mánudagur, janúar 22, 2007

Norðankaldi:

Sit við Dellarann og nýt allra þeirra nútímaþæginda sem ég hef verið án síðustu daga.
Lagði af stað seint á föstudegi í helgarferð með liði frá Björgunarsveitinni Brák, Borgarnesi. Hópurinn og þungir bakpokar voru keyrðir áleiðis inn dal, sem ég man ekki hvað heitir, norður af Borgarnesi. Þegar bílar og bílstjórar treystu sér ekki lengra inn dalinn var pokum hent út og hópurinn skilinn eftir í dimmunni sem þrengdi að okkur í fyrstu. Hófum að ösla snjóinn í blindni, ætluðum sko að koma nætursjóninni í gang! Og viti menn, með glitrandi stjörnuhiminn og stillt norðurljós fyrir framan okkur þá lýstist upp snjórinn. Himininn var þéttsetinn af stjörnum stórum og smáum, hef sjaldan séð annað eins! Við fórum upp og niður hæðir, í gegnum þykka snjóbunka eða löbbuðum á auðum vegi allt kvöldið. Þegar við fórum að nálgast áfangastað (Álfthreppingakofa) æstust norðurljósin upp og upp hófst hin glæsilegasta sýning. Stöðva varð gönguna og göngufólk lá eins og hráviði um svæðið, starandi upp á himinhvolfið þar sem litadýrðin var bleik og sterk græn og gekk í heillandi bylgjum. Eftir þetta orkuskot héldum við galvösk áfram þar til við komum loks að kofanum. Duttum inn í anddyrið, hentum af okkur bakpokum, úr skóm og hlaupið í það að hita upp kofann með litla gasofninum sem stóð á miðju, ísköldu gólfinu. Eftir að pissuhorn við kofann hafði verið ákveðið var snjór settur í potta úr "hinu horninu" og hann hitaður þar til heitu vökvaformi var náð. Skjálfandi náði ég að hella kakódufti í bolla og blanda við vatn og sulla ofan í mig. Síðan var skriðið ofan í svefnpoka og reynt að koma einhverjum hita í kroppinn.
Lagt af stað klukkan ellefu daginn eftir þegar búið var að éta, pakka, tannbursta sig, þrífa og klöngrast út í rökkrið og skilað smá vökva. Greinilegt að ég hafði ekki verið dugleg að drekka vatn. Var með vatnsbrúsa fastan við mjaðmabeltið og þar veltist vatnið um og breyttist hægt og rólega í ís. Þurfti reglulega að kreista brúsann og hrista, til að koma í veg fyrir algjöra íslagningu, og við þennan gjörning leið mér eins og karlmanni eftir skvett úr skinnsokk því brúsinn var á svona skemmtilegum stað!
Heldur meiri vindur þann daginn og því ekki oft stoppað á leiðinni. Stoppuðum þó til að fá okkur smá hádegisnasl og ná okkur niður eftir mesta adrenalín-kikk dagsins: stíflu-klobbinn! Þannig var það að við þurftum að komast yfir eitt stykki á og yfir hana var stífla sem hefur oft verið notuð í þeim tilgangi að krossa ánna. Nema hvað að yfir stíflunni lá þessi fallegi klaki, vel rúnnaður, þannig við tókum upp á því að setjast klofvega á klakastykkið og toga okkur áfram. Sem gekk bara vel fyrir utan að ég rann næstum niður stífluna einu sinni og einn sneri við á leiðinni til að ná í vatnsflösku sem hann hafði misst. Þá misstu hjörtu okkar allra úr eitt slag því hann stóð síðan upp til að setja á sig flöskuna..á klakanum!
Eftir kuldalegan hádegismat var haldið áfram ferð að Langavatni, sem reyndist vera í föstu formi og því gátum við stytt leið okkar að Torfhvalastöðum talsvert. Sem var bara gott því til okkar stefndi þessi myndarlegi og dökki skýjabakki að norðan. Tipluðum leið okkar yfir vatnið, ungliðarnir tjékkuðu reglulega á ísnum, hvort hann væri nokkuð lekur! En við komumst heil yfir vatnið með sólina í bakið og skýjabakka að framanverðu. Eldra liðið fór í það að hita upp kofa og vatn (og hita dýnurnar og svefnpoka..hehe) á meðan yngri deildin fór með skóflurnar okkar og gróf sér myndarleg snjóhús. Greinilega heilmikil orka eftir hjá þeim.
Lágum í móki undir svefnpokum og Halla fjallaljón skapaði stemninguna með munnhörpuspili.
Seint og um síðir hrundu strákarnir inn, dauðsvangir og alsælir með sköpunarverkin sín. Matur var rifinn upp úr bakpokum og umbúðir þeyttust um gólfin þegar innviðið var tætt í sig. Þegar ró hafði færst í mannskapinn var sest við spilamennsku..það er að segja allir nema lata ég sem kom mér ekki úr hlýjum svefnpokanum. Þannig milli svefns og vöku útskýrði ég fyrir þeim spilareglur fyrir nýtt spil handa þeim og lagðist síðan útaf. Vaknaði við hróp og köll seinna í öðru spili hjá þeim og ákvað að drífa mig út að sinna kalli náttúrunnar. Vissi ekki alveg hvert ég átti að snúa mér í þeim efnum þegar ég sá öll músasporin sem skreyttu alla skafla og snjótægjur. Greinilegt að matarlyktin hafði æst upp ábúendur svæðisins. Fann mér stað þar sem engin spor voru og gat sinnt mínu í rólegheitunum fullviss um það að enginn mús myndi trufla.
Vaknað daginn eftir við kvak í vekjaranum um hálftíuleytið. Hægt og rólega dröslaðist mannskapurinn á lappir, flestir stirðir eftir óhemjumagn af súrefni og hreyfingu síðustu daga. Skóflað í sig mat og dóti hent ofan í bakpokana. Kofinn kvaddur með þrifum, skrif í gestabók og matarfórnir færðar á altari ábúenda, snjóskafl. Lagt af stað til móts við bílamóttökuna um ellefu. Labbað upp úr dalnum og síðan niður í flatlendi Borgarfjarðar, nálægt Svignaskarði. Sólin tók glaðlega á móti okkur þegar við klöngruðumst upp úr dalnum og fötum var fækkað í skyndi. Við gerðumst svo frökk að kvarta undan hita, eftir þessa helgarferð þar sem kuldi hafði verið ráðandi, þá leyfðum við okkur þetta þó.
En í heildina þá er ekkert hægt að segja um þessa ferð annað en að hún hafi verið frábær reynsla í alla staði og ferðafélagar sömuleiðis!

Lengi lifi létt og laggóð ferðamennska!

þriðjudagur, janúar 16, 2007

1,2..halló, halló

smá test í gangi. ég og beta-blogger erum orðnir svarnir óvinir og fyrir mér heitir þetta kerfi bara bite-me-blocker!! Hefur ekkert leyft mér að skrifa síðan á jólunum!