Jólarólegheit!
Já..það var nú ekkert mikið stress á liðinu sem kom að versla hjá mér á Þorláksmessu. Ó nei, frekar nokkrir kærulausir skrautlegir menn! Lyktin var heldur ógeðfelld á köflum; skötulykt og brennivínslykt.
Eftir langan, skrautlegan og annasaman vinnudag var öslað með pakka í hendinni á Hard Rock Cafe til að setjast aðeins niður. Við barborðið sá maður strax nokkra viðskiptavini frá því um daginn..að fylla á endalausann tankinn! Ég entist nú ekki lengi í reykingastibbunni þannig ég fór út í frostið og keyrði af stað heim, endalaust þreytt.
Morguninn eftir: pakkað inn og vælt með jólalögum..farið í jólabaðið, andlitið sett upp, smellt sér í jólafötin og drifið sig út í bíl með gjafir handa vinum. Gaf og þáði: pakka, kossa, knús, óskir um gleðileg jól. Allt partur af því að gera jólin að því sem þau eru...
...alveg eins og biðin eftir því að klukkan verði sex! En loksins kom að því og þá var sest við borð og tekið til við að hesthúsa hangikjöt að vestan...með ora grænum og egils malt og appelsín (og auðvitað fullt af öðru meðlæti).
Eftir dýrindis mat og uppvask (jep..við erum ekki með uppþvottavél) var þrammað inn í stofu þar sem úrval af gjafapappír beið eftir dómsdegi sínum. Þau yngri voru miskunnarlaus...tættu pappírinn í sig á meðan þau eldri fóru hægar í þetta: þolinmæði þrautir vinnur allar!
En í miðjum klíðum pípir gemsinn hjá mömmu..neyðarlínan! Ert ekki að grínast...það er útkall!
Mamma fleygir í mig einum pakka og segir að það sé bezt að ég opni hann áður en ég skipti um föt. Ég breytist í miskunnarlausan gjafapappírstætara og í ljós kemur björgunarsveitajakki! Vúhú loksins! Smelli mér í cintamani, marmot, 66°N og fleiri góð merki sem halda á mér hita og í nýja jakkann yfir..með bros á vör! Ég og mamma brunum upp í hús og skiljum restina af fjölskyldunni eftir í upppakkningu.
'gleðileg jól' og 'ég var ekki búinn að opna alla pakkana' voru algengar setningar meðal björgunarmannanna...þar til alvaran tók við. Leit að manni í Reykjavík...vonsku veður úti og hann á inniskóm! En sem betur fer fannst hann, góð jólagjöf!
Nú er það bara að éta og liggja á meltunni..horfa á TV og hlusta á tónlist...bara hafa það gott, hvernig sem það verður!! Enn og aftur...gleðilega hátíð dúllurnar mínar og farið vel með ykkur!
Framundan: ball á 2. í jólum..og svo áramótin með tilheyrandi glimrandi skemmtun og gleði!!