Þrjóska og þrúgusykur - kalt á toppnum:
Fór með JÖRFÍ (JöklaRannsóknarFélagi Íslands) í sumarferð/jónsmessuferð á Eiríksjökul, helgina 22.-24.júní og það er ekki annað hægt að segja en að sú ferð hafi verið frábær að öllu leyti. Frábært veður, frábært fólk, frábærir bílar, frábær matur og frábær en erfið ganga upp á jökul!
Ég fór upp á toppinn á jökulhettunni á þrjóskunni og þrúgusykri og engu öðru. Það hvarflaði nokkrum sinnum að mér að snúa við en síðan staulaðist ég kjökrandi áfram upp. Hópurinn var langt á undan mér og alltaf birtist ný "brekka" á jöklinum þegar ég hélt að toppnum væri náð. En ég náði að draga uppi nokkrar hræður og verða þeim samferð síðustu metrana í þokunni og síðan skautuðum við niður jökulhettuna. Tók okkur 30 mínútur að komast niður í grjótskriðurnar!
Í heildina tók uppáferðin 8 og 1/2 tíma (minna hjá flestum öðrum)..lögðum af stað kl.10.30 frá tjaldbúðum í nágrenni Torfabælis og ég og nokkrir með þeim síðustu, skiluðum okkur í búðirnar kl.19 tæplega. Temmilega í grillið hehe..fékk yndislegan mat hjá "fjölskyldunni" minni (tjaldnágrannar) þar sem minn grillmatur beið sallarólegur í ísskápnum á Kjalarnesi eftir því að vera sóttur.
Eftir að allir höfðu tekið hressilega til matar síns og einhverjir hesthúsað bæði pylsupakka og pulsupakka var tekið til við að tendra bálið. Þar átti að syngja langt fram á rauðanótt en þegar nóttin lét aldrei sjá sig ákváðu menn að rúlla inn í tjöldin þegar klukkan var farin að nálgast morgunn!
Síðasti dagurinn var notaður í uppáferð á Strút, kynningarferð að Surtshelli og heimsókn til Páls að Húsafelli, þann ágæta listamann.
Ég veit ekki hvað ég get sett meira á skjá um þessa ferð..upplifunin er að sjálfsögðu ólýsanleg þannig ég ætla ekki að eyða meiri orðum í ævintýrið.
Tók nokkrar myndir og þær er að finna inni á http://123.is/mariath undir myndaalbúm-ferðalanganir-sumarferð JÖRFÍ
Engin ummæli:
Skrifa ummæli