I see changes
Sumt breytist ekkert og annað breytist. Breytingarnar geta þó verið svo sáralitlar að augað nemur þær ekki nema horft sé tilbaka en síðan geta breytingarnar verið svo snöggar að maður er sem sleginn. Viðmótið verður að fá að jafna sig í takt við breytingarnar, fá að samþykkja þær og vera sáttur.
Er ég rölti um niðdimmt Grundarhverfi Kjalarness og horfi upp á stjörnubjartan himininn sem lítið breytist geri ég mér þó grein fyrir því að sýn manns breytist. Ég til dæmis horfi ekki sömu augum á stjörnurnar nú eins og ég gerði þegar ég var lítil telpa, með rauðar eplakinnar og hor í nös, úti að grafa mér göng í gegnum snjófjallið sem snjómokarinn skildi eftir í Seljahverfinu. Grunnskólamenntun og áframhaldandi nám hefur veitt mér innsýn í hvernig þær mynduðust, hvar við erum í sólkerfinu, hvað stjörnuhrap er og svo framvegis. Einnig hafa mín fróðleiksþyrstu litlu systkin frætt mig um stjörnumerkin á himninum, en þau standa klukkutímum saman úti í kvöldkyrrðinni með þolinmóðum foreldrum okkar og spekúlera í stjörnukortum og himninum.
Taktföst hljóð hrífa mig frá glitrandi stjörnuþakinu niður á jörðina. Á körfuboltavelli hverfisins stendur hópur af másandi hressum konum að hita upp fyrir stafagöngu kvöldsins. Bak við þær heldur leiksvæðið áfram , síðan tekur við upplýst göngustígakerfi hverfisins sem greinist inn á milli fjölda nýlegra raðhúsanna. Allt í kringum mig raðast húsalengjur upp en í huga mér hrynja þau niður og þegar rofar til kemur upp mynd af hverfinu þegar ég flutti þangað. Í stað göngustíga og leiksvæðis breiða úr sér mjaðjurtarengjar, bláu og rauðu raðhúsin eru einu raðhúsin í hverfinu, allir þekktu þau, og til norðurs eru hestahagar svo langt sem augað eygir. Þangað öslaði ég himinhátt grasið til að gefa ho-ho brauð.
Lengra komst ég ekki í þeirri hugsun þar sem ég varð að bjarga mér frá falli á ísilagðann göngustíginn. En lengi gæti ég haldið áfram um drastískar breytingar á aðstöðu Grundarhverfisíbúa.
Ég bý tæknilega séð ekki lengur á Kjalarnesi. Er í námi á Hvanneyri og leigi þar íbúð ásamt annarri stelpu. Þar sem foreldrar mínir eru ríkir af barnamergð þá varð ég að víkja úr mínu herbergi á Kjalarnesinu og koma mér fyrir á svefnsófa í bílskúrnum þegar ég kem í heim..í heimsókn.
Ástæðan fyrir því að ég var heima á Kjalarnesinu þetta skiptið var vegna snöggra breytinga á föstum punktum í lífi mínu og fjölskyldunnar.
Amma var fallin frá. Ég þekki ekki þessa tilfinningu að missa einhvern mér svo nærri þannig þetta var mér áfall þrátt fyrir þá vissu að hún myndi falla frá fyrr eða síðar. Amma Una hefur..hafði átt við líkamlega erfiðleika að stríða um nokkra stund. Í fyrstu yfirgáfu orðin hana og að lokum var hún í engri tengingu við umhverfið eða þá sem veittu henni félagsskap. Það tók mjög á að sjá elsku ömmu svona á sig komna og langt er síðan ég gat að lokum ekki fengið mig til að heimsækja hana. Ég vildi hugsa til hennar eins og hún var upp á sitt besta, syngjandi glaða yfir vel snyrtum blómabeðum sínum, bakstri eða öðru sem hún tók sér fyrir hendur. Eða ávítandi okkur systkinin fyrir að glamra á orgelið hennar kæra.
Margar góðar minningar á ég tengdar henni ömmu. Allar sumarbústaðaferðirnar með tilheyrandi söng við bálköst að kveldi til, heita potts svaml, jarðarberja og gulrótauppskera, spilakvöld og besti hafragrautur í heimi við morgunverðarborðið. Og stundum lumaði amma á lítilli kók í “ísskápnum”, sem var lítil hola á skuggsælum stað neðst í einni lautinni. Seint gleymast ljúffengu pönnsurnar hennar sem voru engum líkar, lambahryggur á sunnudögum og heimagerður rjómaís með dósaávöxtum í eftirrétt.
Ég sinnti stolt “hlutverki” mínu sem skipuleggjandi silfurtaus skúffunnar og eftir að hafa raðað öllu pent þar fékk stundum að skoða skartgripina hennar. Já..amma hélt að okkur hlutverkum og við sinntum þeim af ábyrgð: fylltum skálina á ofninum af vatni þegar hún var þurr (raki fyrir inniblómin..), sópuðum brattar útitröppurnar og stéttina og tíndum rifsber..þó sum hafi leitað strax ofan í maga. Þegar því var lokið fórum ég og Friðrik út í Yfir, yfir húsþakið, eða Verpa eggjum, sem reyndist erfitt oft á tíðum þar sem Kaplaskjólsvegur 56 er bárujárnsklætt að hluta til og boltinn fór því sínar leiðir.
Það var stór fjölskylda sem kvaddi Aðalheiði Unu á föstudaginn var. Athöfnin var yndisleg og orgelið gamla góða, sem var gefið Neskirkju, fékk að taka þátt. Það var ekki þurr vangi í kirkjunni eftir yndislegt og angurvært samspil einsöngvarans og orgelsins og minningar streymdu fram á meðan flutningi á Þú fagra blómið blóma stóð. Þá fyrst fann ég sorg og söknuð streyma burt með tárum og um flæddi hlý tilfinning, líkt og þegar jólaandinn færist yfir mann. Var þá viss um þann létti fyrir ömmu að yfirgefa líkama sinn og gladdist með þeim afa að geta verið saman á ný. Jarðneskar leifar þeirra hvíla einnig hlið við hlið.
Þú fagra blómið blóma
Þú fagra blómið blóma sem blómstrar jörðu á,
þú fegurst rósin rósa sem reynist vera´oss hjá.
Í garði þeim sem gengur þú er gjarnan þig að sjá.
Þú fagra rósin rósa sem reyndist vera´ oss hjá .
Þín angan unað vekur og örvar lífsins þrá.
Hún sorg og sút burt hrekur og sefar grátna brá.
Því gakktu hljótt um garðinn þinn og grunda hvert eitt spor.
Þú fagra blómið blóma sem blómstrar sérhvert vor.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli