late white christmas
Já viti menn..snjórinn heimsækir ennþá Ísland af og til! Fór glöð að sofa síðustu nótt eftir að hafa litið út um gluggann minnst tíu sinnum til að horfa á snjókófið fyrir utan. Jess, loksins eitthvað til að horfa á útum gluggann á morgunn, hugsaði ég og skreið undir sæng með bros á vör.
En nei, þegar ég stökk niður af svefnloftinu og góndi út þá sást ekki ein arða af snjókorni fyrir utan! Kíkti á hitamælinn á meðan ég tuggði morgunkorn súr á svip: fimm f***ans gráður! Og þetta á að heita Ís andsk**ans land!! Brunaði norður á Hvanneyri með bekkjarfélaga mínum og þá heldur betur létti yfir minni! Hvanneyri bregst sko ekki sínum stuðningmönnum!! Á móti okkur tók þessi þykka hvíta sæng með öllu tilheyrandi! Skondið að sjá alla námsmanna yarisana ösla snjóinn upp að speglum (ekkert verið að skafa fyrir sveitafólkið nei nei..)!
Þegar ég svo labbaði heim á leið úr tíma rifjuðust upp gamlar snjóminningar er ég fetaði í djúp fótspor einhvers..svo ég fengi ekki kuldakast upp að hnjám! Ég man þá gömlu góðu daga þegar snjómokarinn hrúgaði upp heilu snjófjalli fyrir utan blokkina mína í Breiðholtinu og við krakkarnir tókum nokkra daga í það að búa til nokkur Hvalfjarðargöng þar í gegn!
Kannski þess vegna sem öll þessi göng og allar þessar stíflur eru að spretta fram því fólk fær ekki lengur að grafa göng eða búa til snjóhús/virki...
Besta einræða þessara tímamóta: maður nokkur sem keypti svokallaða "kynbombu" á flugeldasölu björgunarsveitarinnar kom stuttu seinna og fór með þessi snilldarorð. "..nú ég tók hana strax upp úr pokanum, skellti henni á borðið og kveikti í'enni og vonaði að hún myndi kveikja í mér, kynbomban sú! En þannig fór nú ekki...haldiði ekki að hún hafi bara fuðrað upp og síðan birtist eitthvað sem minnti mig ekki á neina bévítans bombu heldur óskapnaður sem þyrfti á lýtaaðgerð að halda!"
Engin ummæli:
Skrifa ummæli