fimmtudagur, september 29, 2005

Vikuendinn:


Yup, enn er snjór í fjöllum og enn ég stödd á Hvanneyri!
Var að klára verkefni í aðferðafræði sem er í engu samræmi við erfiðleika námsefnis! Námsefni er upp á 3 í erfiðleikastigi en verkefnið er meira eins og 20! En..við kláruðum það! Rannsóknarverkefni um sumarexem hrossa! Aha...
Er að fínpússa það núna og svo er það sent til kennarans, sem er í Kína þessa stundina!
Síðan er klukkan fjögur veiðikeppni Hvannó..mæta í lopapeysunni með öngul í kjaftinum, stöngina í hendi og heitt kakó í hinni. Veitt verða verðlaun fyrir tilþrif, stærsta fisk og smæsta o.sv.fr.
Að henni lokinni er fjárhúsgrill, þar sem bændadeildin er komin í hús. Þeir sem veiddu eitthvað geta þá skellt því á grillið, en óferskir aðilar eins og ég geta komið með eitthvað annað...!

Las helvíti merkilega grein í Lifandi vísindi um daginn (nr.3 2005). Greinin heitir Kærleikur er skynsemi, ást er vitfirring. Virkilega umhugsunarverð grein...ef einhver vill lesa
Mikið búin að pæla í þessu síðan ég las hana...ætli það sé þá hægt að sprauta ótrúa eiginmenn með þessum hormónum sem fá hann til að vera einni konu trúr??

~ pæling-spæling ~

þriðjudagur, september 27, 2005

Bandí...bandý...verðum í bandi!

Jæja góðir hósthálsar!

Þá er enn ein helgin liðin og önnur framundan! ;)
Á sunnudaginn keppti ég ásamt 5 öðrum, fyrir hönd Hvanneyringa, á Íslandsmeistaramóti í bandíi! Það fór nú ekki betur en svo að við vorum með enga varamenn, algjörir nýgræðlingar í þessari 'jaðaríþrótt' (nú fæ ég að heyra það frá MR-ingum!) OG...við lentum í sama riðli og íslandmeistarar síðasta árs: Emmerringar!
Þrátt fyrir kjörorðið 'slátur' og eldmóð, svita og örvæntingafullar kylfusveiflur lentum við í 4.sæti riðilsins..þ.e.a.s. neðsta sætinu! En við skemmtum okkur konunglega og svitinn hlaut mikið frelsi! Hvanneyringaliðið keppir á næsta ári undir nafninu Guðni Ágústs eða Guttormur!!

Nú er maður lentur á eyrinni enn og aftur, vetrarharkan er ennþá 6..-6°eiginlega meira! Vindurinn er að auka mátt sinn og meginn og er að valda þó nokkru uppskerutjóni í Eyjafirði, ef ekki annars staðar.

Mætti í körfu í morgunn til að losna við hassperur og fékk að launum ljúffengar pönnukökur í hádegismat! Svo var mér boðið í dýrindis kvöldmat um kvöldið þannig lítið fór fyrir eldamennsku í íbúðinni minni þennan góða mánudag!
Núna er bara að sleikja sig upp við fleiri ágæta Hvanneyringa og fá góð boð inn í hús...og næla sér í matarboð! ;)
Neinei, svona svindlar maður ekki! Af því hlýst ekki sönn ánægja..eins og við ræddum í heimspeki í dag!
Hérna er svona kommúnu stemning..og líka auga fyrir auga, matur fyrir mat! Ég mun með glöðu geði bjóða fólki í mat um leið og ég hef stolið borðstofuborði og stólum frá einhverjum óheppnum..eða náð mér í fleiri pappakassa og púða til að hafa þetta kósí!

Brrr...bezt að skrúfa upp hitann á ofninum og hoppa undir sæng! Sit í forstjórastólnum á brókinni að skrifa þessi orð og verð að segja að mér er ekkert sérlega hlýtt!

Undir sæng og hjúfra hana upp og undir eyru og stórutær!
Þetta öryggisráð er í boði Halldórs Ásgrímssonar!!
~ ° ~

þriðjudagur, september 20, 2005

Gróska á Hvanneyri!

Það er svo sannarlega líf í félaginu hérna!! Hér er mjög virk klúbbastarfsemi og svo ég nefni nú bara nýjustu klúbbana sem er verið að stofna þetta árið: skógræktarklúbbur, ljósmyndaklúbbur, Lomber spilaklúbbur og margt margt fleira!!
Ég er skráð hér og þar sem meðlimur eða lærleggur (lærlingur í stjórn!)...og líka það vel enn sem komið er! Svo kemur það í ljós hvernig ég höndla pressu og ábyrgð! :)
Er komin í pottinn um atvinnu á kránni og er að fara að keppa með Hvannó á Íslandsmeistaramóti í bandí um helgina! Fjölbreytt dagskrá í hverri viku!
Kite surfing námskeið á fimmtudaginn...og ég er að hugsa um að skella mér til Ástralíu næsta sumar!

Núna eru 4 frábærar manneskjur búnar að maula mat með mér hérna í borðlausu íbúðinni minni. Þau hafa gert sér að góðu pappakassi með hilluplötu ofan á, litla ''skák''borðið mitt og svo skrifborðið sem enginn situr við! Og svo eru einungis 2 stólar..forstjórastóllinn valti en góði sem er við tölvuna og hægindastól sem hallar 45°!
Spurning um heimsókn í IKEA fyrst maður er í húsaleigubótadeildinni. Nú vantar bara að maður kræki sér í námslán og lifi vel eins og Þorsteinn í KB banka auglýsingunni!! Shnilld!!

Góðann miðvikudag!!

mánudagur, september 12, 2005

Ó og æ, aumingja ég!!

Já, það hlaut að koma að því, eins gamall og maður er, að fótboltameiðsl færu að líta dagsins ljós! Eitthvað byrjaði þetta nú í sumar en ég hélt ég væri bara soddan aumingi að geta ekki sparkað í bolta lengur! En núna er mín sko orðin hrædd...allt í einu fékk ég þennan verk í mitt hægra lærið að ég táraðist á miðjum blautum velli Hvannó! Ein úti að sparka í tuðru og varla búin með fyrsta skotið! Reyndi að teygja á og nudda með fossana niður kinnarnar og fjúkandi reið yfir því að geta ekki fengið mína tilfinningaútrás með nokkrum dúndrum.
Haltraði til handboltahetjunnar sem er með mér í bekk og spurðist ráða. Hva, Súper-María meidd spurðu strákarnir vinir mínir í næstu íbúð. Varð að bíta í það súra epli að titillinn gæti verið á hraðri niðurleið með þessu...
Sótti hitakremið mitt til lánþega og fór heim og vorkenndi mér meira. Hringdi í mömmu og hún heldur að þetta sé slitnir vöðvaþræðir í miðju lærinu, sem eiga eftir að gróa. Sem þýðir: enginn fótbolti og ekkert álag þar til þetta hefur gróið! Vill einhver skjóta mig...
Get ekki flúið heimalærdóminn lengur, sit í keng með löppina upp á borðinu og er að stafa mig í gegnum landnýtingar greinar og heimspeki krúsídúllur...!
Ætla að elda mér fiskbollur svona til að kóróna þennan dag!!

fimmtudagur, september 08, 2005

Í djúpum skít

Já...er það ekki bara eðlilegt að vera með kúaskít upp undir eyru þarna í sveitinni, spyr sig einhver. Aldeilis ekki...nema þú sért í búfræðideild - verknámi!
Hérna er bara hrein sveitasæla: ómur af leikskólakrökkum að hlaupa frá sér vitið í frímínútunum við drynjandi undirspil beljubauls og háværra hrossahneggja. Öll dýrin í skóginum eru vinir hér!
Nei, við erum að tala um öðruvísi skít: lærdómsskít. Er komin á kaf í letihaugnum og átti í mesta basli með að skila verkefnum þessarar viku á réttum tíma! Held að gærdagurinn sé gott dæmi: átti að skila verkefni fyrir miðnætti, búin að skila fimmtudags og föstudagsverkefnunum. Fór í Borgarnes í mjólkurbúðina ásamt fleirum og þegar heim var komið var mér haldið nauðugri viljugri á meðan kjúklingur var bakaður, salat skorið og bjór opnaður. Hjálpaði einni stelpu með föstudagsverkefnið og fór síðan södd og stressuð heim til mín að klára miðnæturverkefnið svo Öskubuska kæmist á ball í fjárhúsinu. Sendi verkefnið inn um tíuleytið, skellti mér í sturtu og töfraði fram ullarnærföt með gullþráðum, gallabuxur með silkiáferð, 66°N blúndum skreytta peysu, glitrandi úlpu og Ecco glerskó. Cinde-f***ing-rella var reddí að fara á ball, með hljómsveitinni Hitabrúsi frá Hveragerði.
Fór með fríðu föruneyti á ballstaðinn, borgaði inn og svo var þorstanum svalað undir hitalampanum, ásamt góðu Hvannóliði. Hljómsveitin reyndist hin versta en Hvanneyringar láta ekki slá sig útaf laginu svo auðveldlega! Drengirnir (og nokkrar sterkar stúlkukindur) skelltu einum kodda undir efri vörina eða sugu upp í nef, komu sér vel fyrir á biðsal klósettfólksins og byrjuðu að syngja gömlu góðu lögin úr réttunum...raddað! Fleiri plöntuðu sér afsíðis á beljubásnum og ræddu hin ýmsu mál. Eða gera eins og hann Egill Spegill vinur minn, mundaði gítarinn, skellti sér upp á svið og tróð ofan í bandið!
Þetta var síðan rifjað upp heima í húsi skömmu seinna við kertaljós, pasta á diski og eitthvað ónefnt kjöt fyrir hina svöngu, bjór fyrir þá þyrstu og sæng fyrir þá þreyttu!

Mikið stuð, mikið grín, endalaust góð og afslöppuð stemning á liðinu sem ég hef kynnst!

Og núna verður lært um helgina...grynnka á letihaugnum...en kvefskíturinn virðist vera að láta kræla á sér! ...þarf að fara að þrífa burt þennan skít! Þrifhelgi í íbúð 207!

Hafið það gott borgarbörnin mín nær og fjær!