mánudagur, nóvember 16, 2009

Roðagylltur blær yfir dimmum dalnum
~ : ~
Ég bý í einni menguðustu borg Evrópu.
Svifrykið er nú alveg sér kafli út af fyrir sig, en núna á ég við ljósamengun. Hvert sem gefur að líta er ljós, gervibirta, friðarsúla. Falleg hugsun en svakaleg mengun.
~ : ~
Vetur er að skella á og ég sakna stjarnanna.
Hef ekki ennþá fundið mér góðan stað til að stara upp til himins og dást að glitrandi hvolfinu. Ætla að skottast í Laugardalinn við tækifæri og kanna hvort ég finni ekki myrkvaðan stað til að laumupúkast um!
~ : ~
Nóvember mánuður hefur flogið hjá, aðventa hefst á morgun. Fer að styttast í jólin, hátíð ljóssins.
Fagna því þegar roðagylltur blærinn öðlast styrk á ný. Í desember mánuði er hugað að sjálfum sér og sínum nánustu en einnig náunganum. Tími heitra drykkja, kryddaðs bakkelsis, sveipa sig ullarteppum og flíkum, þyrla upp snjó og gleði, hlusta á kjarngóða jólatónlist og styrkja góðann málstað.
~ : ~
Fyrir jólin bendi ég á þessa síðu: Allt um jólin - Vistvernd í verki. Þarna er meðal annars stungið upp á ýmsum skemmtilegum hugmyndum að jólagjöfum.
~ : ~

sunnudagur, október 04, 2009

Fallvalt lífið
Margar uppákomur henda mann á lífsins leið, einhverjar gerast svo snögglega að það þyrmir yfir mann en aðrar gerast hægt og rólega. Allt hefur þetta áhrif á mann en hvort áhrifin eru góð eða slæm veltur á atburðinum og manni sjálfum.

~ : ~

Haustið er gengið í garð með þvílíkum látum. Úrhelli af vatnsdropum í öllum mögulegum formum..rigningu, slyddu, snjó og hagléli. Eins er dagsbirtuna að þverra. Leið eins og kærleiksbirni á gamla Spacewagon jálknum eitt kveldið þegar myrkvað var úti. Setti háuljósin á og þetta var eins og þegar kærleiksbirnirnir hrópuðu "starið"! Þvílíkur ljósgeisli! Gamli stendur fyrir sínu..
~:~

Er að skjóta rótum í póstnúmerinu 104, umkringd heimsfrægum Íslendingum með hönnunar loftljósin sín og klessumálverkin. En ég kann betur að meta stuttar vegalengdirnar, gömul trén sem slúta yfir gönguleiðir og smávinina fagra. Nokkrar góðar vinkonur hafa lagt leið sína til mín í heimsókn en formlegt innflutningparty fer að skella á. Reikna þó með að stærðargráðan á því verði svipuð og í Flight of the Conchords þegar party var haldið í nýju íbúðinni sem var á stærð við skáp. Þröngt mega sáttir sitja!

~:~

Fór á langþráða leikhússýningu í gærkveldi: Harrý og Heimir. Sat á fremsta bekk ásamt litla bróðir Bjarna og vorum við svo nálægt sýningunni að við fengum svitann fljúgandi yfir okkur! Fimmaurabrandarar í massavís, í bland við sviðsmynd og persónusköpun sem virkjar ímyndunaraflið!
Brilliant sýning í alla staði sem fær unga jafnt sem aldna til að flissa! Karl Ágúst Úlfsson, Sigurður Sigurjónsson og Örn Árnason fara á kostum ásamt brellumeistara.


~:~


sunnudagur, ágúst 09, 2009

What a feeling

Ég finn yfirleitt á mér þegar tími er kominn að nýju riti..á vefinn. Ótal hugdettur hafa kviknað til lífs, velkst um, ómótaðar..svo þegar hugdetturnar eru orðnar nokkrar, vefjast þær saman í eina hug mynd sem flæðir um huga minn, berst með æðum fram í fingurgóma. Þá pára ég niður hugmyndina.
~ : ~
Ég veit að tími mili rita hjá mér er heldur langur, en það er langt síðan ég ákvað að vefritið yrði ekki notað lengur í hversdagsyfirferð (vaknaði, borðaði etc.) heldur í einstaka hugmyndir og vangaveltur ofnar saman við það helsta sem ég hef upplifað frá síðasta riti. Vonandi eru fáar, góðar færslur teknar fram yfir margar, rýrari færslur!
~ : ~
Ég hef oft fengið hrós fyrir skrif mín og teikningar, alveg frá barnæsku. Ég og bróðir minn gerðum oft heilu leikritin/myndasögurnar og fluttum fyrir foreldra okkar. Yngri systkinin mín hafa einnig verið dugleg á sama sviði og ég vona að þau haldi því áfram. Með tímanum lagðist þetta á hilluna hjá mér, þó einstaka sinnum hafi það komið fyrir að ég rifjaði upp gamla takta. Ég vona að hæfileikarnir séu enn til staðar þó þjálfun hafi engin verið!
~ : ~
Í mér blundar fagurfræðilegur rómantíker og ég hef hugsað mér að vekja hann til lífs, hvetja og hrósa. Fyrr í sumar var mér tjáð að ég byggi yfir miklum hæfileikum sem ekki væru nýttir, ég ætti eftir að eiga frábæran starfsframa og það ætti eftir að ganga upp hjá mér með bækurnar. Í huga mér var sáð hugmynd og hefur hún verið að festa rætur og vonandi vex hún og dafnar. Skrifa..teikna..mála..hvað sem skapandi er!
~ : ~
Mér var sýndur mikill heiður fyrir þó nokkru síðan þegar mjög góð vinkona mín bað mig að skrifa á myndspjöld því henni líkaði svo vel rithönd mín. Það hefur tekið mig alllangan tíma að viðurkenna fyrir sjálfri mér að rithönd mín sé falleg, ég hafi sterkan frásagnastíl, góða teiknihæfileika, sé einstök persóna og eigi allt það bezta skilið. Ég hef alltaf sett náungann fram yfir sjálfa mig, fylgst með og stutt vinkonur mínar, vini og ættingja í gegnum þeirra þroskaferli og séð þau blómstra. En gleymt mínu sjálfi. Nú er komið að mér, þótt fyrr hefði verið! Er að vinna í mínum málum og breytningar eiga sér stað og munu eiga sér stað.
~ : ~
Margt hefur gerst í sumar og margt er framundan. Í júní fór ég í frábæra jeppa/göngu/skíða/brettaferð í Hvalvatnsfjörð með mörgum einstökum einstaklingum frá Akureyri.

~ : ~
Í júlí fór ég á fjórðungsmót hestamanna á Vesturlandi. Eins og ávallt var það í góðra vina hópi!

Um miðjan júlí fór ég ásamt Gönguhópnum Handan við hæðina austur að Langasjó. Rúmlega 20 manna hópur af litríkum og frábærum einstaklingum, flestir skyldir en allir tengdir einhverjum böndum. Að þessu sinni var ég sett fararstjóri og var það mjög áhugaverð lífsreynsla! Sveinstindur, Skælingar, Gjátindur, Eldgjá og endað í Hólaskjóli. Ég labbaði því miður einungis á Sveinstind og í Skælinga sökum ótímabærrar bæklunar, en þá er bara eitthvað til að stefna að síðar meir!

~ : ~
Gæsun á Hönnu Björt í lok júlí heppnaðist frábærlega! Allt var eins og best var á kosið: komumst allar, gott veður, vel heppnuð dagskrá og æðisleg stemming! Núna erum við allar með spennuhnút í maganum og hlökkum til brúðkaupsins í lok mánaðar! En áður en sá dagur rennur upp þá er á dagskrá hjá mér Danmerkurferð. Heimsækja bedstemor og -far og fjölskyldu mömmu. Hlakka óheyrilega til!
~ : ~
Í september flyt ég síðan úr 116 póstnúmer í 104. Hef skoðað, fylgst með og borið mig eftir vinnu og húsnæði norður á Akureyri í hálft ár en ekkert markvert gerst. Get ekki setið lengur og beðið, flyt mig um set á höfuðborgarsvæðinu (og krossa putta með búferlaflutninga til Akureyrar!).
Njótið allz!
~ : ~

laugardagur, maí 02, 2009

og á morgunn rís maísól

Já ég held að við getum öll verið sammála um það að sumarið er komið, dagatalið segir það..sumardagurinn fyrsti er liðinn..hverjum er ekki sama um smá flösu í Esjunni!
~ : ~
Flest allir búnir að kjósa samkvæmt sinni stjórnmála samvisku. Get sagt það alveg hreint út að ég kynnti mér ekki kosningaloforð og markmið flokkanna til hlítar, mér fannst vera einhver skyndibita bragur á þessu. Þannig að í tilefni dagsins, kosningadagsins, var skyndibiti í matinn hjá mér, hagkvæm skyndilausn..sem ég sá samt eftir síðar meir þegar ég tefldi við páfann. En...vona það besta varðandi meltinguna hjá stjórnmálasamstarfinu, svo útkoman verði góð fyrir Íslendinga og land.
~ : ~
Áður en við missum okkur í heilagleikanum og þjóðarstoltinu..hafið þið hlustað á Evróvisjon framlag okkar Íslendinga þetta árið, með atburði liðins veturs í huga?? Gengishrun, samskipti við Breta, Sjálfstæðisflokkur og ný ríkisstjórn..fór það kannski alveg fram hjá mér (af því að ég horfði ekki á undankeppni Söngvakeppni sjónvarps) að þarna sé verið að vísa í "ástandið í þjóðfélaginu"? Ég verð bara að viðurkenna það þá að ég vissi það ekki..
..en lagið verður bara betra fyrir vikið því ég veinaði af hlátri!! Ekki skemmir fyrir hádramatískt myndband af Íslendingi svífandi um á bleiku skýi (loftkastali útrásavíkingsins) sem sýnir kaupgleði sína með tíðum klæðaskiptum!

You say you really know me
You’re not afraid to show me
What is in your eyes
So tell me ’bout the rumors
Are they only rumors?
Are they only lies?

Falling out of a perfect dream
Coming out of the blue

Is it true? Is it true?
Is it over?
Did I throw it away?
Was it you? Was it you?
Did you tell me
You would never leave me this way?

If you really knew me
You couldn’t do this to me
You would be my friend
If one of us is lying
There’s no use in trying
No need to pretend

~ : ~

Og yfir í allt annað..mæli hikstalaust með myndinni X-men Origins: Wolverine! Í henni má finna öll lykilatriðin sem prýða þurfa góða mynd að mínu mati..skuggalega flottir leikarar (Hugh Jackman og Ryan Reynolds), smá rómantík, drama, eðal húmor, spenna, pínu viðbjóður, sjúklega flottar brellur, söguþráður og "plot" sem heldur manni gjörsamlega límdum við tjaldið! Mér leið eins og tólf ára á ný, lesandi og glápandi á hetju- og hasarefni með andvörpum og hrifningarópum..!
~ : ~

þriðjudagur, apríl 07, 2009

Litbrigði ljóssins

Þetta er allt að koma til. Vorið er að springa út, gengur samt erfiðlega að losa sig úr faðmi vetursins, en ég er sátt með það að faðmlagið haldist fram yfir páska..svo vetraríþrótta iðkendur geti lokið góðum vetri með stæl! Síðan má vorið koma af fullum krafti, þó það sé alveg búið að tilkynna komu sína..

Ýmislegt er að koma í ljós undan vetri..skærustu perurnar í ljósaseríunni Reykjavík hafa fölnað og jafnvel slokknað með öllu. Bauhaus og Korputorg. Frekar tómleg perustæði, sem blasa við þegar keyrt er inn í borgina frá norðri, þó Korputorg skrimti enn. Svo er spurning hvernig fer með þá „allra fegurstu“ sem enn er í smíðum..tónlistarhúsið.

Ég hef semsagt síðustu vikur frá því ég skrifaði hér síðast inn verið á ferð og flugi um landið að rifja upp gamla snjóbrettatakta. Byrjaði á Dalvík, Böggvistaðafjalli, helgina 20.-22.febrúar og hef varla stoppað síðan þá! Alveg forfallin…Akureyri-Hlíðarfjall tvær helgar í röð, Eskifjörður-Oddsskarð og að lokum Akureyri-Hlíðarfjall! Er eflaust komin vel upp í verð á árskorti, hefði verið sterkur leikur að kaupa slíkt strax. En það er bara næsta púður season, ætti að vera búin að leggja snjóbrettinu í bili..gerði það með semingi síðustu helgi. Beinhimnubólga lagast víst ekkert af sjálfu sér og eftir þrjár ferðir niður Skálafellið þarsíðasta föstudag skreið ég að bílnum og varð að viðurkenna að þetta væri eiginlega ekki hægt lengur. EN..brettið fer með norður núna á morgunn, ásamt hitapokum, legghlífum og bólgueyðandi!

Annað sem á daga mina hefur drifið: lét fjarlægja stóran blett, sem ég hef haft svo lengi sem ég man eftir mér, í hjartastað. Sporin sem þurfti að sauma voru aðeins fleiri en ég bjóst við og mér leið eins og hluti af mínu sjálf hefði verið skorið í burtu. En sárin eru gróin, eymsli horfin og með þetta fína bleika ör í hjartastað...er ekki ennþá orðið hvítt eins og hjúkkan talaði um, hlýtur að fara að koma að því!

Helgina 20.-22.mars fór ég í árshátíðarferð með félögum úr björgunarsveitinni og hressum krökkum í unglingadeildinni. Gistiaðstaða okkar var í Húsafelli, nánar tiltekið Gamla bæ, frábær kósíheit í þriggja hæða gæðahúsi..sem reyndar hallaði ískyggilega til vesturs minnir mig. Margt og mikið var gert um helgina, reynt við Langjökul en það tókst ekki betur en að eitthvað gaf sig undir einum af bílunum. Æfðum okkur þá í að festa okkur, losa úr festum, grafa snjóhús og renna sér á blöðrum. Sundlaugin í Húsafelli var tekin út, eðal grillsteikur hvert kvöld og svakafjör.
Ég flutti inn og flutti út í þessum mánuði sem er afstaðinn. Prófaði að leigja hjá vinkonu í 101 og komst að því að það var ekki fyrir mig. Þannig ég er flutt aftur heim í 116..en stefni á það að koma mér fyrir í póstnúmerinu 600..Akureyrarbæ! Maður er bara með langtímamarkmið kallinn minn..

Páskar páskar páskar..étið á ykkur gat af ýmsum kræsingum, njótið þess að gera eitthvað eða ekki neitt! Ætla að lokum að deila með ykkur málshætti sem ég fékk í páskaeggi nr.1 um daginn..það páskaegg var ekki etið af mér..“holdið er torvelt að temja“.
~ : ~

fimmtudagur, febrúar 19, 2009

Speed of sound

Tíminn flýgur og hann náði til mín. Sá hraði sem einkennir íslenska borgarsamfélagið hefur hrifsað mig með sér í streituflauminn og því miður er ég ekki með réttan björgunarhring til að fljóta uppi eins og flestir. Mínir andlegu og líkamlegu björgunarhringir íþyngja mér og er ég það djúpt sokkin að ég hef leitað mér hjálpar. Sálfræðingur og fjarþjálfari..ekki á sama tímakaupi, en hlutverk þeirra eru svipuð: leiðbeina mér, koma mér á flot, að létta mína lund og lendar.
~ : ~
Það gerist allt svo hratt nú til dags. Tæknin gerir okkur kleift að hafa samskipti við aðra á ljóshraða og margt getur gerst í krafti síma- eða tölvupóstsamskipta. Ógrynnin öll af málum eru afgreidd á nokkrum mínútum sem í fyrndinni tók nokkra daga jafnvel vikur að ganga frá..fór allt eftir því hvernig viðraði. Bréfasamskipti, landpóstur, blekpennar og vel ígrundað málfar. Tölvupóstur, háhraða nettenging, lyklaborð og innsláttavillur. Veit alveg hvort heillar mig meira þessa dagana þegar ég er viðkvæm fyrir öllu álagi og dramatíkin í mér að gera mig geðveika.

~ : ~
Ég vil sól, ég vil bragða á sólskininu...get ekki beðið eftir sumrinu!
Eftir Noregsferð mína fyrir stuttu, þar sem ég átti góðar stundir með vinkonum, góðri frænku minni og hennar fjölskyldu, kom ég heim með sólskin í flösku: SANA-SOL!! Um leið og ég opnaði flöskuna við heimkomu barst mér að vitum kunnuglegur ilmur og æskuminningar flæddu fram. Ekki annað hægt en að brosa Sólheimaglotti eftir fyrstu skeiðina af heiðgulum veigunum! Nú hefur þessi drykkur bæst í fæðubótarefnisrútínuna á morgnana og mér líður alveg eins og krakkanum framan á flöskunni.

~ : ~
Skíðahelgi framundan, Dalvík er það heillin mín góð! Brettið klárt..nú er bara að pakka einhverjum öðrum óþarfa eins og fataplöggum, svefnpoka og þvíumlíku. Góða helgi!
~ : ~