laugardagur, ágúst 14, 2004

Hver á sér fegra föðurland...

var að lesa 101 reykjavík sem er, eins og margar íslenskar nútímabókmenntir, frekar súr og kynóð bók. Samt skemmtilegur orðaleikur hjá Hallgrími og svona spekúleringar útflúraðar með orðum og lýsingum. Hér kemur listi yfir 'tegundir af kvenmanni': "..það eru til sætar stelpur, laglegar, leglegar, legar, legtækar, bærilegar, breyskar (frábærar), skynsamlegar, drengilegar..bókanir (eftirsóttar stelpur), sporslur, pónýs (stúlka undir lögaldri) og gón (stórglæsileg stúlka)...svo þessar eldri. Brot-af-því-besta-týpurnar, Greatest Hits-dömurnar, undirhökubeljurnar, bronkítisgribburnar, ríkisgeirakvensurnar, jeppakempurnar, lottójussurnar sem spila með í hverri viku en aldrei fá það og endurmenntunarlessurnar."
Og svo vantar enskar þýðingar á skiltin fyrir túristana: Esja. Easy. Vallá. Hardly river. Dalsmynni. Mouthwash. Kiðafell. The kid that fell. Saurbær. Shit farm. Geldingaá. Castration river. Baula. Cowspeak. Ok. Okay. Munaðarnes. Lazyness.
Og nokkrar orðskýringar aftast úr bókinni:
Beibverji unnandi fagurra kvenna
Efnaður undir áhrifum vímuefna
Flotholtið holt á floti: Ísland
Sá gamli guð
Sú gamla sólin
Hæannir að standa í hæönnum: að vera staddur í fjölmennu teiti og þurfa að heilsa mörgum
Kengúra vanfær kona
Kjúkl ung stúla e: chick
Spóla kvenmaður
Spóla í tækinu vit í kollinum
Vefarinn mikli frá kasmír sá gestur samkvæmis sem vefur hassvindlinga
að verpa að ganga örna sinna
Þráðlaust samband platónskt ástarsamband

Ja..þá er bara hvort maður leggi í kvikmyndina!

Er semsagt komin heim núna..og verð þar í heila þrjá daga! Síðan er ég flogin til Ítalíu og verð þar í 10 daga..með þessu liði. Fara 15 manns frá Íslandi, á aldrinum 18-25 ára...nú er bara að sjá hvernig þessi ferð verður! Það verður alla veganna tekið nóg af myndum: ætla að kaupa mér Canon Ixus 500 í fríhöfninni..

En yfir í allt annað..þjóðsöng!
Byrja á því að vitna í þennan náunga, Árna Georgsson:
Menn eru að tala um þjóðsönginn. Það er rétt að hann er ekki á allra færi að syngja. Ég syng hann og hef gaman af, hann spannar víst vítt tónsvið. Lagið finnst mér einstaklega fallegt og finn fyrir þjóðerniskennd niður í tær við hlustun. Í samanborið við Hver á sér fegra föðurland þá finnst mér lagið sjálft ekki standast þjóðsöngnum snúninginn þrátt fyrir að vera fallegt. Hver á sér fegra föðurland er blítt lag með mjúkum texta en mér finnast andstæður Íslands ekki birtast nægjanlega vel í laginu sjálfu líkt og þjóðsöngurinn fangar svo vel. Fyrir mér er texti þjóðsöngsins eitt líkingarmál, hann er t.a.m. hátíð miðað við þann franska, talandi um biltingarsöngva suðrænni landa. Ef einhver hefur fundið lausn á þessum vanda þá er það nafni minn Johnsen sem útsetti sönginn í popparaútgáfu. Það tókst vel í Eyjum og allir sungu með og urðu stolltir. Arnar er sammála mér um ágæti söngsins en bendir einnig á lagið Ísland er land þitt eftir Magnús Sigmundsson. Það er ágætislag en ekki af sama kaliberi að mínu mati og þjóðsöngurinn. Sem þjóð þá berum við stolt í brjósti yfir okkar eiginn ágæti sem er líkast til eitthvað, meðan þjóðríki er og verður, sama hvað framtíðin kann að bera í skauti sér þá finnst mér smá rembingur í þjóðsöngnum aðeins vera af hinu góða enda er hann aðeins notaður á tillidögum og í sjónvarpinu á sunnudögum. Ég get ekki hugsað mér landsleik án smá rembings. Í raun skiptir ekki máli hvenær lagið og textinn voru samin. Þjóðsöngurinn er hluti af menningarsögu okkar. Að mínu viti úreldast þjóðsöngvar ekki. Þjóðsöngurinn er hundgamall en það eru óperur og aðrar hljóðbókmenntir einnig. Þessi umræða hefur aldrei náð neinu flugi. Það er eins með þjóðsönginn og kvótakerfið, það næst aldrei full sátt um hann.

HVER Á SÉR FEGRA FÖÐURLAND
Hver á sér fegra föðurland,

með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?
Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð.
Geym, drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð.

Hver á sér meðal þjóða þjóð,
er þekkir hvorki sverð né blóð
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?
Við heita brunna, hreinan blæ
og hátign jökla, bláan sæ,
hún unir grandvör, farsæl, fróð
og frjáls - við ysta haf.

Ó, Ísland, fagra ættarbyggð,
um eilífið sé þín gæfa tryggð,
öll grimmd frá þinni ströndu styggð
og stöðugt allt þitt ráð.
Hver dagur líti dáð á ný,
hver draumur rætist verkum í
svo verði Íslands ástkær byggð
ei öðrum þjóðum háð.
Svo aldrei framar Íslands byggð
sé öðrum þjóðum háð.

Hér hafiði það! Mér finnst þetta vera fallegt lag..og myndi vilja fá það sem þjóðsöng, en ég er sammála Árna að þetta er ekki nógu kraftmikið...þannig er ekki hægt að peppa lagið aðeins upp?!
En ein ástæða sem ég hef heyrt..af hverju þetta er ekki þjóðsöngur vor..er að það var kona sem samdi textann við lag Emils Thorodsens!? Hva..ég held ég haldi mig við kraftleysið, trúi ekki að svona mórall líðist!
Ég er alla veganna ekki sátt með þjóðsöngva textann.. og einhæfur, þungur og fjallar mest um guð en ekki ísland og þjóð..

Hvað segið þið?

Engin ummæli: