fimmtudagur, febrúar 19, 2009

Speed of sound

Tíminn flýgur og hann náði til mín. Sá hraði sem einkennir íslenska borgarsamfélagið hefur hrifsað mig með sér í streituflauminn og því miður er ég ekki með réttan björgunarhring til að fljóta uppi eins og flestir. Mínir andlegu og líkamlegu björgunarhringir íþyngja mér og er ég það djúpt sokkin að ég hef leitað mér hjálpar. Sálfræðingur og fjarþjálfari..ekki á sama tímakaupi, en hlutverk þeirra eru svipuð: leiðbeina mér, koma mér á flot, að létta mína lund og lendar.
~ : ~
Það gerist allt svo hratt nú til dags. Tæknin gerir okkur kleift að hafa samskipti við aðra á ljóshraða og margt getur gerst í krafti síma- eða tölvupóstsamskipta. Ógrynnin öll af málum eru afgreidd á nokkrum mínútum sem í fyrndinni tók nokkra daga jafnvel vikur að ganga frá..fór allt eftir því hvernig viðraði. Bréfasamskipti, landpóstur, blekpennar og vel ígrundað málfar. Tölvupóstur, háhraða nettenging, lyklaborð og innsláttavillur. Veit alveg hvort heillar mig meira þessa dagana þegar ég er viðkvæm fyrir öllu álagi og dramatíkin í mér að gera mig geðveika.

~ : ~
Ég vil sól, ég vil bragða á sólskininu...get ekki beðið eftir sumrinu!
Eftir Noregsferð mína fyrir stuttu, þar sem ég átti góðar stundir með vinkonum, góðri frænku minni og hennar fjölskyldu, kom ég heim með sólskin í flösku: SANA-SOL!! Um leið og ég opnaði flöskuna við heimkomu barst mér að vitum kunnuglegur ilmur og æskuminningar flæddu fram. Ekki annað hægt en að brosa Sólheimaglotti eftir fyrstu skeiðina af heiðgulum veigunum! Nú hefur þessi drykkur bæst í fæðubótarefnisrútínuna á morgnana og mér líður alveg eins og krakkanum framan á flöskunni.

~ : ~
Skíðahelgi framundan, Dalvík er það heillin mín góð! Brettið klárt..nú er bara að pakka einhverjum öðrum óþarfa eins og fataplöggum, svefnpoka og þvíumlíku. Góða helgi!
~ : ~