Practical memories..
Einhvers staðar á leiðinni hef ég týnt öllum þeim hnittnu orðum eða fagurfræðilega heimspekilegum vangaveltum sem ég hafði ætlað mér að setja hér inn.
Alltaf á ferð og flugi, Kjalarnes-Hvanneyri-Kjalarnes-Reykjavík-Kjalarnes. Á þessu flugi mínu er nóg framboð af stressi og óvissu en aldrei tissjú til að pára niður hugrenningar eða -dettu. Þannig þær hafa oftast endað á munnþurrku sem ég finn í bílnum en fá síðan að standa undir nafni eða gegna hlutverki snýtuklúts og því fara hugarsmíðar mínar oft í ruslið. Hef því oft sagt við sjálfa mig að ég komi til með að muna í þetta skiptið..þetta sé nú svo fjári góð fluga sem flaug mér í haus! En alltaf hverfur flugnasuðið að lokum og ég stend eftir með tómt vindgnauð í kollinum.
En núna ætla ég að reyna að ráða bót á máli því ég hef látið pranga inn á mig mjög feminíska dagatalsbók sem ber nafnið og fullyrðinguna "Konur tala allan ársins hring". Förum ekkert nánar út í það..falleg kápa..og ætla ég að færa inn í þessa skruddu það sem mér liggur á hjarta (skruddan er skreytt með fljúgandi hjartalaga fiðrildum..ekki krúttulegum hjörtum heldur real hjörtum).
~ : ~
Það sem mig langar að tjá mig um núna og næstu daga, vikur jafnvel mánuði eru hlutir...hlutir sem hafa fylgt mér mest alla ævi og eru orðnir að "practical memories". Hlutir sem gegna enn sama hlutverki, traustir og klassískir hlutir eða hlutir sem hafa fengið annað hlutverk.
~ : ~
Fyrsti hluturinn sem ég greip á heimilinu er hárþurrkan. Ég held að hver einasta nútímakona myndi falla í öngvit ef hún vissi að heima hjá minni fjölskyldu hefur bara verið ein hárþurrka. Og hún er enn í notkun. BaByliss 1200 hágæðagripur sem gerir það sem hann á að gera og ekkert auka. Einföld hönnun, einn takki..tvær stillingar á styrk..1 eða 2. Flóknara er það ekki. Það er ekki mikið um dútlerí hér á bæ og ekki verið að bruðla í nýja hárþurrku ef það er til ein sem gerir sitt. Þessu hefur miðsystirin á heimilinu bölvað oft og mörgum sinnum. Mér er farið að þykja óendanlega vænt um þessa þurrku sem er einn af traustu punktunum í lífi mínu. Hún er orðin svo gömul að hún er orðin klassík..svarthvítt gæðatæki. Trygga þurrkan mín með ég-er-með-fast-hár-inn-í-mér hitalykt sem neistar stundum af gleði!
~ : ~
Hér eru myndir af gæðagripnum..spurning um að senda BaByliss póst og spyrja um framleiðsluár? Er einhvers staðar á bilinu 1980-1990..
~ : ~
~ : ~
~ : ~
~ : ~
~ : ~