þriðjudagur, janúar 03, 2006

Latabæjar-áramót

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir allt það liðna! Nú getur maður hætt að hugsa um það og byrjað allt upp á nýtt...allir skella sér í ræktina, úberferskir og healthy en svo eftir svona mánuð eru 90 % hópsins farnir að gera það sama og síðustu árin: vinna og síðan leggjast í sófann! Sem er nákvæmlega það sem ég ætla að gera..nema ég verð í skólanum í stað vinnu!
Áramótin voru vægast sagt afslöppuð hjá mér. Skellti mér í sund, kíkti á undirbúning flugeldasýningar björgunarsveitarinnar á Kjalarnesinu þar sem ég velti fyrir mér tilgangi heftibyssunar sem lá þar á gólfinu. Skömmu seinna las ég með hryllingi á mbl að kviknað hefði í hjá Hveragerðis skátunum útfrá heftibyssu þegar var verið að undirbúa flugeldasýningu. Sem betur fer varð ekkert mannfall..en hús og búnaður er í tætlum hjá þeim skátum!
Dagurinn leið í einhvers konar tímamótamóki. Borðað góðan kvöldmat um sexleytið með blikkandi neonljós í glösunum...og loks var komið að brennunni. Skellti mér í rykugan björgunarsveitargallann og dröslaðist upp eftir. Fékk poka af stjörnuljósum í hendurnar og fór að dreifa þeim á mannskapinn, sem virðist alltaf meiri og meiri með árunum. Sama á við um brennuna..alltaf stækkar hún og stækkar. Allt í einu var sýningin komin í gang þannig ég þaut af stað með hjálminn á lofti...átti að passa að engir krakkastubbar myndu hlaupa inn á sýningarsvæðið. Með annað augað á ljósasjóinu og hitt á hugsanlegum hlaupurum leið sýningin hjá. Gat þá skellt mér í góðra vina hóp, kysst og knúsað, brosað í myndavélar og sungið með brennukarlakórnum (árlegur viðburður sem gerir brennuna að alvörubrennu).
Áramótaskaupið...tja, það sá hver einast íslendingur þannig ég ætla ekkert að eyða orðum í það!
Missti af þó nokkrum milljón krónum af púðri þar sem ég stóð inn á baði að púðra á mér nefið fyrir kvöldið! Klöngraðist svo út á pinnunum til að sjá restina..sem verður alltaf meiri og meiri með árunum (hvað er fólk að hugsa..). Eftir að hafa klappað nágrönnum mínum lof í lófa fyrir flotta sýningu (og öskrað), knúsaði ég mína fjölskyldu, þakkaði fyrir það liðna og hljóp af stað í gegnum kökurnar yfir til Skrýplalands. Þar beið mín heill hafsjór af knúsum og kossum..stór fjölskylda!
Loks var komið að bæjarferðinni. Fyrir ofan snælínu (árbæ) var heljarinnar partý haldið með góðum hóp. Ég komst að því að gleðin eykst ekki með jarðaberjafreyðivíni..heldur verð ég syfjuð! Náði þó með hjálp frá mínum hressu vinum (og gajol-i!) að halda mér á fótum til klukkan sjö en þá skellti megnið af kjalarnesliðinu sér heim á leið.

Búið að vera fúlt veður það sem af er þessu ári..þannig mér hefur gengið illa að fara snemma á fætur og koma einhverju í verk (blame it on the weather man). En nú fer að líða að skólabyrjun og það þýðir ekkert hangs!

Mánuður í Skotlandsferð..íha!

Engin ummæli: