Hvaða Íslendingi er heitt þessa dagana? Hver er ekki með rautt nef og frostbitnar kinnar??
Það er sko frostharkan sex núna og allir sem vettlingi geta valdið...skulu klæða sig í þá!
Morguninn byrjaði vel þar sem hjálpareðlið mitt sagði til sín. Ákvað að gera kaggann til fyrir farboða mína og tókst eftir nokkrar tilraunir að opna vel frosna hurðina. Meira að segja gírarnir voru eitthvað stífir! Eftir að ég hafði skafið af hálfri framrúðunni komu bílstjórinn og svefnpurrkan til að hjálpa. Veskin voru drifin upp og debetkortin fengu nýtt notagildi sem aumar sköfur. Svo var haldið af stað í skólann kvenlega!
En já, við mikinn fögnuð hef ég ákveðið að hafa sögustund, til að krydda upp þetta tilbreytingalausa dagbókarsuð í mér!
Fyrsta sagan er innblásin (kuldablásin) úr raunveruleikanum sem lætur margann Íslendinginn skjálfa á beinunum þessa dagana: frostið!!
Miskunnarlaust frostið liggur eins og mara yfir landi Ísa og Elda. Hægt og hljótt smýgur það inn um hvert gat og hverja glufu!
Hart hefur verið barist í hverjum firði en eftir nokkurra daga baráttu hefur frostið borið sigur úr bítum. Ískaldir og stirðnaðir líkamar vatnsins fljóta um vígvöllinn. Sólin gerir vonlausa tilraun til að vekja vatnið til lífsins en gengur illa þar sem sólin er frekar veikluleg ennþá! Þetta er fólki áminnig um að frostið vinnur á með hverjum frostdeginum sem líður! Þá segir föðurlandsástin til sín og upp úr skúffum fljúga föðurlöndin og flíkur tileinkaðar íslensku sauðkindinni. Kuldaboli er í árásarhug og því ekki æskilegt að æsa hann upp með rauðum glansandi flíkum! Bjartsýnar konur halda að þær geti tælt sumarið fram, en það er frekar vonlaust í febrúar og byrjun mars....
Hugsið um komandi kynslóðir og klæðið ykkur í föðurland og þjóð!!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli