Litbrigði ljóssins
Þetta er allt að koma til. Vorið er að springa út, gengur samt erfiðlega að losa sig úr faðmi vetursins, en ég er sátt með það að faðmlagið haldist fram yfir páska..svo vetraríþrótta iðkendur geti lokið góðum vetri með stæl! Síðan má vorið koma af fullum krafti, þó það sé alveg búið að tilkynna komu sína..
Ýmislegt er að koma í ljós undan vetri..skærustu perurnar í ljósaseríunni Reykjavík hafa fölnað og jafnvel slokknað með öllu. Bauhaus og Korputorg. Frekar tómleg perustæði, sem blasa við þegar keyrt er inn í borgina frá norðri, þó Korputorg skrimti enn. Svo er spurning hvernig fer með þá „allra fegurstu“ sem enn er í smíðum..tónlistarhúsið.
Ég hef semsagt síðustu vikur frá því ég skrifaði hér síðast inn verið á ferð og flugi um landið að rifja upp gamla snjóbrettatakta. Byrjaði á Dalvík, Böggvistaðafjalli, helgina 20.-22.febrúar og hef varla stoppað síðan þá! Alveg forfallin…Akureyri-Hlíðarfjall tvær helgar í röð, Eskifjörður-Oddsskarð og að lokum Akureyri-Hlíðarfjall! Er eflaust komin vel upp í verð á árskorti, hefði verið sterkur leikur að kaupa slíkt strax. En það er bara næsta púður season, ætti að vera búin að leggja snjóbrettinu í bili..gerði það með semingi síðustu helgi. Beinhimnubólga lagast víst ekkert af sjálfu sér og eftir þrjár ferðir niður Skálafellið þarsíðasta föstudag skreið ég að bílnum og varð að viðurkenna að þetta væri eiginlega ekki hægt lengur. EN..brettið fer með norður núna á morgunn, ásamt hitapokum, legghlífum og bólgueyðandi!
Annað sem á daga mina hefur drifið: lét fjarlægja stóran blett, sem ég hef haft svo lengi sem ég man eftir mér, í hjartastað. Sporin sem þurfti að sauma voru aðeins fleiri en ég bjóst við og mér leið eins og hluti af mínu sjálf hefði verið skorið í burtu. En sárin eru gróin, eymsli horfin og með þetta fína bleika ör í hjartastað...er ekki ennþá orðið hvítt eins og hjúkkan talaði um, hlýtur að fara að koma að því!
Helgina 20.-22.mars fór ég í árshátíðarferð með félögum úr björgunarsveitinni og hressum krökkum í unglingadeildinni. Gistiaðstaða okkar var í Húsafelli, nánar tiltekið Gamla bæ, frábær kósíheit í þriggja hæða gæðahúsi..sem reyndar hallaði ískyggilega til vesturs minnir mig. Margt og mikið var gert um helgina, reynt við Langjökul en það tókst ekki betur en að eitthvað gaf sig undir einum af bílunum. Æfðum okkur þá í að festa okkur, losa úr festum, grafa snjóhús og renna sér á blöðrum. Sundlaugin í Húsafelli var tekin út, eðal grillsteikur hvert kvöld og svakafjör.
Ég flutti inn og flutti út í þessum mánuði sem er afstaðinn. Prófaði að leigja hjá vinkonu í 101 og komst að því að það var ekki fyrir mig. Þannig ég er flutt aftur heim í 116..en stefni á það að koma mér fyrir í póstnúmerinu 600..Akureyrarbæ! Maður er bara með langtímamarkmið kallinn minn..
Páskar páskar páskar..étið á ykkur gat af ýmsum kræsingum, njótið þess að gera eitthvað eða ekki neitt! Ætla að lokum að deila með ykkur málshætti sem ég fékk í páskaeggi nr.1 um daginn..það páskaegg var ekki etið af mér..“holdið er torvelt að temja“.
~ : ~
Engin ummæli:
Skrifa ummæli