fimmtudagur, desember 25, 2008

Heilög ljósahátíð

Vil byrja á því að lofsyngja Emiliönu Torrini. Tónleikarnir voru yndislega andlega upplífgandi og hún sjálf er svo mikið krútt að mig langaði knúsa hana í döðlur og éta (hypothetically speaking)! Þarna í Háskólabíóinu, þar sem ljósin umvöfðu blíðlega tóna stórsöngkonunnar og undirspilara í laginu Beggar's prayer, byrjuðu jólin hjá mér.
~ : ~
Á föstudaginn síðasta fór ég í jólaboð á Fannafold milljón hjá útskrifaðri Kvennaskólapíu sem er ein af þeim mörgu góðu persónum sem ég hef kynnst í gegnum árin. Í jólaboðið bauð hún því fólki sem hún hefur kynnst í gegnum árin og standa henni nærri. Notaleg hátíðarstemning myndaðist í stofunni yfir spjalli og góðum veitingum í boði hússins. Þarna, sitjandi í jólahring í stofunni, birti til í huga mér að sjá slíkan vinakærleik og góðan anda.
~ : ~
Síðustu helgi stóð ég tvær dagvaktir á sjúkrabíl hér á höfuðborgarsvæðinu. Strákarnir á báðum stöðvunum tóku mér mjög vel. Ekki get ég sagt að útköllin hafi verið of mörg en ég hafði svosem nóg að gera við að svara skotum frá strákunum og svara aftur og aftur því að jú, ég hafi keypt dagatal af þeim og vinkonur mínar líka! En semsagt, ég held að ég hafi nú lært eitthvað af þessum útköllum sem ég fór í en væri alveg til í enn fleiri vaktir í starfsþjálfun!
~ : ~
Hátíð ljóssins hefur hingað til verið hreint ilmandi góð..öll fjölskyldan saman (svona að mestu), reykt læri af veturgömlu af Vestfjörðum klikkar ekki frekar en fyrri jól og ekki skemma fyrir hveitikökurnar hennar mömmu og möndlugrauturinn! Allir himinlifandi með gjafaflóðið..Bjarni litli er búin að glamra svo mikið á flunkunýja Fender gítarinn sinn að pabbi sleit streng á honum þegar hann var stilla hljóðfærið. Fríða situr enn slefandi yfir snyrtitöskunni sinni..við erum að tala um bjútíbox sem er á stærð við skjalatösku! Frikki fór sáttur á vakt í morgun með útflúraðan viskípela sem Fríða málaði á. Emma dillar sér við nýja Kanye West diskinn sinn og heldur um inneignarnótu í Púkann með sælusvip. Pabbi fór í nýju skyrtuna sína í morgun og mamma er hæstánægð með súkkulaðifjallið sem kom í ljós eftir gærkveldið! Ég er búin að kúra minn skerf undir nýja Álafossteppinu mínu og rétt skreið fram til að skrifa smá á vefritið! Margar góðar gjafir og hugsanir sem ég hef fengið og gefið þessi jól..vonandi hef ég náð að gleðja sem flesta!
Áramótakortin eiga hins vegar eftir að skila sér! Engin jólakort þetta árið, heldur áramótakort eða nýárskort!
~ : ~
Njótið hátíðanna af líkama og sál! Þýðir ekkert annað!! Þakka kærlega fyrir allt það liðna og vona að þið hafið notið þess eins og ég! Sjáumst á nýju ári..hef ekki hugsað mér að pára neitt hér inn fyrr en að þessu ári liðnu, nema eitthvað mjög svo merkilegt hafi skeð!
Inflúensa þessara síðustu daga ársins 2008: lagið Gamlársparty með Baggalút!
~ : ~

föstudagur, desember 12, 2008

Föstudagsrúning

Tók heljarinnar rúningarnámskeið í dag..létt upphitun í morgun á leið til vinnu en fararskjótinn var þeim meira loðið er leið á daginn. Þannig þegar ég þrammaði út af vinnustaðnum kl.17 á gúmmístövlonum og dúnaranum þá blasti við mér hvítt hrúgald. Eftir þó nokkrar ryskingar við dýrið tókst mér að opna bílstjórahurðina, svissa á kvikindu og botna miðstöðina. Því næst bretti ég niður ermar, lúffaði mig og tók fram sköfuna um leið og ég greip í eyrað á loðna ferlíkinu og hóf að skafa.
Hvítar flyksur gengu í allar áttir á meðan ég snyrti kóreska rolluna (semsagt ekki Corolla). Það murraði lágt í henni og greina mátti garnagaulið berast innan frá (Villi Vill á fóninum). Ég gaut augunum á handbragð annarra rúningarmanna og sá ekki betur en að öll fagmannleg vinnubrögð væru farinn fjandans til í jólastressinu. Tætingslega rúnar rollurnar höktu um stræti borgarinnar með þykka ull á hryggnum. Þessi óvönduðu vinnubrögð eiga eftir að koma þeim í koll, tautaði ég, og í sama mund og ég hristi höfuðið keyrði dauðadæmdur maður rolluna sína utan í eina bláa og snoðaði hliðina. Þarna hefði hann betur tekið sér tíma í að skafa allann skrokkinn á sinni.
Það er dýrt spaug að snoða annarra manna rollur þannig að undan blæði!

~ : ~

EMT-B, sjúkraflutningsprófin yfirstaðinn. Fékk að vita að ég hefði staðist skömmu eftir próftökuna, fékk handaskak upp á það. En ég bíð ennþá eftir staðfestum einkunnum frá Sjúkraflutningaskólanum og umsögn. Helgina 20.-21.des er síðan starfsþjálfun á tveimur stöðvum höfuðborgarsvæðisins.

Um þessa helgi: reyna að ösla jólaösina í Kringlunni á ókristilegum tíma með systrum, slappa af og fyllast andlegri vellíðan á tónleikum Emilíönu Torrini, skreyta piparkökur, pakka jólagjöfum og sinna öðrum hátíðarverkum. Ef það heldur áfram að kyngja snjó þá verður snjóbrettið dregið fram og hugað að brettaferð á næstunni.
~ : ~
Keyrið varlega þegar svona færð er og í guðanna bænum..ekkert hálfkák með sköfuna!!
~ : ~

sunnudagur, nóvember 30, 2008

Be careful what you wish for..

Hún móðir mín góð átti afmæli í gær, tugirnir orðnir fimm hjá henni. Fékk meira að segja almennilega klausu í laugardagsmogganum af því tilefni! Við fjölskyldan, samtals sjö manns, fórum út að borða á Nítjándu, jólabrunch. Rosa fínt og ekki frásögur færandi nema það að það var komið færandi hendi í lok veisluborðhalds, þjónn með svaka tertu. Ég var búin að biðja um, fyrir fram, hvort þeir gætu ekki laumað einni spes sneið að mömmu en nei..heila bombu komu þeir með, í lok máltíðar þegar allir voru á blístrinu! Sæll..hún var svo fallega skreytt með ávöxtum og herlegheitum að við píndum í okkur smá sneið en síðan fengum við að taka restina með heim. Það er enn afgangur inn í ísskáp!
En já..mamma fékk ósk uppfyllta á afmælisdaginn sinn, en hún er alveg miður sín yfir því hvernig hún rættist. Þannig er það að mamma er björgunarsveitarmaður af líf og sál og hún óskaði sér þess að hún fengi útkall á afmælisdaginn. Og viti menn, um kveldið þegar fjölskyldan var rétt búin að hlamma sér fyrir framan skjáinn og Mamma mia mynddiskur á leiðinni í tækið kemur útkall. Leit að týndum einstaklingi. Nú, sólarhring síðar, er einstaklingurinn því miður ekki enn fundinn, sem er hræðilegt, og ekki það útkall sem mamma óskaði eftir. Afmælisbarnið er núna á leiðinni heim af vettvangi, til að hvílast í ca. 7 tíma, áður en hún fer aftur í leit á morgun. Allur mannskapur er dauðþreyttur og persónulega er ég úrvinda. Kalt inn að beini eftir vægast sagt nístandi kalda næturleit og síðan ekki jafn kalda, en kalda engu að síður, dagleit. Var búin að finna eitt ansi gott lýsingarorð yfir leitarskilyrði þarna á svæðinu en búin að steingleyma því..en eitt er víst að hendurnar mínar koma til með að líða fyrir frostið eitthvað út vikuna. Í þokkabót náði ég að týna einum vettlingi, sem var mér mjög kær og ekki ódýr. En já..leit heldur áfram á morgun, ég gerði mitt besta um helgina en ætla í vinnu á morgun og síðan sinna öðru sem átti að sinna um helgina. Ég þarf m.a. að læra fyrir sjúkraflutningapróf sem eru næstu helgi. Ætlaði að vera svo dugleg að sinna hinu og þessu, en síðan var ég bara dugleg að gera allt annað um helgina.

En nú er komin tími á að klæða sig úr þessum fatalögum sem ég hef verið í síðasta sólarhringinn, gefa tönnum kærkomna burstun (ekki beint forgangsatriði á vettvangi) og hringa mig undir mína eigin sæng og reyna að fá upp einhvern svefnhöfga og yl...
Guð gefi að einstaklingurinn finnist á morgunn.

fimmtudagur, nóvember 27, 2008

Svartur húmor blómstrar þessa dagana..
..góssentíð hjá Spaugstofu, Baggalút og fleirum:
...
...
...

fimmtudagur, nóvember 20, 2008

Árið 2012
Gömlu dagana gefðu mér,
þá gat ég verið einn með þér,
nú tæknin geggjuð orðin er
gömlu dagana gefðu mér.
...
Mig dreymdi að væri komið árið 2012
þeir tunglið höfðu malbikað og steypt í hólf og gólf.
Já veröldin var skrýtin það var allt orðið breytt
því vélar unnu störfin og enginn gerði neitt.
...
Og ekki hafði neitt að gera útvarpsstjóri vor,
því yfirmaður hans var lítill vasa transistor.
Og þingmennirnir okkar voru ei með fulle femm,
því forsætisráðherrann var gamall IBM.
~ : ~
Gömlu dagana.....já það er margt að rætast úr þessu gamla lagi, nema kannski framkvæmdir á tunglinu! Svartsýnar spár um djúpsteikta "le crèpes" Íslendinga en hver veit nema þetta verði ekkert mál, bara eins og hvert annað skammdegisþunglyndi. Síðan árið 2012 verðum við búin að slá nýtt heimsmet í jákvæðni, bjartsýni og framkvæmdagleði á ný..og jafnvel búin að malbika á tunglinu og byggja orlofshús fyrir nýju bankastjórana og ráðherra!
...
Sjibbí! Nú er hægt að "gegna" mig (ekki gúgla)! Lokaverkefnið mitt (B.Sc.) er komið inn á gegnir.is..veit ekki alveg hvað mér finnst um það að Jón útí bæ geti skoðað verkið, en ég vona að þetta sé bara ágætis rit! :þ
...
Framundan hjá mér: verkleg helgi í EMT-B náminu, stutt í fimm tuga afmæli móður minnar, prófahelgi í EMT-B náminu og starfsþjálfun síðustu helgina fyrir jól..og svo jól!
~ : ~

miðvikudagur, nóvember 19, 2008

Bakk tú ðe past:

Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.
Hávamál
Mæli með því að fólk lesi Hávamál ef það vill bregðast við "ástandinu" á hinn gamla og góða máta án framsóknar.
~ : ~
Ef einhverjir vilja fá útrás...án þess að leggjast í víking...þá mæli ég með eftirfarandi lesningu: Bréf ritað á reiðistigi í sorgarferli.
~ : ~
En nauðsynleg lesning er hér; "Íslendingar verða að endurheimta virðinguna." Brjóstkassi minn þandist út þegar ég renndi yfir þessa frétt og ég fylltist stolti og fortíðarljóma er ég rifjaði upp forsetatíð frú Vigdísar. Ðós vör ðe deis..hvernig væri að ryðja burt öllum óþefnum sem ræður ríkjum hér á landi og hefja okkur upp til vegs og virðingar á ný með Vigdísi á ráðastólum..á ný?
~ : ~

föstudagur, nóvember 14, 2008

My man:

Gerðu það íslenska ríkisstjórn, hlustaðu á það sem þessi spámaður hefur að segja og förum að hans ráðum sem stolt þjóð!

sunnudagur, nóvember 09, 2008

Einfeldni:

Mennirnir eiga tvo vængi, sem hefja þá til flugs yfir jarðneska hluti: Þessir vængir eru sakleysið og einfeldnin.
(De imitatione Christi eða Eftirlíking Krists).

Þessar málsgreinar sem hafa birst hér efst í hverju riti eru teknar úr lítilli bók sem var þýdd árið 1925, en var rituð mun fyrr af C.Wagner, og ber heitið Manndáð. Ekki hef ég gerst svo fræg að lesa þessa litlu fræðslubók um lífið en í upphafi hvers kafla er að finna þessar málsgreinar, teknar héðan og þaðan. Þær heilla mig, mjög svo. Sérstaklega sú fyrsta, þar sem vísað er til fleygra orða Victor Hugo, þess merka manns.

Sakleysið og einfeldnin. Um helgina tók ég til í rýminu mínu í foreldrahúsum og fleygði meðal annars DVD mynd sem hafði legið grafin einhvers staðar, falin. Þessa mynd keypti ég alveg óvart, ruglaði henni saman við einhverja aðra mynd sem ég hafði heyrt vel látið af. Ég hef sjaldan fyllst jafn miklum óhug af kvikmynda áhorfi eins og þegar ég setti þessa á fóninn. 8 mm heitir umrædd mynd og ég hef aldrei lokið við að horfa á þennan viðbjóð. Við það að henda henni í ruslið létti mér að einhverju leyti en helst hefði ég vilja brenna hana.

Ég vil halda í sakleysið eins og ég get, þess vegna er ég ekki æstur aðdáandi hryllingsmynda eða annarra myndgerða sem kalla á adrenalín veinandi viðbrögð. Ég geri mér fulla grein fyrir því að lífið er ekki tyggjóbleikur bómullarhnoðri en það er óþarfi að sletta fram því harðasta og ógeðfelldasta sem fyrir finnst uppá daglegt líf. Ég vil geta flogið, sama þótt lendingin verði hörð...þá get ég a.m.k. sagt að ég hafi flogið, sem er meira en sumir geta sagt um sína ævi.

Inflúensa mín þessa dagana er ekki sú líkamlega inflúensa sem herjar á þjóðina heldur tónlist Ray LaMontagne. Eftir að doksi komst að þeirri niðurstöðu að ég væri með heiftarlega vöðvaþreytu og vott af millirifjagigt mælti hann með eftirfarandi (auk þess að skrifa uppá gigtarlyf..seðillinn er enn óhreyfður): ekkert stress, meðalhreyfing, halda hita á efri hluta líkama og nuddi.
Gulldrengurinn Ray veifar burtu öllu stressi sem umkringir mig, meðalhreyfing mín er badminton, göngutúrar, klifur og nú ætla ég að prófa jóga..anti-stress hreyfing og auk þess sjálfstyrkjandi.

Nú er ég búin að vera leyniljóska í næstum mánuð og ég veit ekki ennþá hvernig ég kann við mig. Er ekki gjörn á að lita hárið en ákvað á afmælisdaginn að myrkja hárið: brúnt, með vott af rauðum blæ. Held að minn saklausi ljósi háralitur komi alltaf til með að hafa vinninginn!

Jæja, framundan er ný vinnuvika, eða skólavika hjá öðrum! Njótið..
~ : ~

þriðjudagur, október 28, 2008

Stjórnvöldin kalla og verð að gegna þeim..:

Það þarf ekki að aumka mig, yðar hátign. Ég dey, meðan ég er að gera skyldu mína.
En þér eruð aumkunarverður, sem berið vopn á móti þjóðhöfðingja yðar, föðurlandi yðar og eiðum.
(Dánarsvar Bayard's til ríkisstallarans frá Bourbon).

Yfirleitt þegar hinn almenni þjóðarþegn smjattar á orðinu björgunarsveit þá er hann alveg dolfallinn yfir þessu sjálfboðaliðastarfi, fara launalaust út í vonskuveður eða aðra óvissu og hætta lífi sínu eins og ég hef stundum heyrt fólk taka til orða. Allt í góðu með það en þetta er bara alls ekki rétt. Vissulega er þetta sjálfboðaliðastarf sem skiptir gríðarlega miklu máli í atburðarrás íslenska hversdagsins en eitt hef ég lært ásamt öðrum björgunarsveitarmeðlimum að við stofnum aldrei okkar eigin lífi í hættu. Svo einfalt er það. Fleiri aðilar sem sinna neyðaraðstoð vita þetta líka. Og nú, þegar mín fyrsta verklega helgi á sjúkraflutninganámskeiðinu er yfirstaðin verð ég að segja að ég er mun meðvitaðri um þessa heilögu reglu. Þú bjargar engum né aðstoðar þegar þitt eigið líf er í hættu eða þú slasast. Þú ert númer eitt, tvö og þrjú.

Fyrir mér er þetta námskeið algjör sjálfsskoðunarspegill. Ég er farin að lýsa inn í dimm skot og horfast í augu við það að ég er verð að bjarga sjálfri mér áður en ég bjarga öðrum. Yfirleitt hugsa ég frekar um aðra og rækta illa mitt sjálf, líkamlega og andlega. Á þessu verður ráðin bót, skref fyrir skref. Ef að ég hef ekki sjálfstraust hvernig get ég þá ætlast til þess að aðrir treysti mér fyrir sínu lífi, eða öðru léttvægara? Þannig að, þetta er sjálfsstyrkingarnámskeið auk þess að gera mig færari að veita neyðaraðstoð þegar hennar er þörf.

Já. Ég veit eiginlega ekki hvað ég get sagt meir..held ég fari að halla mér. Mjög svo krefjandi en frábær helgi og ég er hreint út sagt búin á því. Ætla undir feld og ná mér í endurnærandi svefn, undirbúa mig fyrir komandi vinnuviku. Fyrir þá sem vilja æfa brosvöðvana mæli ég enn og aftur með baggalutur.is og newiceland.net (baggalutur hinz Nýja Íslands)..klárlega inflúensa það sem eftir er árs, fyrir þá sem ætla ekki í flensusprautu eins og ég! Þeir hafa alla veganna áhrif á mitt líferni..fölskvalaust líferni, stefni ótrauð áfram í því!

~ : ~

laugardagur, október 18, 2008

Manndáð

Þeir, sem lifa, það eru þeir, sem glíma,
það eru þeir, sem í heila og hjarta
eru gagnteknir af sterkum ásetningi,
Þeir sem fyrir há örlög klifra upp á
hrjóstruga tinda,
Þeir, sem ganga hugsandi, hrifnir af
göfgu takmarki,
Hafandi sífelt fyrir augum, nótt
og nýtan dag,
Annaðhvort eitthvert heilagt starf
eða einhverja göfga ást.
Victor Hugo.

Hef sökkt mér í lestur á kennslubók í sjúkraflutninganáminu, gjörsamlega heilluð af starfsemi líkamans og ýmsum sjúkdómum sem okkur hrjá og hvernig má greina þá.
Hefur engum dottið í hug að sjúkdómsgreina Ísaland til að komast að því hvernig landinu heilsast? Tala við fósturlandsins Freyju fá að vita hvaða skoðun hún hefur á þeim lýtaaðgerðum sem hún er stanslaust sett í? Bætt örlitlu á hana, hagrætt þessum hluta líkama eða eitthvað fjarlægt...slagæðarnar stíflaðar (árnar) og skorið þvers og kruss í húðina til að við komumst leiðar okkar. Ég veit ekki með ykkur en eftir nákvæma skoðun er mín sjúkdómsgreining eftirfarandi: grænar bólur (þúfur) sem benda til óþols eða skringilegrar hormónastarfsemi, slæmur síbreytilegur krónískur hósti og óskiljanlegt tuldur (vindur), fjúkandi flasa og húðfrumur (sandfok og jarðvegseyðing), óreglulegur skjálfti (jarðskjálftar og hristingur vegna framkvæmdasprenginga), lágur blóðþrýstingur (virkjaðar ár og þurrkur), mikil aukning á grófum líkamshárum og fæðingablettum (skógrækt og sorp/híbýli) og ofsakenndar skapsveiflur yfir árið (breytt tíðarfar "v/loftslagsbreytinga"). Tekur út mikil tilfinningaflóð á 5-100 ára fresti með tilheyrandi tárum, hori og svo framvegis, sem virðist valda meira tjóni á yfirborði húðar en áður (regn/leysingaflóð).

~ : ~

Copyright: www.icelandportfolio.com 2008
~ : ~

Niðurstaða mín er því sú að líkamlegt og andlegt ástand Frónsins fagra sé bagalegt, ætti að vera mun betra...en er ekki orðið henni lífshættulegt. Hef séð mun verra ástand á öðrum fósturlöndum víða um heim.

Nú þegar lífstílsáunninn veikindi og streitusjúkdómar kreppa margann þjóðarþegninn hérlendis sem erlendis standa sjúkraflutningamenn í ströngu að sjúkdómsgreina þá veiku, án fordóma og á fagmannlegann hátt. Engin pólitísk áhrif.
En ætli land-, jarð-, umhverfis- og náttúrufræðingar og fleiri tengdar starfstéttir sem koma að stjórnun lands, umhverfis, náttúru og auðlinda kunni að greina heilsufarsástand Íslands jafn skilmerkilega, fordómalaust og án pólitískra áhrifa þegar þeir vinna landslagsgreiningu, mat á umhverfisáhrifum og marka stefnu um nýtingu auðlinda? Nei ég hélt ekki..scenophobic people (ref. Karl Benediktsson, 2007)!

miðvikudagur, október 08, 2008

BAGGALUTUR.IS og PALLI

Ég tjái mig ekki um Geir H. Haarde, kreppu, hömstrun, kaupbrjálæði, móðursýki og annað svitatitrandi hræðsluáróðurs neikvæðnis...stopp.

Þess í stað mæli ég eindregið með baggalutur.is þar er sko húmor í lagi og fast skotið oft á tíðum!



~ : ~

Og svo er það Byr, minn elskeling banki með sínar jákvæðu down-to-earth fjárhagslegu heilsu auglýsingar með Palla...ef þig langar í bíl, tölvu eða nýjan síma, safnaðu fyrir því!
Farðu í sparigallann og sparaðu!
~ : ~

sunnudagur, september 28, 2008

Vond-mynta-á hádegi

þannig snara ég í fljótheitum fram þýðingu á því atferli sem ég stunda tvisvar í viku, á hádegi: bad-mint-on eða badminton eins og flestir kannast eflaust við. Tvisvar í viku fer ég ásamt fleiri Mannvitsbrekkum (af hinu kyninu) í badminton í TBR húsinu. Þangað flykkjast fargolfararnir á haustin þegar veðrar illa til golfvitleysunnar og hreiðra um sig með spaða í hendi í stað kylfu. Ég kann mig illa innan um þessa innrásartegund en reyni að láta það ekki á mig fá og æfa tæknina mína og fótafimi. Minn Yoda heitir Garðar en hinir karlarnir eru líka duglegir að segja mér til hvernig ég á að bera mig að í stríðinu um fluguna, hvernig árásarstellingar henta best við hvaða aðstæður og hvenær maður notar banahöggið. Hef ekki ennþá náð tökum á banahögginu og fæturnir flækjast fyrir mér því ég hugsa svo mikið. Strákarnir hafa smá forskot, búnir að vera í þessum bransa í 1-40 ár og kunna að beygja sig í hnjám í "crouching tiger" stellingunni og höggva til flugunnar eins og "deadly viper - snake style" (fyrir þau ykkar sem hafið séð Kung Fu Panda..you know what I mean)! Ég er semsagt ennþá ung og óreynd panda í þessum efnum..en þetta fer allt að koma og fljótlega verð ég jafningi þeirra! Veit ekki hvort bumban mín er jafn öflugt vopn og hjá Po í Kung Fu Panda, á eftir að prófa!


Annars er ég að horfast í augu við hræðslupúka mína þessa dagana og næstu mánuði..lífið er hverfult og ég ætla að ná stjórn á hræðslunni skref fyrir skref: Vatnshræðsla og lofthræðsla: fór á skip og fylgdist með þyrluæfingu..næst er það að taka þátt í æfingunni og láta hífa sig upp! Er að fara á sjúkraflutninga-námskeið í 2 mánuði..ég sem hef þolað illa blóð og sprautur er farin að þola blóð og mögulega sprautur í framtíðinni! Er farin að hreyfa mig mátulega mikið og ætla að auka við mig æfingar og hreyfingu þegar líður á..svo ég geti horfst í augu við nálina á vigtinni!
~ : ~

fimmtudagur, júlí 31, 2008

..þó þig vanti vítamín..

Ég held að þetta sé persónulegt met hjá mér..næstum 3 mánuðir án þess að skrifa færslu!
~ : ~
Það sem hefur gerst síðan síðast var ritað: ég náði prófum og fékk sæmilega einkunn fyrir lokaritgerð..0.1 fyrir neðan hana Erlu bekkjarsystir sem fékk viðurkenninguna á útskriftardaginn. Við vorum reyndar þær einu sem útskrifuðumst úr bekknum en það er frjósöm afsökun fyrir því hjá restinni af bekknum! Ég fékk vinnu hjá Mannvit sem náttúrufræðingur, er mest megnis að vinna í ArcGIS með landupplýsingar..gera greiningar og útbúa kort. Ég ásamt öðrum í Björgunarsveitinni Brák, Borgarnesi, skipulögðum leitarhesta æfingu í maí..alveg frábært. Um sjómannadagshelgina stóð ég mína vakt við tækjasýningu Björgunarsveitarinnar Kjalar á Hátíð Hafsins, Reykjavíkurhöfn. Ég tók vakt á sjúkrabíl og var kölluð friðardúfan, því engin alvarleg slys eða önnur útköll komu á meðan ég var. Ég labbaði um Reykjadal og Grænadal hjá Hveragerði, skömmu áður en Suðurlandsskjálfti 2008 reið yfir, síðan fór ég í jarðskjálfta aðstoð ásamt félögum í Bjsv. Kili. Ég og aðrir úr sveitinni fórum síðan Fimmvörðuháls með nokkra orkubolta úr Unglingadeildinni Stormur. Fór á Landsmót Hestamanna með nokkrum hressum skvísum, greindist með B12 vítamín skort þegar heim kom..fór á Hornstrandir, en gekk ekki Hornstrandir eins og til stóð..gjörsamlega engin orka til staðar! Frábær ferð samt í alla staði..yndislegt ferðafólk sem dekraði við mig og gott veður..mest allann tímann! Fór á Strandir eftir Hornstrandir..hvíldi mig ennþá meira þar, með fjölskyldunni í orlofshúsi. Náði að borða mig sadda af aðalbláberjum og sjá ca. 50-100 hvali og höfrunga á 5 dögum. Ekki amalegt. Hitti Náttúru- og Umhverfi, bekkinn minn "gamla" frá Hvanneyri, í hnallþóruveislu í Borgarfirðinum. Þvílíkt magn af myndarlegum ungabörnum! Já þau hafa svo sannarlega sinnt kalli náttúrunnar, svona 90% af bekknum eru nýbakaðar ömmur, mæður, feður eða voru að bæta í barnahóp sinn!
Ótrúlega gaman að hitta þau öll..
~ : ~
Framundan: Hálendisgæsla með félögum í Bjsv. Kili Kjalarnesi..förum inn á Kjalveg um verzlunarmannahelgina og tökum við af Bjsv. Brák Borgarnesi sem hefur verið þar á vakt í viku. Ætla að reyna að gera eitthvað gagn..eitthvað annað en slefa og hrjóta. Þrítugsafmæli hjá Höllu vinkonu! Sprautumeðferð og járntöflur vegna blóðleysis og vítamínskorts í nokkrar vikur..krossa putta um að niðurstaðan verði góð og það þýði ekki eilífðar meðferð. Áframhaldandi vinna hjá Mannvit í vetur..það er að segja ef ég verð ekki látin fjúka.
Hugsanlega að fara að leigja í bænum.
~ : ~
Vonandi orðin fullfrísk fyrir haustið og get gert allt sem ég vil..lengi lifi bjartsýnin og b12!
~ : ~
Ég vil lýsa yfir ást minni á Vestfjörðum complett..Hornstrandir eru nottla einstakt svæði..trúið mér, ég er náttúrufræðingur á lyfjum..en það er svo miklu meira en það..þar býr og þaðan kemur einstakt fólk, ég rek ættir mínar þangað! En það er svo miklu meira en það..á meðan fréttir landans eru uppfullar af vonleysi, uppsögnum, gengissveiflum og öðrum hræðsluvekjandi heilaþvotti kemur fréttatilkynning frá Vestfjörðum: ekkert atvinnuleysi á Vestfjörðum! Svona eiga fréttir að vera á tímum sem þessum..rífa fólk upp úr vol-æðinu..bjartsýni á framtíðina og jákvæður fréttaflutningur er allra meina bót.
~ : ~
Lifið heil og njótið helgar verzlunarmanna veglega..en farið varlega!

fimmtudagur, maí 08, 2008

Græn er grund og fermast sprund..

Loksins er maður laus úr viðjum B.Sc. lokaverkefnis og get veitt sumrinu meiri athygli. Tók eftir því í gær hve grænt allt er orðið..hef nánast ekkert farið út fyrir hússins dyr í margar vikur. Ef ég fór eitthvað út þá var það annað hvort til að ná í smá súrefni (var þá samt með hugann við verkefnið) eða sinna útkalli hjá björgunarsveitinni (þá er maður nú ekki beint að skoða náttúruna í kringum sig).

Í dag kl.16.30 verður Gengið gegn slysum. Gengið verður frá Landspítalanum yfir í Fossvog..Björgunarsveitin Kjölur sendir sína fulltrúa, þar á meðal mig. Mæli með því að fólk láti sjá sig og veki athygli á þessu sorglega máli sem bílslys eru.

Fríða systir fermdist á sumardaginn fyrsta..komin í kristinna manna tölu eins og nánast flestir á hennar aldri. Ég set inn myndir frá þeirri samkomu síðar..þegar próf og verkefni eru alveg yfirstaðin!
10.maí, á laugardaginn, er síðan komið að frænku okkar, Bjarnveigu Ástu Guðjónsdóttur..eða Ásta dóttir hans Gutta frænda í Hænuvík eins og við þekkjum hana. Þessi hressa litla frænka, sem er ekki lengur lítil heldur ung dama sem á framtíðina fyrir sér, er semsagt að fara að fermast um helgina og óska ég henni alls hins besta. Því miður fer ég ekki í fermingarveisluna til að samgleðjast fjölskyldunni en hver veit nema maður kíki á Vestfirði síðar í þessum mánuði!
~ : ~
Hér má sjá fermingarfrænkurnar, Fríðu sys (vinstra megin) og Ástu frænku (með me-me) í fjárhúsinu í Hænuvík, maí 2006.

mánudagur, maí 05, 2008

Mávahlátur

Allt frá því fjölskyldan tók saman sitt hafurtask og flutti sig um set (úr gettó-anda Breiðholts í kántrísælu Kjalarness) hefur mér ávallt fundist ég búa úti í móa..þegar fór að vora.
FM Fugl hóf göngu sína þegar daga tók að lengja og vorgolan gaf mönnum byr undir báða vængi..eða undir aftanívagnana á Vesturlandsvegi..mófuglar tístandi og syngjandi allan sólarhringinn.
Nú finnst mér reyndar kveða annað hljóð við, FM mávakvein. Ekki veit ég hver heimilaði þessa yfirtöku á tónlistarflóru vors og sumars. Ég verð hins vegar að segja fyrir mig að ég væri alveg til í að boðið væri upp á að maður gæti skrúfað niður í Mávahlátrinum eða skipt yfir á dillandi tóna gömlu góðu FM mófuglar.

Er sjórinn að fikra sig nær eða eru þetta gettóstælar hjá fugla tegundunum?
Hver er að færa sig upp á skaftið?
..svo lengi sem blóð, fita og sápa rennur í Hofsvíkina í stríðum straumum eru
El Mávíachi komnir til að vera.

miðvikudagur, apríl 23, 2008

Virðing farin fjandans til..

Ég á ekki eitt orð til að lýsa tilfinningum mínum, eftir að hafa fylgst með atburðum dagsins, heldur flóð af fyrirlitningu og hneykslun gagnvart hluta þjóðarinnar! Hvernig vogar fólk sér að haga sér eins og það gerir í garð framkvæmdarvaldsins?!? Það er alveg sama hvernig lögreglan vinnur sitt starf þá dynur á henni aðfinnslan í bundnu máli og það nýjasta er að taka handboltann á þetta og fleygja grjóti í andlit lögreglumanns til að jafna málin!! Er ekki allt í lagi?? Þusar eitthvað um valdníðslu og harkalegar aðgerðir?!?! Speglið ykkar froðufellandi sjálf í vel fægðum felgum ykkar og lítið í eigin barm!!

Ég gæti haldið áfram endalaust á miður fallegum nótum en ég held ég setji mig ekki á sama stall og aðrir bloggarar og rakka fólk niður í svaðið..það er ekki þess virði og ég þarf að nota orku mína í annað. Ég er miður mín vegna þessarar framkomu Íslendinga í garð yfirvaldsins sem reynir að byggja upp land okkar með lögum og get ekki skrifað meira í bili vegna syndaflóðs á hvörmum. Ég skammast mín fyrir að vera almúgakona og vil ekki taka þátt í þessu og þoli ekki þegar einhverjir tala fyrir mína hönd og stuðla að múg-æsingu sem ég myndi aldrei samþykkja (ónefndur flutningabílstjóri í mbl viðtali: "..hér er almúgi. Hér eru konur og annað.")

Vinkona mín brautskráðist frá Lögregluskólanum um daginn með hæstu meðaleinkunn. Ég fylltist gífurlegu stolti fyrir hennar hönd og mun vera það svo lengi sem hún starfar eftir sinni sannfæringu. Ég vona svo innilega að þessi botnlausa óvirðing eigi sér takmörk og hverfi með tíð og tíma.

Það á enginn starfsstétt það skilið að fá stanslausar aðfinnslur og valdníðslu í sinn garð!
~ : ~

fimmtudagur, mars 20, 2008

Stefnumörkun þjóðarbúsins:

Margar bölspár eru til um framtíð jarðar, matarkistuna sem er að klárast, olían gufuð upp og gróðurhúsalofttegundateppið er að kæfa okkur og gera pólasvæðin að engu. Það er engin leið að segja hvernig framtíðin verður en það er margt til í þessum kenningum og er það siðfræðileg skylda okkar að huga að því hvernig við göngum um landið okkar. Við höfum fengið landið að láni hjá afkomendum okkar sagði vitur maður á sínum tíma, við berum ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum og hingað til hefur það gerst kynslóð eftir kynslóð að jörðinni er skilað í verra ástandi til þeirrar næstu. Hvað þarf að gerast til að allir skili uppsprettu lífsins áfram til næsta í betra ástandi en þeir tóku við henni?
~ : ~
Hér á landi á sér stað hrópandi hröð slátrun á jörðum. Frístundabyggðarbrjálæði hefur gripið hvern og einn einasta Íslending. Stjórnvöld hafa lítið sem ekkert gert til að búskaparmenningin viðhaldist, að stunda hefðbundin búskap og hvað þá lífrænan eða lífefldan er ekki ákjósanlegt viðurværi. Jarðir eru keyptar fyrir morðfé af hinum og þessum fjárfestum sem sjá engin önnur auðæfi falin á svæðinu nema framkvæmdarmöguleika. Jörðin er bútuð niður í ákjósanlega margar einingar, gróður og búskaparleifar rifnar upp með rótum til að ryðja veginn fyrir framtíðinni og þeim lúxus lífskjörum sem þykja svo sjálfsögð, að eiga íburðamikinn sumarbústað.
~ : ~
Hvenær þóknast þeim sem landinu stjórna að taka á þessum málum? Kannski þegar búið er að skipta upp öllum bújörðum og ekki er hægt að leita til bænda um mat í þjóðarbúið? Stundum langar mig að taka mér vel valdann legg af feitum sauð og banka í háttvirta hausa og athuga hvort það kvikni ekki týra í koldimmum stjórnmálahausum. Ég bið og vona að börnum þjóðarinnar verði gert hátt undir höfði sem vilja viðhalda heilum jörðum og nýta það sem landið gefur af sér á hógværan hátt (útfærist sem sjálfbærni).
Ég á mér draum um að eignast sjálf jörð þar sem ég hefði mínar kindur og kýr, hesta og hænur, akur og móa. Ég vil sjá um jörðina og láta hana sjá um mig og mína. En hvernig á ég að keppa við fjárfesta með gull í hendi og gyllinæð? Hver hefur fjárhagslega heilsu í svona brjálæði?
~ : ~
Nú nefni ég dæmi sem mér er hjartans mál: jörð sem er talin 30 hektarar og liggur nærri Grundarhverfi á Kjalarnesi, mínum heimaslóðum. Þarna lauk búskap fyrir rúmum 60 árum en tún hafa verið nýtt áfram og einhver búseta í litlum kofa á jörðinni yfir sumartímann. Þetta litla en fallega hús er í algjörri niðurníslu og varla hús lengur, bara útmáð beinagrind með vott af fornri fegurð. Vegslóðar eru horfnir eða óökufærir og svona mætti lengi telja. Þessi jörð er metin á einar 300 milljónir, eða 10 milljónir/ha. Með þessari auglýsingu hefði fasteignasalan allt eins getað skrifað: fyrir frístundabyggðarbrjálæðinga fjárfesta einungis. Ég kem til að gráta þegar jörðin hefur verið seld og slitin í sundur.
~ : ~
Tíminn líður allt of hratt

mánudagur, febrúar 18, 2008

Practical memories..
Einhvers staðar á leiðinni hef ég týnt öllum þeim hnittnu orðum eða fagurfræðilega heimspekilegum vangaveltum sem ég hafði ætlað mér að setja hér inn.
Alltaf á ferð og flugi, Kjalarnes-Hvanneyri-Kjalarnes-Reykjavík-Kjalarnes. Á þessu flugi mínu er nóg framboð af stressi og óvissu en aldrei tissjú til að pára niður hugrenningar eða -dettu. Þannig þær hafa oftast endað á munnþurrku sem ég finn í bílnum en fá síðan að standa undir nafni eða gegna hlutverki snýtuklúts og því fara hugarsmíðar mínar oft í ruslið. Hef því oft sagt við sjálfa mig að ég komi til með að muna í þetta skiptið..þetta sé nú svo fjári góð fluga sem flaug mér í haus! En alltaf hverfur flugnasuðið að lokum og ég stend eftir með tómt vindgnauð í kollinum.
En núna ætla ég að reyna að ráða bót á máli því ég hef látið pranga inn á mig mjög feminíska dagatalsbók sem ber nafnið og fullyrðinguna "Konur tala allan ársins hring". Förum ekkert nánar út í það..falleg kápa..og ætla ég að færa inn í þessa skruddu það sem mér liggur á hjarta (skruddan er skreytt með fljúgandi hjartalaga fiðrildum..ekki krúttulegum hjörtum heldur real hjörtum).
~ : ~
Það sem mig langar að tjá mig um núna og næstu daga, vikur jafnvel mánuði eru hlutir...hlutir sem hafa fylgt mér mest alla ævi og eru orðnir að "practical memories". Hlutir sem gegna enn sama hlutverki, traustir og klassískir hlutir eða hlutir sem hafa fengið annað hlutverk.
~ : ~
Fyrsti hluturinn sem ég greip á heimilinu er hárþurrkan. Ég held að hver einasta nútímakona myndi falla í öngvit ef hún vissi að heima hjá minni fjölskyldu hefur bara verið ein hárþurrka. Og hún er enn í notkun. BaByliss 1200 hágæðagripur sem gerir það sem hann á að gera og ekkert auka. Einföld hönnun, einn takki..tvær stillingar á styrk..1 eða 2. Flóknara er það ekki. Það er ekki mikið um dútlerí hér á bæ og ekki verið að bruðla í nýja hárþurrku ef það er til ein sem gerir sitt. Þessu hefur miðsystirin á heimilinu bölvað oft og mörgum sinnum. Mér er farið að þykja óendanlega vænt um þessa þurrku sem er einn af traustu punktunum í lífi mínu. Hún er orðin svo gömul að hún er orðin klassík..svarthvítt gæðatæki. Trygga þurrkan mín með ég-er-með-fast-hár-inn-í-mér hitalykt sem neistar stundum af gleði!
~ : ~
Hér eru myndir af gæðagripnum..spurning um að senda BaByliss póst og spyrja um framleiðsluár? Er einhvers staðar á bilinu 1980-1990..
~ : ~
~ : ~
~ : ~
~ : ~
~ : ~

fimmtudagur, janúar 31, 2008

Aðgerð eftirréttur ofsaveður..operation deserter storm:

Bara svona ef þú ert ekki búin að sjá þessar klippur..!
Kannski soldið eftirá..en algjört must að sjá!!

1.hluti..
2.hluti!

sunnudagur, janúar 27, 2008

Nýtt ár ~ burðir ats og pælingar:

jæja já..mikið að gera í sjálfboðaliðastarfi í desember og janúar. Fullt af óveðursútköllum og umferðaslysum, æfingar - námskeið, keyra jólasveina um Grundarhverfi með pakka handa þægum börnum og svo auðvitað flugeldasala björgunarsveitarinnar. Einnig tók ég vakt á sjúkrabíl rétt fyrir jólin. Ég held að ég geti alveg fullyrt að það hafi ekki verið heill dagur án aðgerða í þágu björgunarsveitarinnar eða almennings yfir jólin. Enda gerast slys hvenær sem er sólarhrings sama hvaða dagur er því miður. Síðast í gærnótt var Björgunarsveitin Kjölur með gæslustörf í tveimur þorrablótum og sinnti útkalli nálægt Hvalfjarðargöngum. Á þriðjudaginn er 80 ára afmæli Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og stöndum við, ásamt annarri sveit, heiðursvörð við fagnaðinn. Þá vona ég að maður geti andað aðeins eftir það..

Annað sem hefur gerst á þessum eina og hálfa mánuði: fór í alsherjar snjóbrettaferð norður eina helgi með góðu fólki og var ferðin hreint út sagt æðisleg í alla staði!
Náði öllum áföngum nema einum í jólaprófum..bíð núna eftir einkunn úr endurtektarprófi! Mitt fyrsta fall og það með stæl skal ég segja ykkur!
Er flutt aftur á Kjalarnesið í bílskúrinn hjá familíunni. Hef það bara ágætt þar í faðmi sumardekkjalagers og verkfæra! Nú fer senn að líða að skilum á BS lokaverkefni (í maí) og þar sem ég hef góða aðstöðu hjá Vatnamælingum í bænum til að vinna verkefnið og ég er lítið í skólanum þannig séð þá ákvað ég að flytja aftur úr Hvanneyrarsveitinni og í Reykjavíkursveitina!
Fór niðrí bæ á nýársdjamm í fyrsta skipti og skemmti mér heldur betur vel! Svo virðist sem fólk hafi mismunandi reynslu af áramótagleði og fékk ég margar leiðinlegar sögur af sveittum dansiböllum en ég ákvað að láta það ekki trufla stemmarann né vont veður! Þannig ég fór ásamt frábærum píum, sem eru líka í skóla á Hvanneyri, niðrí bæ með kanínueyru á höfði, slaufu um háls og dindil á afturenda..smá þema, hehe.
Er að hefja mín fyrstu skref ársins í átt að heilbrigðari lífstíl..já ég tók íslenska pakkann á þetta og setti mér áramótamarkmið! En til að enda ekki eins og hver annar Íslendingur sem sprengir sig í ferskleika áramótaheita þá tek ég þessu rólega og vona að kraftur verði komin á fullt í febrúar-mars!
Á miðvikudaginn er ég að fara í atvinnuviðtal til Bolungarvíkur...ég vil ekki tjá mig meira um það fyrr en ég veit meira um málið! :)

Annars hvet ég alla til að njóta vetrarins með öllu því sem hann býður uppá en jafnframt vera vel á verði þegar verið er að keyra og muna eftir náunganum! Ef þið sjáið bíl utanvegar ekki keyra fram hjá nema vera viss um að enginn sé í bílnum eða ef þið sjáið gulan vettvangsborða lögreglunnar utan á bílnum. Hafið ávallt hlý föt, vasaljós, skóflu og reipi í bílnum ásamt öðrum nauðsynjum..líka þó þið séuð að ferðast innan höfuðborgarsvæðisins! Nú er alvöru vetrartími og allra veðra von!! Það tók mig tvo tíma að ferðast frá Hvanneyri til Kjalarness á föstudaginn ásamt vinkonu minni, vegna ofsaveðurs..vegna þess að við aðstoðuðum aðra við að draga upp bíla, leiðbeindum smeykum bílstjórum og stoppuðum þegar við sáum afvelta bíl utanvegar og komum farþegum í skjól þar til lögregla kom á svæðið. Þið vitið aldrei hvenær þið þurfið á aðstoð sjálf að halda..gjörið við aðra eins og þér viljið að aðrir gjöri yður!