sunnudagur, nóvember 09, 2008

Einfeldni:

Mennirnir eiga tvo vængi, sem hefja þá til flugs yfir jarðneska hluti: Þessir vængir eru sakleysið og einfeldnin.
(De imitatione Christi eða Eftirlíking Krists).

Þessar málsgreinar sem hafa birst hér efst í hverju riti eru teknar úr lítilli bók sem var þýdd árið 1925, en var rituð mun fyrr af C.Wagner, og ber heitið Manndáð. Ekki hef ég gerst svo fræg að lesa þessa litlu fræðslubók um lífið en í upphafi hvers kafla er að finna þessar málsgreinar, teknar héðan og þaðan. Þær heilla mig, mjög svo. Sérstaklega sú fyrsta, þar sem vísað er til fleygra orða Victor Hugo, þess merka manns.

Sakleysið og einfeldnin. Um helgina tók ég til í rýminu mínu í foreldrahúsum og fleygði meðal annars DVD mynd sem hafði legið grafin einhvers staðar, falin. Þessa mynd keypti ég alveg óvart, ruglaði henni saman við einhverja aðra mynd sem ég hafði heyrt vel látið af. Ég hef sjaldan fyllst jafn miklum óhug af kvikmynda áhorfi eins og þegar ég setti þessa á fóninn. 8 mm heitir umrædd mynd og ég hef aldrei lokið við að horfa á þennan viðbjóð. Við það að henda henni í ruslið létti mér að einhverju leyti en helst hefði ég vilja brenna hana.

Ég vil halda í sakleysið eins og ég get, þess vegna er ég ekki æstur aðdáandi hryllingsmynda eða annarra myndgerða sem kalla á adrenalín veinandi viðbrögð. Ég geri mér fulla grein fyrir því að lífið er ekki tyggjóbleikur bómullarhnoðri en það er óþarfi að sletta fram því harðasta og ógeðfelldasta sem fyrir finnst uppá daglegt líf. Ég vil geta flogið, sama þótt lendingin verði hörð...þá get ég a.m.k. sagt að ég hafi flogið, sem er meira en sumir geta sagt um sína ævi.

Inflúensa mín þessa dagana er ekki sú líkamlega inflúensa sem herjar á þjóðina heldur tónlist Ray LaMontagne. Eftir að doksi komst að þeirri niðurstöðu að ég væri með heiftarlega vöðvaþreytu og vott af millirifjagigt mælti hann með eftirfarandi (auk þess að skrifa uppá gigtarlyf..seðillinn er enn óhreyfður): ekkert stress, meðalhreyfing, halda hita á efri hluta líkama og nuddi.
Gulldrengurinn Ray veifar burtu öllu stressi sem umkringir mig, meðalhreyfing mín er badminton, göngutúrar, klifur og nú ætla ég að prófa jóga..anti-stress hreyfing og auk þess sjálfstyrkjandi.

Nú er ég búin að vera leyniljóska í næstum mánuð og ég veit ekki ennþá hvernig ég kann við mig. Er ekki gjörn á að lita hárið en ákvað á afmælisdaginn að myrkja hárið: brúnt, með vott af rauðum blæ. Held að minn saklausi ljósi háralitur komi alltaf til með að hafa vinninginn!

Jæja, framundan er ný vinnuvika, eða skólavika hjá öðrum! Njótið..
~ : ~

Engin ummæli: