mánudagur, desember 12, 2005

Life of students:


Já..það er ekkert sjálfgefið að tilvera nemenda sé eintómt sældarlíf. Hvað þá sveitaliðsins við LBHÍ; fólks sem er í blóma lífsins, leigir úti á landi og stundar nám með sveitaloftið beint í æð.
Nei, nám er lífstíll eins og vitur maður sagði í auglýsingu forðum. Hvurslags lífstíll kemur þá sérstaklega í ljós þegar líður að prófum og þú hefur ekki verið dugleg við að lesa námsefnið. Álíka dugleg við það eins og að fylgjast með kappræðum á Alþingi.
Við skulum líta á nokkur einkenni:

  • nemanda gengur erfiðlega að koma sér á fætur þar sem enginn hvati virðist vera til staðar og skammdegisþunglyndið er farið að síast í gegnum birtuna frá Ikea jólaljósaseríunni.
  • bjór liggur óhreyfður inn í ísskáp (sem er að mestu tómur) og nemandi sér hann í hillingum svífa um loftlausa íbúðina. En eins og flestum er kunnugt neyðast flestir nemendur til að neita sér um þessa forboðnu nautn yfir próflesturstímabilið.
  • innihald ísskápsins í heildina er álíka fjölbreytt & innihaldsríkt og tónlistasmekkur FM957 liðsins. Nemandi er svo uppstressaður og naglanagaður að hlutir eins og næring gleymast þar til garnirnar verða háværari en hugsanasuðið. Þá er stokkið í Bónus, sem er sjaldan jafn fátækt af kaupglöðum nemendum! Orkurík næring eins og nammi og Magic og kaffi fyllir körfuna..
  • óhreina taus-hóllinn er orðinn að ógnandi fjallgarði og þvottavélin hætt að muna eftir nemandanum og farin að telja götin á vindunni sinni.
  • svo eru jólin á næsta leiti og þau fara jafn vel í blóðþrýstinginn og budduna eins og prófin! Jólafríið fer svo í það að kaffæra stressinu í girnilegum og góðum mat og ná sér eftir spennufallið sem aðfangadagur er.

Þetta voru þessi helstu einkenni sem fylgja jólaprófsnemandanum. Ef þið eruð á ferð um Kringluna í jólagjafaferð og sjáið einhvern sem er heldur spastískur í hreyfingum..verið ekki of fljót að dæma; þetta gæti verið hinn sanni jólaprófsnemandi sem er ekki alveg komin úr prófsalnum. Er ennþá kuðlaður við borðið að skrifa með einni hendi og hina hendin annað hvort að klóra hársvörðin í leit að svörunum eða puttarnir afnaglaðir! Sýnið umburðalyndi á þessu hátíðartímabili og gefið þeim ekki falleinkunn við fyrstu sýn!

Gleðileg próf/jól!!

Engin ummæli: