fimmtudagur, desember 25, 2008

Heilög ljósahátíð

Vil byrja á því að lofsyngja Emiliönu Torrini. Tónleikarnir voru yndislega andlega upplífgandi og hún sjálf er svo mikið krútt að mig langaði knúsa hana í döðlur og éta (hypothetically speaking)! Þarna í Háskólabíóinu, þar sem ljósin umvöfðu blíðlega tóna stórsöngkonunnar og undirspilara í laginu Beggar's prayer, byrjuðu jólin hjá mér.
~ : ~
Á föstudaginn síðasta fór ég í jólaboð á Fannafold milljón hjá útskrifaðri Kvennaskólapíu sem er ein af þeim mörgu góðu persónum sem ég hef kynnst í gegnum árin. Í jólaboðið bauð hún því fólki sem hún hefur kynnst í gegnum árin og standa henni nærri. Notaleg hátíðarstemning myndaðist í stofunni yfir spjalli og góðum veitingum í boði hússins. Þarna, sitjandi í jólahring í stofunni, birti til í huga mér að sjá slíkan vinakærleik og góðan anda.
~ : ~
Síðustu helgi stóð ég tvær dagvaktir á sjúkrabíl hér á höfuðborgarsvæðinu. Strákarnir á báðum stöðvunum tóku mér mjög vel. Ekki get ég sagt að útköllin hafi verið of mörg en ég hafði svosem nóg að gera við að svara skotum frá strákunum og svara aftur og aftur því að jú, ég hafi keypt dagatal af þeim og vinkonur mínar líka! En semsagt, ég held að ég hafi nú lært eitthvað af þessum útköllum sem ég fór í en væri alveg til í enn fleiri vaktir í starfsþjálfun!
~ : ~
Hátíð ljóssins hefur hingað til verið hreint ilmandi góð..öll fjölskyldan saman (svona að mestu), reykt læri af veturgömlu af Vestfjörðum klikkar ekki frekar en fyrri jól og ekki skemma fyrir hveitikökurnar hennar mömmu og möndlugrauturinn! Allir himinlifandi með gjafaflóðið..Bjarni litli er búin að glamra svo mikið á flunkunýja Fender gítarinn sinn að pabbi sleit streng á honum þegar hann var stilla hljóðfærið. Fríða situr enn slefandi yfir snyrtitöskunni sinni..við erum að tala um bjútíbox sem er á stærð við skjalatösku! Frikki fór sáttur á vakt í morgun með útflúraðan viskípela sem Fríða málaði á. Emma dillar sér við nýja Kanye West diskinn sinn og heldur um inneignarnótu í Púkann með sælusvip. Pabbi fór í nýju skyrtuna sína í morgun og mamma er hæstánægð með súkkulaðifjallið sem kom í ljós eftir gærkveldið! Ég er búin að kúra minn skerf undir nýja Álafossteppinu mínu og rétt skreið fram til að skrifa smá á vefritið! Margar góðar gjafir og hugsanir sem ég hef fengið og gefið þessi jól..vonandi hef ég náð að gleðja sem flesta!
Áramótakortin eiga hins vegar eftir að skila sér! Engin jólakort þetta árið, heldur áramótakort eða nýárskort!
~ : ~
Njótið hátíðanna af líkama og sál! Þýðir ekkert annað!! Þakka kærlega fyrir allt það liðna og vona að þið hafið notið þess eins og ég! Sjáumst á nýju ári..hef ekki hugsað mér að pára neitt hér inn fyrr en að þessu ári liðnu, nema eitthvað mjög svo merkilegt hafi skeð!
Inflúensa þessara síðustu daga ársins 2008: lagið Gamlársparty með Baggalút!
~ : ~

föstudagur, desember 12, 2008

Föstudagsrúning

Tók heljarinnar rúningarnámskeið í dag..létt upphitun í morgun á leið til vinnu en fararskjótinn var þeim meira loðið er leið á daginn. Þannig þegar ég þrammaði út af vinnustaðnum kl.17 á gúmmístövlonum og dúnaranum þá blasti við mér hvítt hrúgald. Eftir þó nokkrar ryskingar við dýrið tókst mér að opna bílstjórahurðina, svissa á kvikindu og botna miðstöðina. Því næst bretti ég niður ermar, lúffaði mig og tók fram sköfuna um leið og ég greip í eyrað á loðna ferlíkinu og hóf að skafa.
Hvítar flyksur gengu í allar áttir á meðan ég snyrti kóreska rolluna (semsagt ekki Corolla). Það murraði lágt í henni og greina mátti garnagaulið berast innan frá (Villi Vill á fóninum). Ég gaut augunum á handbragð annarra rúningarmanna og sá ekki betur en að öll fagmannleg vinnubrögð væru farinn fjandans til í jólastressinu. Tætingslega rúnar rollurnar höktu um stræti borgarinnar með þykka ull á hryggnum. Þessi óvönduðu vinnubrögð eiga eftir að koma þeim í koll, tautaði ég, og í sama mund og ég hristi höfuðið keyrði dauðadæmdur maður rolluna sína utan í eina bláa og snoðaði hliðina. Þarna hefði hann betur tekið sér tíma í að skafa allann skrokkinn á sinni.
Það er dýrt spaug að snoða annarra manna rollur þannig að undan blæði!

~ : ~

EMT-B, sjúkraflutningsprófin yfirstaðinn. Fékk að vita að ég hefði staðist skömmu eftir próftökuna, fékk handaskak upp á það. En ég bíð ennþá eftir staðfestum einkunnum frá Sjúkraflutningaskólanum og umsögn. Helgina 20.-21.des er síðan starfsþjálfun á tveimur stöðvum höfuðborgarsvæðisins.

Um þessa helgi: reyna að ösla jólaösina í Kringlunni á ókristilegum tíma með systrum, slappa af og fyllast andlegri vellíðan á tónleikum Emilíönu Torrini, skreyta piparkökur, pakka jólagjöfum og sinna öðrum hátíðarverkum. Ef það heldur áfram að kyngja snjó þá verður snjóbrettið dregið fram og hugað að brettaferð á næstunni.
~ : ~
Keyrið varlega þegar svona færð er og í guðanna bænum..ekkert hálfkák með sköfuna!!
~ : ~