fimmtudagur, september 16, 2004

Lognið að flýta sér á Kjalarnesinu..

Fyrir utan það að hafa farið seint að sofa í gærkvöldi þá var lítið sofið yfir nóttina vegna veðurs! Maður óvanur svona haustlátum eftir blítt sumar og því kom manni ekki dúr á auga mest alla nóttina. Horfði á halogen ljósalengjuna í loftinu sveiflast um og hlustaði á ömmuklukkuna í gluggakistunni klingja endalaust..þar til ég drattaðist niður stigann og hrifsaði hana úr glugganum, úrill og pirruð, klukkan hálfsex um morguninn. Þá hélt ég að ég gæti loks sofnað..en þá fékk ég sms! Ég hálfgrenjaði og hló þegar ég sá að það var óveðursútkall hjá björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu. Ég staulaðist enn og aftur fram og fór inn í hús..og þá voru allir komnir á fætur! Sama sagan hjá þeim, enginn gat sofið. Mamma var komin í ullarnærfötin og eina hlífðarbuxnaskálm. Æ já, það var gult útkall. Best að drífa sig!
Enginn morgunmatur, stokkið út og drifið sig upp í hús. Við vorum sex til að byrja með en svo fjölgaði eftir því sem tímanum leið. Vorum of sein að bjarga húsvegg í nýbyggingu..hann var fokinn niður. En það var nóg eftir; skorða af skjólvegg, tína saman ruslatunnur í skjól, bátaskrifli fært til, hreinsað gler úr brotinni rúðu í skólanum og setja plast í rammann, safna saman kofabrotum og fylgjast með kerrum og bátum ekki var hægt að hreyfa án þess að það fyki lengra. Svo komu smiðshendur nokkurra liðsmanna sveitarinnar að góðum notum við að festa bárujárnsplötur sem voru að skrælast af gömlu fjósþaki.
Semsagt..klukkan tæplega tólf var vindinn farinn að lægja og allt fokið sem gat fokið og ekkert hægt að gera meira. Eignatjón í hverfinu er þó nokkuð...brotnar rúður og dældaði bílar. Vindhraði að jafnaði fór þó ekki yfir 30 m/s, en í hviðum náði hann samt tæplega 60 m/s.
Eftir þetta hef ég ekkert gert mikið í dag. Vesenast í málum fyrir björgunarsveitina vegna fundar sem er í kvöld.
Svo er nóg um að vera um helgina! En það kemur síðar færsla um það!

En þar til...allir að passa sig á logn express!!

Engin ummæli: