laugardagur, janúar 24, 2004

Góða helgi Helgi!
Enn og aftur er letileg helgi runnin upp! Yfir mér hangir samviskubit vegna lítils lesturs fyrir líffræðipróf. En sá lestur er ekki framarlega í forgangsröðuninni! Mikill árangur náðist áðan er ég kom mér úr náttfötunum og í einhver klæðaplögg! Hádegismorgunmaturinn samanstóð af kornflögum og lucky charms! Síðan staulaðist ég út í herbergi aftur og setti disk í spilarann og hlammaði mér í rúmið aftur! Ekkert smá kalt úti! Hugsaði til litlu fuglastubbanna sem skoppuðu um veröndina að leita að einhverju korni til að plokka í. En leitin hjá þeim bar ekki árangur frekar en fyrri daginn! Stóri pokinn af fuglakorninu hafði tæmst fyrir nokkru og margar búðarferðir höfðu ekki skilað inn neinu í staðinn. Að lokum ákvað mamma að taka einhvern poka úr hillum búðarinnar og taka með heim. Þegar ég tók á móti pokanum og stökk út til að dreifa korni um veröndina leit ég framan á pokann og stöðvaðist í miðju stökkinu. Þetta var korn fyrir páfagauka eða einhverja stærri fugla!! En það varð að hafa það. Fleygði þessu á hellurnar, en stubbarnir mínir vildu ekki sjá þetta! Eru með smá vit á milli fjaðranna... En ég gafst ekki upp og þrammaði með pokann inn í eldhús núna í morgunn og sturtaði korninu í mixarann! Bjó til fínt stubbakorn, klæddi mig í föðurlandið og valhoppaði út í snjófokið. Nú er bara að sjá hvort þeir láti gabba sig!!

En ég get ekki lengur platað mig með því að herbergið mitt sé æðislega hreint og fínt! Því ætla ég ekki að hafa þetta lengra kæru lesendur þar sem ég ætla að hefja á ný, margra ára baráttu við fatahrúguna ógurlegu og dr.dust-evil! Er búin að bretta upp ermar og er að safna í mig hugrekki á meðan ég set saman ryksuguna og hlusta á eitthvað klassa lag um ,,Kvennaskólapíur''! Eitt af mörgum ómissandi hjálpartækjum frá guðunum í baráttu hálfguða og annarra hetja gegn öxulveldi hins illa! (þessir sögutímar hjá Kristjáni eru farnir að segja til sín!).
Megi mátturinn vera með mér!!

Engin ummæli: