fyrir próf!
Núna er það Saga303 sem er menningarsaga og á morgunn er það Lan203!
Vona að það verði 5 stjörnu veður í dag eins og í gær...það væri gott! Sat í gær úti að lesa fyrir próf en endurskinið af bókinni var svo mikið að ég neyddist til að hætta að lesa, poor me!! Síðan um kvöldið var skellt á grillið alls konar góðgæti, alveg eins og í gær! Grillmatur 2 daga í röð, hvað gæti verið betra?!

En núna er ég að hugsa um að fara að koma mér fram í crowded hópinn af yfirspenntu fólki og láta stressa mig aðeins upp...like I need that!
(það mætti halda að ég væri á leiðinni í enskupróf!)

fimmtudagur, maí 06, 2004

Vefritsvandamál tengjast mér..?

Jæja! Ekki spyrja mig af hverju en ég og ein vinkona mín ákváðum að koma upplýsingasíðu Björgunarsveitarinnar í gang! Og þá erum við að tala um svona vefrit... og ég skellti mér á blog.central.is og opnaði eitt vefrit þar...en ég kann ekkert á það! Síðan opnaði ég eitt í viðbót, á fólk.is og það virðist vera eitthvað meira í þá áttina sem við erum að leita að, en ég kann ekki að setja inn myndir þar! :)
Þannig; allir sem eitthvað kunna á uppsetningu á þessum tveimur vefritum, og vilja veita góð ráð...þá eru þeir hjartanlega velkomnir að veita þau í kommentakerfið! Það væri frábært ef einhver gæti sagt mér hvernig hægt er að setja upp síður inn á blog.central.is vefritinu, ekki tengla á aðrar síður samt! Er þetta skiljanlegt? Semsagt svona síður eins og hægt er að búa til inn á fólk.is..?!
En já..kannski þetta sé ekkert sniðugt; að byrja á þessu rétt fyrir próf!?
Ætla að geyma þetta í einhvern tíma og fara að læra fyrir próf..

So long!

mánudagur, maí 03, 2004

Hvurslags eiginlega?!?

Ég veit ekki hvert ég á að snúa mér þessa dagana: enginn skóli, vika í próf og ég hef lítið sem ekkert að gera! Hvað er ég búin að gera í dag: horfa á Sex and the city, punktur. Gummi er ekki stoltur af mér núna reikna ég með..!
Fyrir utan það þá er ég að furða mig á því hversu þrjóskur veturguðinn er; það snjóar!! Minn ætlar ekki að gefast upp.. Og ég vissi ekki alveg með hvoru ég átti að halda þannig ég fór í kvart-sumar buxur (gsussindustries) og flíspeysu ásamt trefli til að vera hlutlaus...!

Ég held að ég sé búin að nefna Shopaholic bækurnar eftir Sophie Kinsella (man ekki alveg hvað hún heitir)...var að lesa aðra bók eftir höfundinn; Can you keep a secret? Og við erum að tala um bók sem ég hef eitt að segja um: hillarious! (eiginlega bara fyrir stelpur) Mæli með bókunum eftir hana!

Uh, annars er bara allt eitthvað svo tómt þessa dagana. Veit ekkert hvað ég á að gera af mér og nenni eiginlega ekki að gera það sem ég þarf að gera! Hversu löt geturu verið?!
Eitt ætla ég þó að gera í dag; hringja í vinkonu. Mig hefur dreymt hana síðustu 3 nætur og henni líður ekki vel í draumunum, þannig ég ætla að hringja og athuga hvað er uppi hjá henni...
En til ykkar allra (þið öll þrjú) segi ég bara: hafið það gott! :)

laugardagur, maí 01, 2004

Jay (jei) .. búið að dimitera!

Samt, á sinn hátt eftirsjá..nú er mjög lítið eftir af ferðum í Kvennaskólann!
En þetta var skemmtilegur dagur; byrjaði á feitu hlaðborði heima hjá Sigrúnu skvísu. Bekkjarfélagar tíndust inn í húsið hver á eftir öðrum. Allir komnir í 'the suit' og hlæjandi af grímunum góðu! Svo var farið yfir texta, gjafir og dansana...
..en þegar komið var upp í skóla fór spennan að segja til sín: ráfuðum um eins og umkomulausir kjúklingar og vissum ekkert í okkar haus. Svo allt í einu var komið að okkar atriði og við duttum inn í salin algjörlega blind vegna grímunnar. Atriðið var frekar misheppnað en samt ágætt. Ég til dæmis gleymdi einni setningu...og síðan Powers quotin í endann á hverri tilkynningu held ég að hafi alveg klúðrast! En við fórum samt sátt út!
Eftir að öll atriðin voru búin söfnuðust ljóshærða Heidi, töffara Turtles, skrýtnu sæðisfrumurnar, borubrattir Lionsklúbbs Kidda meðlimir og aumingjalegir Austin Powers fyrir utan skólann..spennufallið ekki farið að segja til sín enn!
Flestir Powers löbbuðu niður í miðbæ þar sem nokkrir þeirra ætluðu í himnaríkið. Hittum einhvern annan skóla sem var að dimitera í einhverjum hvítum lökum...?!
Rútan fyrir óvissuferðina reyndist vera tveir gámabílar sem öllum var skellt í og svo var híft fólkið upp! Mikið fjör og margar myndavélar á lofti. Síðan var keyrt um miðbæin og gargað 'kvennaskólinn minn' og margt annað! Hverjum og einum einasta sem við mættum var veifað..!
Loks var stoppað úti á Seltjarnarnesi og nýja stjórnin stóð sig vel við að afhenda fígúrunum grillaðar pulsur/pylsur. Síðan tróð fólkið sér í strætó upp á Hlemm en þaðan var rölt niður Laugarveginn við háværan söng Lionsklúbbsins!
Eftir frekar þunna göngu lét ég mig hverfa með Kollu og við keyrðum heim.
Um kvöldið var svo sest að snæðingi í veislusalnum Dúndur með kennurunum. Allir skrautlegir í klæðnaði eða atferli!
Ég var fegin að ég fékk með mömmupitsu áður því pitsurnar sem var boðið upp á þarna voru ekki að mínu skapi. Áður en boðið var upp á ís m/snickerssósu voru a.m.k. þrír kennarar búnir að láta sig hverfa. Kennarar eins og elínborg, sólveig, björk og fleiri létu sig hins vegar ekki vanta í dansmenninguna og þær stóðu sig vel! En um tíuleytið held ég voru allir kennararnir farnir..
En dimiterararnir héldu áfram að sveifla sér á gólfinu þar til klukkan var eitt..síðan fóru einhverjir niður í bæ á Sólon þar sem var haldið áfram að dansa.
Um þrjúleytið var ég enn vel í glasi, mjög illt í fótunum, búin að detta niður stigann, skera mig á fingri og með hálft glas af bjór aftan á bakinu...komin tími til að koma sér heim. Örvar Snær, bróðir hennar Kollu, og Inga komu að ná í okkur á Avensis glæsikerrunni 6 toy. Fór sátt að sofa.. en líðan er eftir atvikum núna..!

miðvikudagur, apríl 28, 2004

Haloscan að gefa sig..?

Hmm, þar sem tölvunni minni virðist það lífsins ómögulegt að sýna mér commentin á öllum vefriturum blogspot..er ég að íhuga að skella skuldinni á haloscan!
Ætlaði að fara að svara henni Hildi hressu um hvaða leyndardómsfulli kennari þetta væri en þar sem commentin virka ekki..þá skrifa ég bara nánari lýsingu hérna: þessi kennari mun vera vel að sér í enskri tungu, er alltaf vel til fara (gella) og er með ljóst stutt hár...got a clue? Annars er mér illa við að tala illa um hvaða manneskju sem er, í þessu tilfelli þá átti hún bara slæman dag eins og gerist hjá öllum...en hún hefur lag á því að breyta epli í oddhvasst ígulker, ef ég get notað svoleiðis líkingu!
Annað til að skrifa um:
mikið rosalega var gott veður í dag (vel orðað ég veit!)! Ég og Kolla grilluðum okkur samloku og hlömmuðum okkur út á svalir þegar við komum heim úr skólanum...ein kennslustund!
Rétt eftir þrjú ákvað ég að skella mér í sund í blíðunni (Kolla að fara að vinna kl:fjögur) og gerði það! Mókti í andapollinum (vaðlaug fyrir smábörn með hallandi gólfi..tilvalið til að liggja í!) í svona tvo tíma. Síðan var rölt heim eftir að hafa hlegið með sjálfri mér af gullkornunum sem koma frá krökkunum sem í Götusmiðjunni...þau eru alveg brilliant!
Heima var verið að koma grillinu í gang; pinnar með kjöti og grænmeti, bakaðar kartöflur með sósu og salat og fleira...namminamm!

Já! Síðasti skóladagur á morgunn!! Ætla að fara að róta í fataskápnum að finna eitthvað fansí fyrir morgundaginn...og svo um kvöldið er general prufa fyrir dimission hátíðina sjálfa á friday!

Núna þarf maður ekkert að læra..bara að hjálpa systkinum með heimanám..easy piece!

þriðjudagur, apríl 27, 2004

2 days left and counting

Ja hérna hér...ég er búin að vera svo væmin síðustu dagana að hugsa um litla sæta Kvennaskólann minn að ég hélt að ekkert gæti fengið mig til að fara niður á jörðina! En það skemmtilega gerist að ég er rifin harkalega niður af minningaskýinu mínu bleika af skrautlegum kennara núna í morgun.
Byrjaði ekki vel dagurinn; fékk hálfgerða martröð sem tók svo mikið á að ég var þreyttari þegar ég vaknaði heldur en þegar ég fór að sofa! Var ekki almennilega vöknuð þegar ég lagði skakkt í stæði í morgunn í Fjólugötunni..sein í tíma. Var smá pirringur í mér vegna þess að ég drap á bílnum á leiðinni í skólann. Þegar ég steig úr bílnum er ökumaður fyrir framan mig að stíga fram eftir að hafa tekið stæðið fyrir framan mig. Og það er kennari við skólann og ég brosi og segi hæ. Þessi kennari hefur aldrei virkað vel á mig þar sem hann er of 'mannlegur' ef við getum sagt svo..ef kennarinn er í fúlu skapi þá bitnar það á nemendum eða kennslu. Hann var seinn í morgunn eins og ég og sagði ekki einu sinni hæ heldur fór beint í að bauna á mig hvað ég hefði lagt skakkt og að ég væri búin að koma í veg fyrir að einn í viðbót gæti lagt. Ég var svo hissa á því sem hún sagði að það eina sem ég gat sagt (með lyklana í hendinni) að það væri nú frekar lítill bíll sem myndi komast. En svo var hann farinn. Ég lagaði bílinn síðan svo kona sem átti heima á Flókagötu kæmi bílnum. Kennarinn hefði getað orðað þetta öðruvísi, en svona er það bara!

Annars eru mikil hitamál í gangi í matsalnum; Meió indíánaflokkurinn vs. Catan indíanarnir! Það verða háðar orrustur er ég viss um og engin blíðuhót þar! Catan flokkurinn hefur verið lengur við lýði en Meió fólkið og því 'virtari' siðmenning. En Meió menningin er að springa út og fjölgar ört í hópnum. En nú er matsalurinn orðinn og lítill fyrir báða hópana og í dag barði einn meðlimur Catan fjölskyldunnar í borðið og bölvaði Meió ættbálknum í sand og ösku. Þar sem Catan fær öll sín tól og tæki í pakka þá varð hann skiljanlega reiður þegar hann sá að einhver hafði fengið lánaða teningana þeirra. Hann skellti því strax á fátæka Meió ættina sem einungis notast við slík frumstæð tól ásamt plastglasi...

Nú er bara að sjá hvernig málin þróast!
Ég hins vegar ætla ekki að verða í vegi þeirra þar sem ég hef engan skilning á hvorugri menningunni...! Bið yður fyrirgefningar!!