fimmtudagur, maí 31, 2007

It‘s raining guano:

Hinn ágæti borgarfulltrúi Reykjavíkur að nafni Gísli Marteinn hefur gert það að baráttumáli að mávar séu skotnir til að fækka þeim sem ónáða borgarbúa. Halló halló sagði ég nú bara þegar ég sá í sjöfréttum á RÚV þegar sýnt var frá daglegum störfum mávafretarans við Tjörnina. Eitthvað þarf nú borgarfulltrúinn að beina baráttuspjóti sínu að litla úthverfi Reykjavíkur..landbúnaðarsamfélaginu á Kjalarnesi þar sem allt er að drukkna í sláturúrgangi og mávaskít.
Já, mávarnir herja á byggðina þegar kvölda fer og þegar ég sit fyrir framan skjáinn og sé þá þjóta hjá þá verður mér alltaf hugsað til myndarinnar The Birds. Ég bíð bara eftir því að fiðruðu vargarnir koma berjandi á gluggann!

Morgnarnir eru farnir að einkennast af því að skafa þarf af framrúðunni mávaskít áður en haldið er til vinnu og ekki má skilja neitt matarkyns eftir né rusl á víðavangi. Kettirnir hlaupa hvæsandi um þegar mávarnir leika sér að því að renna sér niður á greyin.

Já Gísli minn og mávaplaffari..endilega kíkiði í kaffi á Kjalarnesið. Sólin skín í heiði og mávahlátur ómar um sveitasæluna og svína- og hænsnaskítsangan fyllir loftið í réttri átt!

mánudagur, maí 28, 2007

Galdrakelling í OS

Er byrjuð að vinna hjá Orkustofnun (OS) og líkar vel!
Einkunnir ekki komnar inn ennþá úr prófum en ég set inn um leið og þær eru komnar!!

Njótið líðandi stundar!

föstudagur, maí 11, 2007

Middle-East vision:
Jæja, þetta er komið nóg! Að mínu mati er þetta ágætis stefnumál fyrir kosningar að lofa því að Ísland segi sig úr Eurovision keppninni og spanderi peningunum í eitthvað lofsverðara og ÞARFARA málefni!

Þetta er ekki klassískt evróvisjon lengur...þetta er bara hlægilegt garg og trúðakeppni milli landa sem eru svo fátæk að þau senda þáttakendur nakta á svið og í sjálfboðaliðavinnu!

Mér var alveg nóg boðið þar sem ég sat fyrir framan skjáinn með familíunni að horfa á undankeppni ESC og hef hugsað mér að hætta að fylgjast með þessum andskota! Urrandi rokkgamlingjar og skrækjandi táningar, kona á besta aldri í stuttum kjól og án undirklæða, hópur fávita að syngja um vampírur á meðan þau hoppa um eins og Íþróttaálfurinn íklæddur búningi úr Battlestar Galactica eða einhverjum öðrum fáránlegum þáttum! Já, tímarnir hafa breyst..ég man enn þegar Páll Óskar hneykslaði alla með sínu Eurovision atriði fyrir 10 árum en í gær brá mér þegar einhver Austur Evrópu dillibossinn sveiflaði blúndunaríum í einu atriðinu á meðan hann gólaði shake it up shake it in eða eitthvað álíka! Og Georgía?! Hvar í ósköpunum í Evrópu er það þjóðríki?! Ég held að þessi “keppni” sé að færast meir og meir til austurs..og suðurs! Middle-East vision ætti þetta að heita og ef ykkur finnst það of ýkt kíkið þá bara á þau lönd sem komust upp úr undankeppninni..Austur Evrópu lönd út í eitt! Eiríkur Hauksson hefði átt meiri séns á að troða hausnum á sér í gegnum bjórkippuplast en að komast upp í þessu undankeppnisdjóki! Ég segi að við eigum að hætta á toppnum með þessari frábæru frammistöðu Eiríks (þó ég sé ekki hrifin af þessu lagi).
Hættum á meðan við höfum virðingu til, ekki eyða meiri peningum, tíma eða öðru í þetta rugl! I’m out, þetta eurovision dæmi er off!
..það er að segja eftir að ég hef mætt í Eurovision partý á laugardaginn!!