sunnudagur, ágúst 09, 2009

What a feeling

Ég finn yfirleitt á mér þegar tími er kominn að nýju riti..á vefinn. Ótal hugdettur hafa kviknað til lífs, velkst um, ómótaðar..svo þegar hugdetturnar eru orðnar nokkrar, vefjast þær saman í eina hug mynd sem flæðir um huga minn, berst með æðum fram í fingurgóma. Þá pára ég niður hugmyndina.
~ : ~
Ég veit að tími mili rita hjá mér er heldur langur, en það er langt síðan ég ákvað að vefritið yrði ekki notað lengur í hversdagsyfirferð (vaknaði, borðaði etc.) heldur í einstaka hugmyndir og vangaveltur ofnar saman við það helsta sem ég hef upplifað frá síðasta riti. Vonandi eru fáar, góðar færslur teknar fram yfir margar, rýrari færslur!
~ : ~
Ég hef oft fengið hrós fyrir skrif mín og teikningar, alveg frá barnæsku. Ég og bróðir minn gerðum oft heilu leikritin/myndasögurnar og fluttum fyrir foreldra okkar. Yngri systkinin mín hafa einnig verið dugleg á sama sviði og ég vona að þau haldi því áfram. Með tímanum lagðist þetta á hilluna hjá mér, þó einstaka sinnum hafi það komið fyrir að ég rifjaði upp gamla takta. Ég vona að hæfileikarnir séu enn til staðar þó þjálfun hafi engin verið!
~ : ~
Í mér blundar fagurfræðilegur rómantíker og ég hef hugsað mér að vekja hann til lífs, hvetja og hrósa. Fyrr í sumar var mér tjáð að ég byggi yfir miklum hæfileikum sem ekki væru nýttir, ég ætti eftir að eiga frábæran starfsframa og það ætti eftir að ganga upp hjá mér með bækurnar. Í huga mér var sáð hugmynd og hefur hún verið að festa rætur og vonandi vex hún og dafnar. Skrifa..teikna..mála..hvað sem skapandi er!
~ : ~
Mér var sýndur mikill heiður fyrir þó nokkru síðan þegar mjög góð vinkona mín bað mig að skrifa á myndspjöld því henni líkaði svo vel rithönd mín. Það hefur tekið mig alllangan tíma að viðurkenna fyrir sjálfri mér að rithönd mín sé falleg, ég hafi sterkan frásagnastíl, góða teiknihæfileika, sé einstök persóna og eigi allt það bezta skilið. Ég hef alltaf sett náungann fram yfir sjálfa mig, fylgst með og stutt vinkonur mínar, vini og ættingja í gegnum þeirra þroskaferli og séð þau blómstra. En gleymt mínu sjálfi. Nú er komið að mér, þótt fyrr hefði verið! Er að vinna í mínum málum og breytningar eiga sér stað og munu eiga sér stað.
~ : ~
Margt hefur gerst í sumar og margt er framundan. Í júní fór ég í frábæra jeppa/göngu/skíða/brettaferð í Hvalvatnsfjörð með mörgum einstökum einstaklingum frá Akureyri.

~ : ~
Í júlí fór ég á fjórðungsmót hestamanna á Vesturlandi. Eins og ávallt var það í góðra vina hópi!

Um miðjan júlí fór ég ásamt Gönguhópnum Handan við hæðina austur að Langasjó. Rúmlega 20 manna hópur af litríkum og frábærum einstaklingum, flestir skyldir en allir tengdir einhverjum böndum. Að þessu sinni var ég sett fararstjóri og var það mjög áhugaverð lífsreynsla! Sveinstindur, Skælingar, Gjátindur, Eldgjá og endað í Hólaskjóli. Ég labbaði því miður einungis á Sveinstind og í Skælinga sökum ótímabærrar bæklunar, en þá er bara eitthvað til að stefna að síðar meir!

~ : ~
Gæsun á Hönnu Björt í lok júlí heppnaðist frábærlega! Allt var eins og best var á kosið: komumst allar, gott veður, vel heppnuð dagskrá og æðisleg stemming! Núna erum við allar með spennuhnút í maganum og hlökkum til brúðkaupsins í lok mánaðar! En áður en sá dagur rennur upp þá er á dagskrá hjá mér Danmerkurferð. Heimsækja bedstemor og -far og fjölskyldu mömmu. Hlakka óheyrilega til!
~ : ~
Í september flyt ég síðan úr 116 póstnúmer í 104. Hef skoðað, fylgst með og borið mig eftir vinnu og húsnæði norður á Akureyri í hálft ár en ekkert markvert gerst. Get ekki setið lengur og beðið, flyt mig um set á höfuðborgarsvæðinu (og krossa putta með búferlaflutninga til Akureyrar!).
Njótið allz!
~ : ~