föstudagur, desember 12, 2008

Föstudagsrúning

Tók heljarinnar rúningarnámskeið í dag..létt upphitun í morgun á leið til vinnu en fararskjótinn var þeim meira loðið er leið á daginn. Þannig þegar ég þrammaði út af vinnustaðnum kl.17 á gúmmístövlonum og dúnaranum þá blasti við mér hvítt hrúgald. Eftir þó nokkrar ryskingar við dýrið tókst mér að opna bílstjórahurðina, svissa á kvikindu og botna miðstöðina. Því næst bretti ég niður ermar, lúffaði mig og tók fram sköfuna um leið og ég greip í eyrað á loðna ferlíkinu og hóf að skafa.
Hvítar flyksur gengu í allar áttir á meðan ég snyrti kóreska rolluna (semsagt ekki Corolla). Það murraði lágt í henni og greina mátti garnagaulið berast innan frá (Villi Vill á fóninum). Ég gaut augunum á handbragð annarra rúningarmanna og sá ekki betur en að öll fagmannleg vinnubrögð væru farinn fjandans til í jólastressinu. Tætingslega rúnar rollurnar höktu um stræti borgarinnar með þykka ull á hryggnum. Þessi óvönduðu vinnubrögð eiga eftir að koma þeim í koll, tautaði ég, og í sama mund og ég hristi höfuðið keyrði dauðadæmdur maður rolluna sína utan í eina bláa og snoðaði hliðina. Þarna hefði hann betur tekið sér tíma í að skafa allann skrokkinn á sinni.
Það er dýrt spaug að snoða annarra manna rollur þannig að undan blæði!

~ : ~

EMT-B, sjúkraflutningsprófin yfirstaðinn. Fékk að vita að ég hefði staðist skömmu eftir próftökuna, fékk handaskak upp á það. En ég bíð ennþá eftir staðfestum einkunnum frá Sjúkraflutningaskólanum og umsögn. Helgina 20.-21.des er síðan starfsþjálfun á tveimur stöðvum höfuðborgarsvæðisins.

Um þessa helgi: reyna að ösla jólaösina í Kringlunni á ókristilegum tíma með systrum, slappa af og fyllast andlegri vellíðan á tónleikum Emilíönu Torrini, skreyta piparkökur, pakka jólagjöfum og sinna öðrum hátíðarverkum. Ef það heldur áfram að kyngja snjó þá verður snjóbrettið dregið fram og hugað að brettaferð á næstunni.
~ : ~
Keyrið varlega þegar svona færð er og í guðanna bænum..ekkert hálfkák með sköfuna!!
~ : ~

Engin ummæli: