Roðagylltur blær yfir dimmum dalnum
~ : ~
Ég bý í einni menguðustu borg Evrópu.
Svifrykið er nú alveg sér kafli út af fyrir sig, en núna á ég við ljósamengun. Hvert sem gefur að líta er ljós, gervibirta, friðarsúla. Falleg hugsun en svakaleg mengun.
~ : ~
Vetur er að skella á og ég sakna stjarnanna.
Hef ekki ennþá fundið mér góðan stað til að stara upp til himins og dást að glitrandi hvolfinu. Ætla að skottast í Laugardalinn við tækifæri og kanna hvort ég finni ekki myrkvaðan stað til að laumupúkast um!
~ : ~
Nóvember mánuður hefur flogið hjá, aðventa hefst á morgun. Fer að styttast í jólin, hátíð ljóssins.
Fagna því þegar roðagylltur blærinn öðlast styrk á ný. Í desember mánuði er hugað að sjálfum sér og sínum nánustu en einnig náunganum. Tími heitra drykkja, kryddaðs bakkelsis, sveipa sig ullarteppum og flíkum, þyrla upp snjó og gleði, hlusta á kjarngóða jólatónlist og styrkja góðann málstað.
~ : ~
Fyrir jólin bendi ég á þessa síðu: Allt um jólin - Vistvernd í verki. Þarna er meðal annars stungið upp á ýmsum skemmtilegum hugmyndum að jólagjöfum.
~ : ~