laugardagur, júní 24, 2006

I wanna grow old with you:

Þegar ég sat að venju fyrir framan Skjáinn, horfandi á bullandi sápuna The O.C. þá sprakk ein hugmyndasápukúlan beint fyrir framan nefið á mér. Sendi mig á fleygiferð fram í tímann..til elliára minnar kynslóðar. Í stað Leiðarljóss um 4-5 leytið er haft ofan af hrukkubörnunum með endurendurendursýningu á The O.C., Sex & the city, Lost, C.S.I. og fleiri kraumandi sápum. Helhrukkótt gamalmenni (elli + ljósabekkjaöldrun) hafa sér til dundurs að rifja upp æskuárin: skoða tattooin sín með þykku gleraugunum, troða spikinu í gömlu gallabuxurnar og humma slagarana á gítar..því allir geisladiskar eru ónýtir (lífsaldur þeirra ekki langur). Erfiðlega gengur að skoða digital myndirnar því tölvuskjáirnir fara alltaf minnkandi og slíka nútímatækni þolir gamla fólkið ekki með sína sjón. Elliheimilin verða ein stór skemmtiparadís fyrir hina frjálslegu og kynóðu íslensku kynslóð sem hefur viagra í stað blóðs!

Eitt sinn sagði ég í hormónakasti að það að stunda nám (jarðfræði) við Háskóla Íslands væri eins og að troða mjólkurkexi upp í sig og ætla að melta það á mjólkurglass: skraufaþurrt og óætt helvíti.
Ég held því ennþá fram enda með takmarkaða reynslu af HÍ-námi..en þó 3 vikur.
Nám við litla og brakandi ferska LBHÍ er hins vegar allt annað mál. Þar drýpur smjörið af hverju strái og heimabakað góðgæti og ísköld og freyðandi mjólk beint úr kúnni lýsir best námi og andanum á Hvanneyri: kósí og yndislega mettandi!

Er búin að vera síðustu tvær vikur á sumarkúrsum með mínum litla og hressa bekk (við erum ca. 13 sem erum á Náttúru- og Umhverfisfræðibraut).
12.-19.júní var ég í jarðfræðiferð um Suðurlendið með einum langbesta kennara sem ég hef haft..og ferðin var því ekkert slor, þrátt fyrir mígandi rigningu flesta dagana. En við fengum að sjá marga stórfenglega staði og ekki skemmdi fyrir sólskinsferð einn daginn, ganga upp á Stóru-Dímon og litríkur og svífandi fiðrildafans þar uppi á toppnum (aðmírálar).
Í síðustu viku var síðan plöntugreining hér á Hvanneyri. Ótrúlegt magn af grasi og alls konar plöntum skoðað og latínurullur þuldar og hvert einasta strá á sér nafn! Búin að safna einum 45 plöntum nú þegar fyrir komandi plöntusafn mitt..og því er gólfið í íbúðinni þakið pressum (sem innihalda mogga, gras, mogga o.sv.fr.)! Námskeiðið endaði síðan í þessu helv*** hressa grilli á fimmtudaginn þar sem fólk kom saman í skjólbeltinu góða, grillaði, át, drakk, spjallaði og söng frá sér alla rödd og rænu. Hef ekki skemmt mér jafnvel í háa herrens tid!!

Annars er ég bara á fullu að þrífa út úr íbúðinni (Hvanneyri) í þessum töluðu orðum,
brói úti í Búlgaríu, restin af fjölskyldunni á Goggamótinu í Mosó.

Næstu helgi verð ég síðan á hinu frábæra Landsmóti hestamanna, Skagafirði...
ásamt stórum flokki Hvanneyringa af bestu gerð og síðan góðum vinahóp!
Af því tilefni er inflúensan á þessa leið:
Lag: Baggalútur - Settu brennivín í mjólkurglasið vina (ég er komin heim)
Dressið: lopapeysa, hálsklútur, redback hestaskór og fléttur í hnakkann!! ÍHA!!

mánudagur, júní 19, 2006

Ó María mig langar heim..

Blogger bügger hefur verið að stríða mér,
..en núna loksins get ég sett eitthvað inn!!
Nú er liðnar nokkrar vikur síðan ég kom heim á Kjalarnesið, eftir sannarlega frábæra 5 daga í Hænuvík, á Vestfjörðum. Endurnærð á sál eftir dvölina þar og full hlaðinn batterý, til að hafa orku í síðustu viku, við vinnu og sjálfboðastarf með björgunarsveitinni Kjalarnesi.

Var mikið að velta fyrir mér, eitt sólarbjart kveldið í Hænuvík þar sem ég lá í fleti mínu, hreysti Íslendinga og lífsþægindum. Hinn almenni Íslendingur býr í þéttbýli eða borg og á "sumarbústað út í sveit" (nokkurra 100 fermetra lúxusvillu utan þéttbýlis) þar sem fjölskyldan eyðir flestum helgum sumarsins við sólarsteikingu og lúxusleiki. Kósí sumarbústaðir með engum ískáp eða sjónvarpi eru liðin tíð. Lúxusvillur eru málið.
Fólk er að mestu hætt að þurfa að herða sig með vosbúð og þáttum þess sem þurfti að harka af sér til að færa björg í bú. Flestir sinna sinni skrifstofuvinnu og eina púlið erfiðið eru líkamsræktarspeglasalirnir þar sem mörg brúnkufeikuð boddí hnykla vöðva til að fá fram sexy svita og betur skorinn líkama. Því ekki sést árangur erfiðisins á neinum öðrum en þér...þú hleypur nokkra kílómetra á hlaupabrettinu en færist ekkert úr stað og ekki ertu búinn að hlaða grjótvegg, draga bát í land eða síga eftir eggjum.
Sem betur fer eru margir Íslendingar sem hafa að lífsstarfi einhverja iðngrein sem krefst líkamlegs erfiðis, en þó með hjálp vinnuvéla. Hvar værum við án bóndans, smiðsins, sjómannsins og fleiri iðnmanna? Á meðan skrifstofugreinarnar krefjast enn betur menntaðs vinnuafls og yfir höfði upprennandi vinnukrafta hvílir grunnskóli, framhaldsskóli, háskóli..bachelor, master og jafnvel doktor. Starfsævi skrifstofublókanna styttist og styttist í samræmi við skólagöngulengd sem lengist.

Eftir að hafa erfiðað líkamlega í Hænuvík og sjáanlegur árangur var á umhverfinu þá leið mér þúsundfalt betur en af líkamsræktarendorfíni! Sömuleiðis eftir björgunarsveitarvinnu; setja upp skilti í Esjuhlíðum og moka fyrir skiltum í Heiðmörk. Stoltið yfir að hafa komið fyrir þeim skiltum verður ómetanlegt eftir þennan mánuð!

Búin að setja inn myndir frá Hænuvík..ENDILEGA SKOÐIÐ!!
Nota bene: nú er hægt að breyta uppsetningu myndaskoðunar. Tveir valmöguleikar:
  • Eini möguleikinn sem var (kemur sjálfkrafa, en er hægt að velja með því að smella á 3 litla ferninga og einn stórann..efst, fyrir miðju, í valmynd myndasíðunnar) Tíu myndir vinstra megin (þarf að fletta yfir á næstu tíu o.sv.fr) og stór mynd til hliðar, hægt að skoða slideshow uppi.
  • Nýi möguleikinn (valið með því að smella á 9 litla ferninga efst á valmynd..fá allar myndirnar upp á skjáinn sem thumbnails. Síðan er smellt á fyrstu myndina t.d. og þá kemur hún stór, yfir thumbnail myndir, og hægt er að fletta áfram á næstu myndir.
    Mæli með ferð til Hænuvíkur og gistingu þar..en athugið fyrst með gistingu. Gistinætur hafa tvöfaldast hjá þeim á einu ári!