fimmtudagur, maí 31, 2007

It‘s raining guano:

Hinn ágæti borgarfulltrúi Reykjavíkur að nafni Gísli Marteinn hefur gert það að baráttumáli að mávar séu skotnir til að fækka þeim sem ónáða borgarbúa. Halló halló sagði ég nú bara þegar ég sá í sjöfréttum á RÚV þegar sýnt var frá daglegum störfum mávafretarans við Tjörnina. Eitthvað þarf nú borgarfulltrúinn að beina baráttuspjóti sínu að litla úthverfi Reykjavíkur..landbúnaðarsamfélaginu á Kjalarnesi þar sem allt er að drukkna í sláturúrgangi og mávaskít.
Já, mávarnir herja á byggðina þegar kvölda fer og þegar ég sit fyrir framan skjáinn og sé þá þjóta hjá þá verður mér alltaf hugsað til myndarinnar The Birds. Ég bíð bara eftir því að fiðruðu vargarnir koma berjandi á gluggann!

Morgnarnir eru farnir að einkennast af því að skafa þarf af framrúðunni mávaskít áður en haldið er til vinnu og ekki má skilja neitt matarkyns eftir né rusl á víðavangi. Kettirnir hlaupa hvæsandi um þegar mávarnir leika sér að því að renna sér niður á greyin.

Já Gísli minn og mávaplaffari..endilega kíkiði í kaffi á Kjalarnesið. Sólin skín í heiði og mávahlátur ómar um sveitasæluna og svína- og hænsnaskítsangan fyllir loftið í réttri átt!

Engin ummæli: