Þrettánd-inn
Ákvað, í kertaljósi þess að í dag er 13.des og ég gerði grein fyrir máli mínu síðast 13.nóv og ég á afmæli 13.okt, að heiðra þessa tölu og uppljóstra djöfulli merkilegri uppgötvun minni.
Tímasetning tilraunar: síðasta vel upplýsta kvöld mitt í borg óttans áður en för var haldið norður á eyrar Hvannarinnar.
Staðsetning tilraunar: á leið minni á Kjalarnesið frá reðurrisanum Smáralind á dimmbláum metalfáki mínum, pakksöddum af verðandi hátíðarpökkum.
Tilgangur tilraunar: að botna endanlega hringavitleysu skipuleggjenda höfuðborgarsvæðisins..komast að því hversu mörg hringtorg ég myndi þeysa um ef ég færi Elliðaárvatnsleiðina frá Smáralind út á Suðurlandsveg og síðan Vesturlandsveg.
Merkilegt nokk þá höndluðum við 13 hringtorg, ég og fákur minn fríði. Hefði getað tekið eitt í viðbót því jú..Kjalnesingar geta stoltir lýst því yfir að þeir séu hluti af höfuðborgarsvæðinu því þeir státi líka af hringavitleysu!
Yfir og út..er farin að sofa með jarðvegsfræðiskít í augunum (próf á föstudaginn). Losna ekki við próflestrarskítinn fyrr en 21.des og þá hellast yfir mann hátíðlegheitin á fullum fimm.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli