sunnudagur, nóvember 30, 2008

Be careful what you wish for..

Hún móðir mín góð átti afmæli í gær, tugirnir orðnir fimm hjá henni. Fékk meira að segja almennilega klausu í laugardagsmogganum af því tilefni! Við fjölskyldan, samtals sjö manns, fórum út að borða á Nítjándu, jólabrunch. Rosa fínt og ekki frásögur færandi nema það að það var komið færandi hendi í lok veisluborðhalds, þjónn með svaka tertu. Ég var búin að biðja um, fyrir fram, hvort þeir gætu ekki laumað einni spes sneið að mömmu en nei..heila bombu komu þeir með, í lok máltíðar þegar allir voru á blístrinu! Sæll..hún var svo fallega skreytt með ávöxtum og herlegheitum að við píndum í okkur smá sneið en síðan fengum við að taka restina með heim. Það er enn afgangur inn í ísskáp!
En já..mamma fékk ósk uppfyllta á afmælisdaginn sinn, en hún er alveg miður sín yfir því hvernig hún rættist. Þannig er það að mamma er björgunarsveitarmaður af líf og sál og hún óskaði sér þess að hún fengi útkall á afmælisdaginn. Og viti menn, um kveldið þegar fjölskyldan var rétt búin að hlamma sér fyrir framan skjáinn og Mamma mia mynddiskur á leiðinni í tækið kemur útkall. Leit að týndum einstaklingi. Nú, sólarhring síðar, er einstaklingurinn því miður ekki enn fundinn, sem er hræðilegt, og ekki það útkall sem mamma óskaði eftir. Afmælisbarnið er núna á leiðinni heim af vettvangi, til að hvílast í ca. 7 tíma, áður en hún fer aftur í leit á morgun. Allur mannskapur er dauðþreyttur og persónulega er ég úrvinda. Kalt inn að beini eftir vægast sagt nístandi kalda næturleit og síðan ekki jafn kalda, en kalda engu að síður, dagleit. Var búin að finna eitt ansi gott lýsingarorð yfir leitarskilyrði þarna á svæðinu en búin að steingleyma því..en eitt er víst að hendurnar mínar koma til með að líða fyrir frostið eitthvað út vikuna. Í þokkabót náði ég að týna einum vettlingi, sem var mér mjög kær og ekki ódýr. En já..leit heldur áfram á morgun, ég gerði mitt besta um helgina en ætla í vinnu á morgun og síðan sinna öðru sem átti að sinna um helgina. Ég þarf m.a. að læra fyrir sjúkraflutningapróf sem eru næstu helgi. Ætlaði að vera svo dugleg að sinna hinu og þessu, en síðan var ég bara dugleg að gera allt annað um helgina.

En nú er komin tími á að klæða sig úr þessum fatalögum sem ég hef verið í síðasta sólarhringinn, gefa tönnum kærkomna burstun (ekki beint forgangsatriði á vettvangi) og hringa mig undir mína eigin sæng og reyna að fá upp einhvern svefnhöfga og yl...
Guð gefi að einstaklingurinn finnist á morgunn.

fimmtudagur, nóvember 27, 2008

Svartur húmor blómstrar þessa dagana..
..góssentíð hjá Spaugstofu, Baggalút og fleirum:
...
...
...

fimmtudagur, nóvember 20, 2008

Árið 2012
Gömlu dagana gefðu mér,
þá gat ég verið einn með þér,
nú tæknin geggjuð orðin er
gömlu dagana gefðu mér.
...
Mig dreymdi að væri komið árið 2012
þeir tunglið höfðu malbikað og steypt í hólf og gólf.
Já veröldin var skrýtin það var allt orðið breytt
því vélar unnu störfin og enginn gerði neitt.
...
Og ekki hafði neitt að gera útvarpsstjóri vor,
því yfirmaður hans var lítill vasa transistor.
Og þingmennirnir okkar voru ei með fulle femm,
því forsætisráðherrann var gamall IBM.
~ : ~
Gömlu dagana.....já það er margt að rætast úr þessu gamla lagi, nema kannski framkvæmdir á tunglinu! Svartsýnar spár um djúpsteikta "le crèpes" Íslendinga en hver veit nema þetta verði ekkert mál, bara eins og hvert annað skammdegisþunglyndi. Síðan árið 2012 verðum við búin að slá nýtt heimsmet í jákvæðni, bjartsýni og framkvæmdagleði á ný..og jafnvel búin að malbika á tunglinu og byggja orlofshús fyrir nýju bankastjórana og ráðherra!
...
Sjibbí! Nú er hægt að "gegna" mig (ekki gúgla)! Lokaverkefnið mitt (B.Sc.) er komið inn á gegnir.is..veit ekki alveg hvað mér finnst um það að Jón útí bæ geti skoðað verkið, en ég vona að þetta sé bara ágætis rit! :þ
...
Framundan hjá mér: verkleg helgi í EMT-B náminu, stutt í fimm tuga afmæli móður minnar, prófahelgi í EMT-B náminu og starfsþjálfun síðustu helgina fyrir jól..og svo jól!
~ : ~

miðvikudagur, nóvember 19, 2008

Bakk tú ðe past:

Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.
Hávamál
Mæli með því að fólk lesi Hávamál ef það vill bregðast við "ástandinu" á hinn gamla og góða máta án framsóknar.
~ : ~
Ef einhverjir vilja fá útrás...án þess að leggjast í víking...þá mæli ég með eftirfarandi lesningu: Bréf ritað á reiðistigi í sorgarferli.
~ : ~
En nauðsynleg lesning er hér; "Íslendingar verða að endurheimta virðinguna." Brjóstkassi minn þandist út þegar ég renndi yfir þessa frétt og ég fylltist stolti og fortíðarljóma er ég rifjaði upp forsetatíð frú Vigdísar. Ðós vör ðe deis..hvernig væri að ryðja burt öllum óþefnum sem ræður ríkjum hér á landi og hefja okkur upp til vegs og virðingar á ný með Vigdísi á ráðastólum..á ný?
~ : ~

föstudagur, nóvember 14, 2008

My man:

Gerðu það íslenska ríkisstjórn, hlustaðu á það sem þessi spámaður hefur að segja og förum að hans ráðum sem stolt þjóð!

sunnudagur, nóvember 09, 2008

Einfeldni:

Mennirnir eiga tvo vængi, sem hefja þá til flugs yfir jarðneska hluti: Þessir vængir eru sakleysið og einfeldnin.
(De imitatione Christi eða Eftirlíking Krists).

Þessar málsgreinar sem hafa birst hér efst í hverju riti eru teknar úr lítilli bók sem var þýdd árið 1925, en var rituð mun fyrr af C.Wagner, og ber heitið Manndáð. Ekki hef ég gerst svo fræg að lesa þessa litlu fræðslubók um lífið en í upphafi hvers kafla er að finna þessar málsgreinar, teknar héðan og þaðan. Þær heilla mig, mjög svo. Sérstaklega sú fyrsta, þar sem vísað er til fleygra orða Victor Hugo, þess merka manns.

Sakleysið og einfeldnin. Um helgina tók ég til í rýminu mínu í foreldrahúsum og fleygði meðal annars DVD mynd sem hafði legið grafin einhvers staðar, falin. Þessa mynd keypti ég alveg óvart, ruglaði henni saman við einhverja aðra mynd sem ég hafði heyrt vel látið af. Ég hef sjaldan fyllst jafn miklum óhug af kvikmynda áhorfi eins og þegar ég setti þessa á fóninn. 8 mm heitir umrædd mynd og ég hef aldrei lokið við að horfa á þennan viðbjóð. Við það að henda henni í ruslið létti mér að einhverju leyti en helst hefði ég vilja brenna hana.

Ég vil halda í sakleysið eins og ég get, þess vegna er ég ekki æstur aðdáandi hryllingsmynda eða annarra myndgerða sem kalla á adrenalín veinandi viðbrögð. Ég geri mér fulla grein fyrir því að lífið er ekki tyggjóbleikur bómullarhnoðri en það er óþarfi að sletta fram því harðasta og ógeðfelldasta sem fyrir finnst uppá daglegt líf. Ég vil geta flogið, sama þótt lendingin verði hörð...þá get ég a.m.k. sagt að ég hafi flogið, sem er meira en sumir geta sagt um sína ævi.

Inflúensa mín þessa dagana er ekki sú líkamlega inflúensa sem herjar á þjóðina heldur tónlist Ray LaMontagne. Eftir að doksi komst að þeirri niðurstöðu að ég væri með heiftarlega vöðvaþreytu og vott af millirifjagigt mælti hann með eftirfarandi (auk þess að skrifa uppá gigtarlyf..seðillinn er enn óhreyfður): ekkert stress, meðalhreyfing, halda hita á efri hluta líkama og nuddi.
Gulldrengurinn Ray veifar burtu öllu stressi sem umkringir mig, meðalhreyfing mín er badminton, göngutúrar, klifur og nú ætla ég að prófa jóga..anti-stress hreyfing og auk þess sjálfstyrkjandi.

Nú er ég búin að vera leyniljóska í næstum mánuð og ég veit ekki ennþá hvernig ég kann við mig. Er ekki gjörn á að lita hárið en ákvað á afmælisdaginn að myrkja hárið: brúnt, með vott af rauðum blæ. Held að minn saklausi ljósi háralitur komi alltaf til með að hafa vinninginn!

Jæja, framundan er ný vinnuvika, eða skólavika hjá öðrum! Njótið..
~ : ~