miðvikudagur, desember 22, 2004

Gjörðu svo vel...og gleðilega hátíð!

Jæja börnin góð, senn kemur hápunktur hátíðahaldanna þennan myrka mánuð, þegar tendrað er á jólaljósunum kl.sex á aðfangadag og klukkurnar hringja inn jólin! Hver er ekki glaður og sæll á þeim tíma...hátíð ljóss og friðar. Ekki endilega kristinnar trúar tengt heldur eru jólin fyrir mér fjölskylduhátíð og hamingjan og friðurinn sem fylgja þessu...lýsir upp þunglyndis skammdegið!

Loksins frídagur hjá mér í vinnunni...svaf til hálfellefu og staulaðist svo út í bíl með pabba og Fríðu systu. Við lögðum á Hverfisgötunni og örkuðum inn á Laugarveg í nístandi frostinu. Slatti af fólki á röltinu, ómur af sömu glamrandi jólalögunum, kaffi og möndluilmur náði að ryðja sér leið inn um nefið í gegnum sultardropana....á gangstéttinni stirndi á frosinn ælupoll, eftir skrautlega helgi hjá einhverjum, sem á örugglega eftir að verða valdur að úlnliðsbroti hjá einstaklingi með hendur fullar af jólagjöfum og sér ekki hvar hann stígur niður fæti.
Eina tilfinningu sem tengist óneitanlega jólastemningunni hjá mörgum samlöndum mínum hef ég þó ekki orðið vör við...alla veganna ekki í jafn miklu magni og áður. Það er blessað jólastressið. Og nú ætti ég að vera búin að smá skammt af því í vinnunni, en svo er ekki. Stressið er á undanhaldi. Í Kringlunni beið fólk rólegt í röð eftir afgreiðslu og á stjörnutorginu stóð par með matarbakka og spurði fjölskyldu, sem sat við hálft borð, kurteislega hvort það mætti tylla sem við hliðiná þeim. Svo virðist sem flestir séu að læra inn á að skipuleggja tíma sinn fyrir jólin..
..en ég ætla nú ekki að segja já og amen við þessari tilgátu minni; enn á ég eftir að vinna á morgunn, Þorláksmessu dag og kvöld!
En í dag ætla ég sko að taka daginn með ró og leti, vefja gjöfum inn í glanspappír og krota á miða til:...og frá:...! Ekkert getur raskað minni stóísku ró, nema kannski rauð jólaspá?! Nei annars, ég er hætt að kippa mér upp við þá veðurspá! Orðinn að jólasið að hafa rauð jól, enda rauður jólalitur!

Gleðilega hátíð elsku snúllurnar mínar og hafið það sem allra allra bezt yfir jólin! Étið á ykkur gat án þess að hugsa um kaloríurnar (það má yfir jólin) og njótið þess að stúta gjafapappír og umslögum til þess að opinbera glaðning og góðar kveðjur!!




Engin ummæli: