Be careful what you wish for..
Hún móðir mín góð átti afmæli í gær, tugirnir orðnir fimm hjá henni. Fékk meira að segja almennilega klausu í laugardagsmogganum af því tilefni! Við fjölskyldan, samtals sjö manns, fórum út að borða á Nítjándu, jólabrunch. Rosa fínt og ekki frásögur færandi nema það að það var komið færandi hendi í lok veisluborðhalds, þjónn með svaka tertu. Ég var búin að biðja um, fyrir fram, hvort þeir gætu ekki laumað einni spes sneið að mömmu en nei..heila bombu komu þeir með, í lok máltíðar þegar allir voru á blístrinu! Sæll..hún var svo fallega skreytt með ávöxtum og herlegheitum að við píndum í okkur smá sneið en síðan fengum við að taka restina með heim. Það er enn afgangur inn í ísskáp!
En já..mamma fékk ósk uppfyllta á afmælisdaginn sinn, en hún er alveg miður sín yfir því hvernig hún rættist. Þannig er það að mamma er björgunarsveitarmaður af líf og sál og hún óskaði sér þess að hún fengi útkall á afmælisdaginn. Og viti menn, um kveldið þegar fjölskyldan var rétt búin að hlamma sér fyrir framan skjáinn og Mamma mia mynddiskur á leiðinni í tækið kemur útkall. Leit að týndum einstaklingi. Nú, sólarhring síðar, er einstaklingurinn því miður ekki enn fundinn, sem er hræðilegt, og ekki það útkall sem mamma óskaði eftir. Afmælisbarnið er núna á leiðinni heim af vettvangi, til að hvílast í ca. 7 tíma, áður en hún fer aftur í leit á morgun. Allur mannskapur er dauðþreyttur og persónulega er ég úrvinda. Kalt inn að beini eftir vægast sagt nístandi kalda næturleit og síðan ekki jafn kalda, en kalda engu að síður, dagleit. Var búin að finna eitt ansi gott lýsingarorð yfir leitarskilyrði þarna á svæðinu en búin að steingleyma því..en eitt er víst að hendurnar mínar koma til með að líða fyrir frostið eitthvað út vikuna. Í þokkabót náði ég að týna einum vettlingi, sem var mér mjög kær og ekki ódýr. En já..leit heldur áfram á morgun, ég gerði mitt besta um helgina en ætla í vinnu á morgun og síðan sinna öðru sem átti að sinna um helgina. Ég þarf m.a. að læra fyrir sjúkraflutningapróf sem eru næstu helgi. Ætlaði að vera svo dugleg að sinna hinu og þessu, en síðan var ég bara dugleg að gera allt annað um helgina.
En nú er komin tími á að klæða sig úr þessum fatalögum sem ég hef verið í síðasta sólarhringinn, gefa tönnum kærkomna burstun (ekki beint forgangsatriði á vettvangi) og hringa mig undir mína eigin sæng og reyna að fá upp einhvern svefnhöfga og yl...
Guð gefi að einstaklingurinn finnist á morgunn.