föstudagur, júlí 20, 2007

Almættið forði ykkur frá..

Ég bið ykkur, ef þið hafið snefil af virðingu fyrir sjálfum ykkur og Páli Óskari, ekki horfa á nýja myndbandið hans
..hér er um stórhneykslanlega fáránlegt myndband sem eitrar þetta eðal diskólag,
sem markaði endurkomu diskó-stanslausa-stuð-Palla!
Ef ég hef vakið forvitni ykkar á þessum hroða,
þá getið þið kíkt á mannskemmandi ófögnuðinn hérna á kvikmynd.is: Allt fyrir ástina
..og segið mér síðan hvað ykkur finnst!
~ : ~

miðvikudagur, júlí 11, 2007

Allt farið andans til

Réttarkerfi landans hefur nú aldrei verið uppá marga fiska þegar kemur að nauðgunarmálum en umtalaður dómur sem var kveðinn upp fyrir ekki svo löngu er svo langt fyrir neðan allar hellur að hann er kominn upp fyrir hellurnar í vanþróaðasta hluta Kína.
Ég á ekki til orð yfir "rökstuðningi" þessa máls og eins og ég las í einhverju fréttablaðinu í morgun þá getum við núna skv. þessu farið út á götu og skotið mann og komist upp með það (mjög öfgalega áætlað). Kæmist upp með það því að maðurinn neitaði því ekki að hann vildi ekki láta myrða sig, ss. segir það ekki upphátt áður en ég dreg upp hólkinn að hann hafi ekki áhuga á að láta myrða sig.

Ég verð alltaf meira og meira undrandi og nánast þunglynd þegar ég hugsa til samfélagsþróunar hérlendis og bara hvernig samskipti heima á milli gengur fyrir sig dag frá degi. Ég tel mig ekki andlega tilbúna að takast á við allar þessar furðulegu flækjur útaf engu og langar helst að hverfa aftur til þeirra gömlu daga þegar lífið var bara líkamleg vinna til að fæða og klæða þig og þína.
Ég er ekki að grínast með þetta...ég er alveg á því að eigna mér jörð einhvers staðar í afdölum, hlaða mér bæ úr torfi, grjóti og rekavið og hefja búskap!
Hver sá dagur líður ekki hér í vinnunni að ég gjói augunum frá stórum tölvuskjánum í áttina að þykkum doðranti í hillunni sem á stendur: jarðaskrá. Þar er að finna allar skráðar jarðir á Íslandi og hvort jörðin er í eyði og hverjir eru eigendur jarðarinnar. Í huga mér blikkar Las Vegas skilti fyrir ofan doðrantinn sem á stendur stórum freistandi stöfum:
Fasteignabók Íslands..veldu þér draumalandið og afsalaðu þér stöðu þinni sem þegn samfélagsins!

þriðjudagur, júlí 03, 2007

Þrjóska og þrúgusykur - kalt á toppnum:

Fór með JÖRFÍ (JöklaRannsóknarFélagi Íslands) í sumarferð/jónsmessuferð á Eiríksjökul, helgina 22.-24.júní og það er ekki annað hægt að segja en að sú ferð hafi verið frábær að öllu leyti. Frábært veður, frábært fólk, frábærir bílar, frábær matur og frábær en erfið ganga upp á jökul!
Ég fór upp á toppinn á jökulhettunni á þrjóskunni og þrúgusykri og engu öðru. Það hvarflaði nokkrum sinnum að mér að snúa við en síðan staulaðist ég kjökrandi áfram upp. Hópurinn var langt á undan mér og alltaf birtist ný "brekka" á jöklinum þegar ég hélt að toppnum væri náð. En ég náði að draga uppi nokkrar hræður og verða þeim samferð síðustu metrana í þokunni og síðan skautuðum við niður jökulhettuna. Tók okkur 30 mínútur að komast niður í grjótskriðurnar!
Í heildina tók uppáferðin 8 og 1/2 tíma (minna hjá flestum öðrum)..lögðum af stað kl.10.30 frá tjaldbúðum í nágrenni Torfabælis og ég og nokkrir með þeim síðustu, skiluðum okkur í búðirnar kl.19 tæplega. Temmilega í grillið hehe..fékk yndislegan mat hjá "fjölskyldunni" minni (tjaldnágrannar) þar sem minn grillmatur beið sallarólegur í ísskápnum á Kjalarnesi eftir því að vera sóttur.
Eftir að allir höfðu tekið hressilega til matar síns og einhverjir hesthúsað bæði pylsupakka og pulsupakka var tekið til við að tendra bálið. Þar átti að syngja langt fram á rauðanótt en þegar nóttin lét aldrei sjá sig ákváðu menn að rúlla inn í tjöldin þegar klukkan var farin að nálgast morgunn!
Síðasti dagurinn var notaður í uppáferð á Strút, kynningarferð að Surtshelli og heimsókn til Páls að Húsafelli, þann ágæta listamann.
Ég veit ekki hvað ég get sett meira á skjá um þessa ferð..upplifunin er að sjálfsögðu ólýsanleg þannig ég ætla ekki að eyða meiri orðum í ævintýrið.
Tók nokkrar myndir og þær er að finna inni á http://123.is/mariath undir myndaalbúm-ferðalanganir-sumarferð JÖRFÍ