Allt farið andans til
Réttarkerfi landans hefur nú aldrei verið uppá marga fiska þegar kemur að nauðgunarmálum en umtalaður dómur sem var kveðinn upp fyrir ekki svo löngu er svo langt fyrir neðan allar hellur að hann er kominn upp fyrir hellurnar í vanþróaðasta hluta Kína.
Ég á ekki til orð yfir "rökstuðningi" þessa máls og eins og ég las í einhverju fréttablaðinu í morgun þá getum við núna skv. þessu farið út á götu og skotið mann og komist upp með það (mjög öfgalega áætlað). Kæmist upp með það því að maðurinn neitaði því ekki að hann vildi ekki láta myrða sig, ss. segir það ekki upphátt áður en ég dreg upp hólkinn að hann hafi ekki áhuga á að láta myrða sig.
Ég verð alltaf meira og meira undrandi og nánast þunglynd þegar ég hugsa til samfélagsþróunar hérlendis og bara hvernig samskipti heima á milli gengur fyrir sig dag frá degi. Ég tel mig ekki andlega tilbúna að takast á við allar þessar furðulegu flækjur útaf engu og langar helst að hverfa aftur til þeirra gömlu daga þegar lífið var bara líkamleg vinna til að fæða og klæða þig og þína.
Ég er ekki að grínast með þetta...ég er alveg á því að eigna mér jörð einhvers staðar í afdölum, hlaða mér bæ úr torfi, grjóti og rekavið og hefja búskap!
Hver sá dagur líður ekki hér í vinnunni að ég gjói augunum frá stórum tölvuskjánum í áttina að þykkum doðranti í hillunni sem á stendur: jarðaskrá. Þar er að finna allar skráðar jarðir á Íslandi og hvort jörðin er í eyði og hverjir eru eigendur jarðarinnar. Í huga mér blikkar Las Vegas skilti fyrir ofan doðrantinn sem á stendur stórum freistandi stöfum:
Fasteignabók Íslands..veldu þér draumalandið og afsalaðu þér stöðu þinni sem þegn samfélagsins!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli