þriðjudagur, október 28, 2008

Stjórnvöldin kalla og verð að gegna þeim..:

Það þarf ekki að aumka mig, yðar hátign. Ég dey, meðan ég er að gera skyldu mína.
En þér eruð aumkunarverður, sem berið vopn á móti þjóðhöfðingja yðar, föðurlandi yðar og eiðum.
(Dánarsvar Bayard's til ríkisstallarans frá Bourbon).

Yfirleitt þegar hinn almenni þjóðarþegn smjattar á orðinu björgunarsveit þá er hann alveg dolfallinn yfir þessu sjálfboðaliðastarfi, fara launalaust út í vonskuveður eða aðra óvissu og hætta lífi sínu eins og ég hef stundum heyrt fólk taka til orða. Allt í góðu með það en þetta er bara alls ekki rétt. Vissulega er þetta sjálfboðaliðastarf sem skiptir gríðarlega miklu máli í atburðarrás íslenska hversdagsins en eitt hef ég lært ásamt öðrum björgunarsveitarmeðlimum að við stofnum aldrei okkar eigin lífi í hættu. Svo einfalt er það. Fleiri aðilar sem sinna neyðaraðstoð vita þetta líka. Og nú, þegar mín fyrsta verklega helgi á sjúkraflutninganámskeiðinu er yfirstaðin verð ég að segja að ég er mun meðvitaðri um þessa heilögu reglu. Þú bjargar engum né aðstoðar þegar þitt eigið líf er í hættu eða þú slasast. Þú ert númer eitt, tvö og þrjú.

Fyrir mér er þetta námskeið algjör sjálfsskoðunarspegill. Ég er farin að lýsa inn í dimm skot og horfast í augu við það að ég er verð að bjarga sjálfri mér áður en ég bjarga öðrum. Yfirleitt hugsa ég frekar um aðra og rækta illa mitt sjálf, líkamlega og andlega. Á þessu verður ráðin bót, skref fyrir skref. Ef að ég hef ekki sjálfstraust hvernig get ég þá ætlast til þess að aðrir treysti mér fyrir sínu lífi, eða öðru léttvægara? Þannig að, þetta er sjálfsstyrkingarnámskeið auk þess að gera mig færari að veita neyðaraðstoð þegar hennar er þörf.

Já. Ég veit eiginlega ekki hvað ég get sagt meir..held ég fari að halla mér. Mjög svo krefjandi en frábær helgi og ég er hreint út sagt búin á því. Ætla undir feld og ná mér í endurnærandi svefn, undirbúa mig fyrir komandi vinnuviku. Fyrir þá sem vilja æfa brosvöðvana mæli ég enn og aftur með baggalutur.is og newiceland.net (baggalutur hinz Nýja Íslands)..klárlega inflúensa það sem eftir er árs, fyrir þá sem ætla ekki í flensusprautu eins og ég! Þeir hafa alla veganna áhrif á mitt líferni..fölskvalaust líferni, stefni ótrauð áfram í því!

~ : ~

Engin ummæli: