fimmtudagur, maí 08, 2008

Græn er grund og fermast sprund..

Loksins er maður laus úr viðjum B.Sc. lokaverkefnis og get veitt sumrinu meiri athygli. Tók eftir því í gær hve grænt allt er orðið..hef nánast ekkert farið út fyrir hússins dyr í margar vikur. Ef ég fór eitthvað út þá var það annað hvort til að ná í smá súrefni (var þá samt með hugann við verkefnið) eða sinna útkalli hjá björgunarsveitinni (þá er maður nú ekki beint að skoða náttúruna í kringum sig).

Í dag kl.16.30 verður Gengið gegn slysum. Gengið verður frá Landspítalanum yfir í Fossvog..Björgunarsveitin Kjölur sendir sína fulltrúa, þar á meðal mig. Mæli með því að fólk láti sjá sig og veki athygli á þessu sorglega máli sem bílslys eru.

Fríða systir fermdist á sumardaginn fyrsta..komin í kristinna manna tölu eins og nánast flestir á hennar aldri. Ég set inn myndir frá þeirri samkomu síðar..þegar próf og verkefni eru alveg yfirstaðin!
10.maí, á laugardaginn, er síðan komið að frænku okkar, Bjarnveigu Ástu Guðjónsdóttur..eða Ásta dóttir hans Gutta frænda í Hænuvík eins og við þekkjum hana. Þessi hressa litla frænka, sem er ekki lengur lítil heldur ung dama sem á framtíðina fyrir sér, er semsagt að fara að fermast um helgina og óska ég henni alls hins besta. Því miður fer ég ekki í fermingarveisluna til að samgleðjast fjölskyldunni en hver veit nema maður kíki á Vestfirði síðar í þessum mánuði!
~ : ~
Hér má sjá fermingarfrænkurnar, Fríðu sys (vinstra megin) og Ástu frænku (með me-me) í fjárhúsinu í Hænuvík, maí 2006.

mánudagur, maí 05, 2008

Mávahlátur

Allt frá því fjölskyldan tók saman sitt hafurtask og flutti sig um set (úr gettó-anda Breiðholts í kántrísælu Kjalarness) hefur mér ávallt fundist ég búa úti í móa..þegar fór að vora.
FM Fugl hóf göngu sína þegar daga tók að lengja og vorgolan gaf mönnum byr undir báða vængi..eða undir aftanívagnana á Vesturlandsvegi..mófuglar tístandi og syngjandi allan sólarhringinn.
Nú finnst mér reyndar kveða annað hljóð við, FM mávakvein. Ekki veit ég hver heimilaði þessa yfirtöku á tónlistarflóru vors og sumars. Ég verð hins vegar að segja fyrir mig að ég væri alveg til í að boðið væri upp á að maður gæti skrúfað niður í Mávahlátrinum eða skipt yfir á dillandi tóna gömlu góðu FM mófuglar.

Er sjórinn að fikra sig nær eða eru þetta gettóstælar hjá fugla tegundunum?
Hver er að færa sig upp á skaftið?
..svo lengi sem blóð, fita og sápa rennur í Hofsvíkina í stríðum straumum eru
El Mávíachi komnir til að vera.