Stefnumörkun þjóðarbúsins:
Margar bölspár eru til um framtíð jarðar, matarkistuna sem er að klárast, olían gufuð upp og gróðurhúsalofttegundateppið er að kæfa okkur og gera pólasvæðin að engu. Það er engin leið að segja hvernig framtíðin verður en það er margt til í þessum kenningum og er það siðfræðileg skylda okkar að huga að því hvernig við göngum um landið okkar. Við höfum fengið landið að láni hjá afkomendum okkar sagði vitur maður á sínum tíma, við berum ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum og hingað til hefur það gerst kynslóð eftir kynslóð að jörðinni er skilað í verra ástandi til þeirrar næstu. Hvað þarf að gerast til að allir skili uppsprettu lífsins áfram til næsta í betra ástandi en þeir tóku við henni?
~ : ~
Hér á landi á sér stað hrópandi hröð slátrun á jörðum. Frístundabyggðarbrjálæði hefur gripið hvern og einn einasta Íslending. Stjórnvöld hafa lítið sem ekkert gert til að búskaparmenningin viðhaldist, að stunda hefðbundin búskap og hvað þá lífrænan eða lífefldan er ekki ákjósanlegt viðurværi. Jarðir eru keyptar fyrir morðfé af hinum og þessum fjárfestum sem sjá engin önnur auðæfi falin á svæðinu nema framkvæmdarmöguleika. Jörðin er bútuð niður í ákjósanlega margar einingar, gróður og búskaparleifar rifnar upp með rótum til að ryðja veginn fyrir framtíðinni og þeim lúxus lífskjörum sem þykja svo sjálfsögð, að eiga íburðamikinn sumarbústað.~ : ~
~ : ~
Hvenær þóknast þeim sem landinu stjórna að taka á þessum málum? Kannski þegar búið er að skipta upp öllum bújörðum og ekki er hægt að leita til bænda um mat í þjóðarbúið? Stundum langar mig að taka mér vel valdann legg af feitum sauð og banka í háttvirta hausa og athuga hvort það kvikni ekki týra í koldimmum stjórnmálahausum. Ég bið og vona að börnum þjóðarinnar verði gert hátt undir höfði sem vilja viðhalda heilum jörðum og nýta það sem landið gefur af sér á hógværan hátt (útfærist sem sjálfbærni).
Ég á mér draum um að eignast sjálf jörð þar sem ég hefði mínar kindur og kýr, hesta og hænur, akur og móa. Ég vil sjá um jörðina og láta hana sjá um mig og mína. En hvernig á ég að keppa við fjárfesta með gull í hendi og gyllinæð? Hver hefur fjárhagslega heilsu í svona brjálæði?
~ : ~
Nú nefni ég dæmi sem mér er hjartans mál: jörð sem er talin 30 hektarar og liggur nærri Grundarhverfi á Kjalarnesi, mínum heimaslóðum. Þarna lauk búskap fyrir rúmum 60 árum en tún hafa verið nýtt áfram og einhver búseta í litlum kofa á jörðinni yfir sumartímann. Þetta litla en fallega hús er í algjörri niðurníslu og varla hús lengur, bara útmáð beinagrind með vott af fornri fegurð. Vegslóðar eru horfnir eða óökufærir og svona mætti lengi telja. Þessi jörð er metin á einar 300 milljónir, eða 10 milljónir/ha. Með þessari auglýsingu hefði fasteignasalan allt eins getað skrifað: fyrir frístundabyggðarbrjálæðinga fjárfesta einungis. Ég kem til að gráta þegar jörðin hefur verið seld og slitin í sundur.
~ : ~
Tíminn líður allt of hratt
Engin ummæli:
Skrifa ummæli