sunnudagur, janúar 29, 2006

Myndir, Photos...eh?!

Jæja..þakka sýndan samhug og hlýju! Gaman að lesa svona svör!!

En nýjustu fréttir: tvær vikur í Skotland
og mín er loks búin að troða inn á netið myndasíðu!

..and please sign my guestbook!! :þ

þriðjudagur, janúar 17, 2006

Á hjara veraldar:

Jæja snjókarlarnir mínir..og kerlingar (verður að vera jafnrétti í essu)!
Rakst á svona bloggara time killer sem er að ganga eins og pestin og "neyddist" til þess að koma killernum hér fyrir! ;)
Neinei, ég setti hann með vilja..þetta er nefnilega líka smá ego-boozter held ég! Og mig vantar smá peppöpp akkúrat þessa daga!
Só...engin pressa, þú þarft ekkert að svara þessu frekar en þú vilt.
This is just for fun..and time killing!
Skrifist inn á kommentaskjáinn:
1. Hver ert þú?
2. Erum við vinir?
3. Hvenær hittumst við fyrst og hvernig?
4. Ertu hrifinn af mér?
5. Langar þig að kyssa mig?
6. Láttu mig hafa gælunafn og útskýrðu afhverju þú valdir það.
7. Lýstu mér í einu orði.
8. Hvernig leist þér á mig þegar þú sást mig fyrst?
9. Lýst þér ennþá þannig á mig?
10. Hvað minnir þig á mig?
11. Ef þú gætir gefið mér eitthvað hvað myndi það vera?
12. Hversu vel þekkiru mig?
13. Hvenær sástu mig síðast?
14. Hefur þig einhvern tímann langað til að segja mér eitthvað en ekki getað það?
15. Ætlaru að setja þetta á bloggið þitt svo ég geti skrifað um þig?

föstudagur, janúar 13, 2006

Förin rista of djúpt..

Öslaði áfram í gegnum snjóhafið í morgun. Fyrsti tíminn í veðurfarsfræði annarinnar og Haraldur Ólafsson að kenna! En eins og margt í dag þá kútveltust mínar ímyndir! Haraldur tv celeb sér bara um einn tíma á meðan annar góður maður hjá Veðurstofunni sér um restina! Blekking..
Held að pósturinn hafi ekki séð sér fært að mæta í dag á Fönneyrina..

Síðan var komið að skólablaðsfundi þar sem vonleysisský hvíldi yfir mannskapnum. Ég var hins vegar skafrennings fjúkandi reið yfir kuldanum í okkar garð að hálfu fyrirtækja. Greinilega erfitt að koma sér upp úr djúpum bóndaförunum og stefna í átt að nýjum viðhorfum. Styrksöfnun gengur ekki eins vel og við héldum þannig glansandi fallega blaðið okkar stefnir hraðbyri í minna og einfaldara blað, en með sama góða efninu.
En útlitið skiptir miklu máli, sérstaklega ef okkur á að takast að
heilla borgarbörnin upp úr skónum!
Sama hvernig fer, þá verð ég stolt af mínu barni og reyni að búa það eins vel undir
hin harða heim íslenskra neytenda!!
Nú er bara að fara að sinna þessu fjandans námi líka og standa sig í (lífs)stykkinu!!
Arr..er að hugsa um að drekkja mér í kakóbollanum!

fimmtudagur, janúar 12, 2006

late white christmas

Já viti menn..snjórinn heimsækir ennþá Ísland af og til! Fór glöð að sofa síðustu nótt eftir að hafa litið út um gluggann minnst tíu sinnum til að horfa á snjókófið fyrir utan. Jess, loksins eitthvað til að horfa á útum gluggann á morgunn, hugsaði ég og skreið undir sæng með bros á vör.
En nei, þegar ég stökk niður af svefnloftinu og góndi út þá sást ekki ein arða af snjókorni fyrir utan! Kíkti á hitamælinn á meðan ég tuggði morgunkorn súr á svip: fimm f***ans gráður! Og þetta á að heita Ís andsk**ans land!! Brunaði norður á Hvanneyri með bekkjarfélaga mínum og þá heldur betur létti yfir minni! Hvanneyri bregst sko ekki sínum stuðningmönnum!! Á móti okkur tók þessi þykka hvíta sæng með öllu tilheyrandi! Skondið að sjá alla námsmanna yarisana ösla snjóinn upp að speglum (ekkert verið að skafa fyrir sveitafólkið nei nei..)!
Þegar ég svo labbaði heim á leið úr tíma rifjuðust upp gamlar snjóminningar er ég fetaði í djúp fótspor einhvers..svo ég fengi ekki kuldakast upp að hnjám! Ég man þá gömlu góðu daga þegar snjómokarinn hrúgaði upp heilu snjófjalli fyrir utan blokkina mína í Breiðholtinu og við krakkarnir tókum nokkra daga í það að búa til nokkur Hvalfjarðargöng þar í gegn!
Kannski þess vegna sem öll þessi göng og allar þessar stíflur eru að spretta fram því fólk fær ekki lengur að grafa göng eða búa til snjóhús/virki...
Besta einræða þessara tímamóta: maður nokkur sem keypti svokallaða "kynbombu" á flugeldasölu björgunarsveitarinnar kom stuttu seinna og fór með þessi snilldarorð. "..nú ég tók hana strax upp úr pokanum, skellti henni á borðið og kveikti í'enni og vonaði að hún myndi kveikja í mér, kynbomban sú! En þannig fór nú ekki...haldiði ekki að hún hafi bara fuðrað upp og síðan birtist eitthvað sem minnti mig ekki á neina bévítans bombu heldur óskapnaður sem þyrfti á lýtaaðgerð að halda!"

þriðjudagur, janúar 03, 2006

Latabæjar-áramót

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir allt það liðna! Nú getur maður hætt að hugsa um það og byrjað allt upp á nýtt...allir skella sér í ræktina, úberferskir og healthy en svo eftir svona mánuð eru 90 % hópsins farnir að gera það sama og síðustu árin: vinna og síðan leggjast í sófann! Sem er nákvæmlega það sem ég ætla að gera..nema ég verð í skólanum í stað vinnu!
Áramótin voru vægast sagt afslöppuð hjá mér. Skellti mér í sund, kíkti á undirbúning flugeldasýningar björgunarsveitarinnar á Kjalarnesinu þar sem ég velti fyrir mér tilgangi heftibyssunar sem lá þar á gólfinu. Skömmu seinna las ég með hryllingi á mbl að kviknað hefði í hjá Hveragerðis skátunum útfrá heftibyssu þegar var verið að undirbúa flugeldasýningu. Sem betur fer varð ekkert mannfall..en hús og búnaður er í tætlum hjá þeim skátum!
Dagurinn leið í einhvers konar tímamótamóki. Borðað góðan kvöldmat um sexleytið með blikkandi neonljós í glösunum...og loks var komið að brennunni. Skellti mér í rykugan björgunarsveitargallann og dröslaðist upp eftir. Fékk poka af stjörnuljósum í hendurnar og fór að dreifa þeim á mannskapinn, sem virðist alltaf meiri og meiri með árunum. Sama á við um brennuna..alltaf stækkar hún og stækkar. Allt í einu var sýningin komin í gang þannig ég þaut af stað með hjálminn á lofti...átti að passa að engir krakkastubbar myndu hlaupa inn á sýningarsvæðið. Með annað augað á ljósasjóinu og hitt á hugsanlegum hlaupurum leið sýningin hjá. Gat þá skellt mér í góðra vina hóp, kysst og knúsað, brosað í myndavélar og sungið með brennukarlakórnum (árlegur viðburður sem gerir brennuna að alvörubrennu).
Áramótaskaupið...tja, það sá hver einast íslendingur þannig ég ætla ekkert að eyða orðum í það!
Missti af þó nokkrum milljón krónum af púðri þar sem ég stóð inn á baði að púðra á mér nefið fyrir kvöldið! Klöngraðist svo út á pinnunum til að sjá restina..sem verður alltaf meiri og meiri með árunum (hvað er fólk að hugsa..). Eftir að hafa klappað nágrönnum mínum lof í lófa fyrir flotta sýningu (og öskrað), knúsaði ég mína fjölskyldu, þakkaði fyrir það liðna og hljóp af stað í gegnum kökurnar yfir til Skrýplalands. Þar beið mín heill hafsjór af knúsum og kossum..stór fjölskylda!
Loks var komið að bæjarferðinni. Fyrir ofan snælínu (árbæ) var heljarinnar partý haldið með góðum hóp. Ég komst að því að gleðin eykst ekki með jarðaberjafreyðivíni..heldur verð ég syfjuð! Náði þó með hjálp frá mínum hressu vinum (og gajol-i!) að halda mér á fótum til klukkan sjö en þá skellti megnið af kjalarnesliðinu sér heim á leið.

Búið að vera fúlt veður það sem af er þessu ári..þannig mér hefur gengið illa að fara snemma á fætur og koma einhverju í verk (blame it on the weather man). En nú fer að líða að skólabyrjun og það þýðir ekkert hangs!

Mánuður í Skotlandsferð..íha!