þriðjudagur, september 25, 2007

Veflesarar #1:

Ekki hef ég minnstu hugmynd um hve margir úr minni fjölskyldu, hve margir ættingjar, vinir eða aðrir lesa vefrit mitt reglulega eða óreglulega. Engu að síður, stórt knús til ykkar allra! Ég met það mikils að þið nennið að lesa rausið í mér.
En mig langar til að kynna fyrir ykkur mína tryggustu lesendur: mine bedsteforældre,
Frida Lyck og Karl Filbert.

Bedste, I spiller stor rolle i mit liv ligemeget hvor langt er vores imellem.
Selvfölgelige Inga, Helga og Peter også!

Margar minningar á ég góðar sem tengjast dvöl fjölskyldunnar hjá familien Filbert í Sönderborg, Danmörku. Framundan er 2 vikna dvöl hjá þeim í nóvember og af því tilefni ætla ég að rifja upp nokkur minningarbrot sem tengjast heimsókn hjá þeim hjónakornum, sem halda upp á gullbrúðkaup sitt þetta árið.

Hjálpa þeim að halda þrestinum í fjarlægð. Ekki mátti láta hann éta öll jarðarberin frá okkur..hjálpa þeim að tína berin og borða auðvitað..helst úti í sólinni og dýfa þeim í sykur! mmm!

Fá að sitja á kolli inni í bílskúr hjá bedstefar og grandskoða skissur og málverk sem hann hefur gert í gegnum árin, japlandi Gajol nammi sem hann er alltaf með við hendina. Eða hanga fyrir utan litla málarahornið hans þar sem trönur, penslar og litadýrð ásamt sterkri terpentínulykt fyllir hugann. Ég vona svo sannarlega að ég hafi erft hans hæfileika til að teikna og mála..

Hjóla, hjóla, hjóla...mörg hjólin hef ég notað hjá þeim og stækkað upp úr. Þau bedstemor og -far eiga nefnilega ekki bíl og hafa hjólað allt sitt eins lengi og ég man eftir mér. Og við gerum slíkt hið sama þegar við erum hjá þeim. Hjólað á bókasafnið, á verslunargötuna, niðrað strönd með madpakke, að gefa hestunum brauð, út í Sönderskov og litast um eftir skógardýrum. Hve kát ég var þegar ég fékk "nýtt" notað hjól sem bedstefar málaði bleikt fyrir mig!

Hveitibollusúpan hennar bedstemor var og er einn af mínum uppáhaldsréttum. Bedstemor er töfrandi meistarakokkur og gengur sá hæfileiki í erfðir..alla vega til mömmu! En semsagt bedstemor ávítaði mig alltaf fyrir að veiða hveitibollurnar uppúr og sneiða hjá kjötbollunum. Eins var mér skammtað eitt egg á dag því ég var sjúk í gróft rúgbrauð með eggi og remúlaði (og er enn). Hádegisverðarborðið hjá þeim er nottla engu líkt! Þvílíkt úrval af áleggi þekkist bara á fínustu hótelkeðjum heims. Enda er brauðsneiðin hjá Frikka bróa alltaf eins og skýjakljúfur.
Já bedstemor ræður ríkjum í eldhúsinu en það er einn hlutur sem bedstefar fær að hafa útaf fyrir sig. En sá illa lyktandi ostur þarf sko að vera í plastpoka og vel þéttu plastíláti til að fá að vera áfram í ísskápnum! Bedstefar alltaf jafn stríðinn að ota boxinu að manni og síðan ískraði í honum þegar maður fitjaði upp á nefið. Bedstefar grínar eins og Michael Gambon ef þið hafið séð hann hlæja yfir brandara eða einhverju..

Þegar ég var yngri var ekkert mál að vakna áður en sól kom upp og þá fór ég með bedstemor og -far í morgunsund. Eftir sund var hjólað í morgunskímunni til bakarans og keypt splunkuný og glóðvolg rúnnstykki í massavís og rúgbrauð. Allir svangir eftir sundið og ilmurinn myndi svo sannarlega vekja restina heima fyrir!

Glamrað á píanó. Ég lærði tæknilega séð aldrei á neitt hljóðfæri. Ekki einu sinni blokkflautu sem allir 5 ára geta blásið sig í gegnum nú til dags. En heima hjá þeim er píanó sem bedstemor spilar oft á ef maður biður fallega eða þegar henni ofbauð glamrið í okkur systkinum á yngri árum. Þangað laumuðust nefnilega litlir forvitnir fingur í tíma og ótíma og var útkoman ekki alltaf til fyrirmyndar. En bedstemor var dugleg að ota að mér bókum og nótnablöðum sem hún á í stafla við hliðiná píanóinu. Mörg íslensk lög leynast þar í millum enda vill hún halda sinni góðu íslensku í þjálfun. En það varð úr að ég gat fikrað mig í gegnum nokkur laglínur og tókst meira að segja að semja mína eigin og hripa niður á nótnablað sem bedstemor gaf mér!

Lesa bækur úti í garði. Í Danmörku er öðruvísi lánakerfi en hérlendis og má bedstemor til dæmis taka ótakmarkað magn af bókum meðan þú mátt einungis taka 40 stykki hérlendis. En þegar við brói vorum yngri lagaði mamma aðeins söguna og sagði að bedstemor væri á sér samningi hjá bókasafninu og mætti þess vegna taka fá lánaðar allar bækurnar á bókasafninu. Agndofa göptum við á bedstemor og þarna öðlaðist hún takmörkunarlausa virðingu okkar, bókaorma barnabörnin hennar. Létum hana fá búnt af myndasögubókum (eins mikið og við gátum rogast með á hjólinu heim) og um leið og við vorum komin heim var brunað beint út í garð með bækurnar, flatmagað í sólinni, lesið og skoðað þar til bakið var skaðbrunnið og við neyddumst til að setjast inn.

Já þær eru margar góðar minningar sem ég á frá Danmörku með foreldrum mömmu, systkinum hennar, ættingjum og vinafólki fjölskyldunnar. Er efni í þykka bók enda upplifun sem spannar það sem liðið er af minni ævi. Langt er síðan ég hitti mína bedsteforældre og því er tilhlökkunin endalaus núna! Hlakka til að sjá ykkur!!

Engin ummæli: